Færsluflokkur: Bloggar

SÍMGREIÐSLUR.

Upp poppaði fregn í dag þess efnis að borgarfulltrúar fá ekki niðurgreiddan síma í fæðingarorlofi.  Sem þýðir væntanlega að símtölin séu annars einatt borguð af skattgreiðendum.   Hvenær fáum við nóg?


SKIPTIR FORMAÐURINN MÁLI?

Skondið að fylgjast með baráttu formannsefnanna tveggja fyrir landsfund sjálfstæðisflokks.  Sá sem vinnur er forsætisráðherraefni og æðstistrumpur sjálfstæðismanna næstu misseri.  Illa gengur að kreista úr helsta framáfólki flokksins hvorn frambjóðandann það vill.   Skýringin væntanlega óvissan um úrslit en illt er að hengja sig fyrirfram á þann sem tapar.  Betra er að halda leiðum opnum.  Þó kosning formanns sé innnbúðarmál sjálfstæðismanna gæti hún komið okkur öllum við.  Sem forsætisráðherra tel ég raunar hvorugan kandídatinn boðbera nauðsynlegra breytinga á íslenzku samfélagi, held tryggð beggja meiri við flokkinn en þjóðina.  Eina ráðið til að láta þessa kosningu ekki koma okkur við er að kjósa annað í komandi kosningum hvenær sem þær verða.


BANANALÝÐVELDI OG RÆNINGJABÆLI.

Rétt um þrjú ár eru liðin frá hruni.  Rannsóknarskýrzla alþingis er líkast bezta nálgunin á atburðarrásina og niðurstaða hennar sú að nánd stjórnmálastéttarinnar við helstu gerendur á fjármálamarkaði var of mikil.  Alþingi sótti aðeins forsætisráðherrann sjálfan til saka og miklar líkur virðast á sýknun.  Hinir sakborningarnir sitja á þingi, í Róm og nú Afganistan.  Þannig virðist stórkostleg glámskyggni stjórnmálamanna ekki hamla áframhaldandi lúxusferðalagi þeirra á vegum skattgreiðendanna sem þeir brugðust.  Hvert sem litið er má sjá stjórnmálamenn hrunsins, annaðhvort ennþá á alþingi eða í feitum stöðum annarsstaðar.  Samtryggingin er augljós, þeir mæla hver með öðrum og flokkarnir sjálfir velja sína frambjóðendur.  Glufan til breytinga er þröng og þannig vill fjórflokkurinn hafa það áfram.  Hvað viðskiptalífið snertir hefur ekkert hinna fjölmörgu mála sérstaks saksóknara leitt til fangelsisdóms, ekki enn.  En lagaramminn er gisinn og því óhægt um vik.  Helstu gerendur hrunsins leika þannig lausum hala og þó þeir skili af sér tómum þrotabúum eru þeir langlíklegustu kandídatar næstu uppsveiflu og sumir þegar byrjaðir.  Skilaboðin eru skýr:  Ísland er er að festa sig í sessi sem bananalýðveldi og ræningjabæli. 
 


HVERS VEGNA ÞRÝSTIR SAMFYLKING Á SÖLU GRÍMSSTAÐA?

Úr vöndu er að ráða með Grímsstaði á Fjöllum.  Hreppapólitíkin er augljós í málinu og tengzl samfylkingar við kaupandann orka tvímælis.  Erlend fjárfesting er eftirsóknarverð en skiptir engu máli hvers eðlis hún er?  Plön kaupandans eru að koma á fót ferðaþjónustu á svæðinu og golfvelli.  Í fyrsta lagi má spyrja hvort þessi hálendisjörð sé kjörin til golfiðkunar og í annan stað hvers vegna minni skiki dugi ekki undir áðurnefnda starfsemi? En kaupandinn vill víst allt eða ekkert.  Sömuleiðis geta loforð um afsal vatnsréttinda verið haldlítil þegar fjármagnið er annars vegar, þess er valdið og hefur þjóðin ítrekað brennt sig á plani A fyrir kaup sem breytist í plan B eftir kaup.  Tengzl stjórnmálaflokka við fjármagnseigendur hafa valdið íslenzkum almenningi miklum búsifjum og satt að segja vildi ég sjá skotheld auðlindalög fram komin áður en við stígum óyfirveguð skref.  Landið okkar og auðlindir eru farmiðinn til framtíðar og þegar viðskiptaráðherra ber við skaðabótaskyldu íslenzka ríkisins verði kaupin ekki heimiluð rekur mann í rogastans.   Og þetta gerir hann þó ljóst sé að salan sé ólögleg nema með sérstakri undanþágu.  Þennan þrýsting viðskiptaráðherra er erfitt að útskýra nema eitthvað liggi að baki og þá minnist maður fyrrgreindra tengsla samfylkingar og kaupandans.   Reynsla þjóðarinnar af samspili stjórnmálaflokka og fjármagnseigenda hreinlega útheimtir að gera ráð fyrir þessum möguleika.  Þess vegna finnst mér betur heima setið að sinni og vona félagi Ögmundur synji þessum jarðarkaupum.
 


HROTUR Í ÞINGSAL.

Umræður á alþingi voru snarpar í dag og kváðust a.m.k. tveir þingmenn stjórnarandstöðunnar andvígir nýrri stjórnarskrá.  Sú skoðun virðist enn eiga sér fylgismenn að alþingi eigi að sjá um verkið sem er undarlegt í ljósi sögunnar því þrátt fyrir margar tilraunir alþingisnefnda gegnum árin hafa allar misfarist nema í tilviki mannréttindakaflans.  Ennfremur ætti flestum að vera ljós þverstæðan sem fólgin er í því að alþingi fjalli um sjálft sig í stjórnarskrá.    En sumum er sama.  Evrópumálin voru einnig í deiglunni og lýsti utanríkisráðherra óbilandi trú sinni á evrunni og styrkingu hennar.  Vigdís Hauksdóttir var á öndverðri skoðun en bæði eru gangandi dæmi um óhagganlega stjörnudýrkun.  Sem er slæmt því ómögulegt er að sjá fyrir þróunina í Evrópu næstu misseri.  Því er betra að flýta sér hægt og fá meiri botn í atburðarrásina áður en lengra er haldið.  Kannski ættu þingmenn að taka Árna Johnsen sér til fyrirmyndar og sofa á þessu.
 

KOSTNAÐARSAMUR LÍFSSTÍLL.

Nú karpa þingmenn um fjárframlög til menningarhúsa í sínum kjördæmum og vilja sumir jöfnuð milli landshluta í þeim efnum.  Ekki hefur rekstrargrundvöllur menningarhússins Hofs á Akureyri reynst beysinn.  Að sögn ráðamanna biðu landsmenn Hörpunnar með óþreyju og sérlega sinfóníuhljómsveitin eftir tilhlýðilegri vinnuaðstöðu.  Hún hefur nú boðað verkfall.  Landhelgisgæslan þurfti að leigja skip sitt til miðjarðarhafsins í sumar vegna fjárskorts en poppar nú upp með glænýtt 4ra milljarða lúxusskip.  Rekstur landsspítala er í járnum og berjast menn þar á bæ við þjónustuskerðingar á viðkvæmum sviðum.  Í sigtinu er samt glænýtt risasjúkrahús sem samrýmist fimm sinnum stærri þjóð.  Meðan þrýstihópar geta vafið um sig stjórnmálastéttinni og hún sjálf elskar vinnu sína og lífsstíl svona mikið eru raunverulegar þarfir þjóðarinnar fyrir borð bornir.  Því sannast sagna væri landsmönnum miklu meiri akkur í fleiri aurum í eigin vasa og áframhaldandi aðgangi að grunnþjónustu en öllu ofannefndu.  Það er a.m.k. mín skoðun.


HVAR ERU SAMFLOKKSMENN ÓLÍNU?

Forsvarsmenn útgerðarmanna svara í dag ummælum Ólínu Þorvarðardóttur þess efnis að ríkið verði af umtalsverðum tekjum þar sem ekkert veiðigjald sé innheimt af makrílveiðum.  Yrði veiðigjald af makríl samræmt veiðgjaldi skötusels myndi það gefa þjóðarbúinu um 9 milljarða í árstekjur.    Ástandið er hinsvegar 90 aurar/kg sem gefur 140 milljónir.  
Meðalkílóverð makríls 2010 var 136 kr/kg.  90 aurar af því er 0,7%.  Forsvarsmenn LÍÚ segja veiðigjald í líkingu við það sem Ólína nefnir gera veiðarnar óarðbærar.  Samt leigðu íslenzkar útgerðir makrílkvóta af Færeyingum fyrir 100 kr/kg.  Afhverju er arðbært að borga Færeyingum 100 kr/kg í veiðigjald en óarðbært að greiða eigin þjóð 42 kr/kg?  
Rökleysur LÍÚ koma ekki á óvart en hvernig stendur á þögn samflokksmanna Ólínu? 
Afhverju bakka þér hana ekki upp í jafn augljósu hagsmunamáli fyrir íslenzka þjóð?
 
 


FORMANNSSLAGUR.

Hanna Birna tók af skarið í dag og fer nú um suma.  Þó hún yrði að öllum líkindum fyrir valinu almennt séð þá mun róðurinn vera þungur meðal landsfundarfulltrúa.  Og þeirra einna er kjörklefinn.  En sigri Hanna Birna eru líkur á stærri sjálfstæðisflokki eftir næstu kosningar.  Ekki viss um að það þjóni þessari þjóð því samantekið held ég litlu skipta hvor þessara kandídata veljist til formennsku, flokkurinn mun ekki taka nauðsynlegum breytingum.    Ég spái Bjarna sigri en tæpum.  
 
LÁ   

AUÐLINDASÁTT VIÐ ÓLÍGARKA.

Þingmaður sjálfstæðisflokks, Jón Gunnarsson, spurði sjávarútvegsráðherra, Jón Bjarnason, hvort hann hygðist leita sátta við hagsmunaaðila og stjórnarandstöðu um kvótafrumvarpið.  Jón kvaðst stefna að því.  Þetta sýnir svarthol auðlindamála á Íslandi, menn eru tilbúnir að veita ákveðnum aðilum aðgengisforskot að fiskveiðum til 20 ára og síðan möguleika á framlengingu, menn láta afskiptalaust þó veiðigjald til þjóðarinnar sé aðeins brotabrot af aflaverðmætinu og meira að segja er veiðigjald innan einnar og sömu tegundar mishátt milli manna.  Því miður átti Jón Gunnarsson ekki við þjóðina þegar hann talar um hagsmunaaðila heldur þröngan sérhagsmunahóp og kostunaraðila sjálfstæðisflokksins.  Útilokað er að flokkur sem kennir sig við frelsi og einstaklingsframtak haldi slíka tryggð við jafn kommúnískan málstað nema eitthvað komi á móti, eitthvað stórt.

 


GRIKK EÐA GOTT?

Nú fá grikkir þjóðaratkvæðagreiðslu í anda Ólafs Ragnars Grímssonar.  Forkólfar evrópubandalagsins eru slegnir og bjuggust ekki við þessu óvænta útspili gríska forsætisráðherrans.   Heyrst hefur að hann sé að firra sig ábyrgð en það tel ég rangtúlkun.  Eðlilegt  er og sjálfsagt að sú þjóð sem björgunarpakkinn er ætlaður fái að tjá sig um hann.  Annað væri fratyfirlýsing og fyllilega sjálfsagt að þjóðin ákveði sjálf hvað sé grikkur og hvað sé gott.  Nú fer í gang umræða og þjóðarvilji mun endurspegla niðurstöðuna, sem sagt lýðræðislegt og ábyrgt.  Samþykki grikkir björgunarpakkann mun það styrkja grunn evrópusambandsins en höfnun gæti teflt evrusamstarfinu í tvísýnu.  Fyrir Ísland er gott að fá þessa hluti á hreint og því fagna ég lýðræðislegri afstöðu gríska forsætisráðherrans. 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband