ÚT FYRIR RAMMANN.

Ólafur Ragnar opnaði óvænt glugga í dag.  Samkvæmur sjálfum sér hleypti hann dragsúgnum inn og ómögulegt að segja fyrir um framhaldið.   Gjörningur Ólafs, að fá þjóðinni í hendur ákvörðunarvald þessa hvimleiða máls koma landi og þjóð vel.  Mikil sannindi munu reka á fjörur, hald yfirlýsinga sannreynt og dómadagsspáa.   Einungis er verið að takast á um samning, ekki ábyrgð, hana eru flestir tilbúnir að axla.  Á fyrsta degi er áberandi hve illa ríkisstjórnin hefur kynnt okkar mál á erlendum vettvangi.  Og í stað þess að gera það á blaðamannafundi dagsins horfðu ráðamenn í gaupnir sér, lásu af bréfum og hnýttu í forsetann.  Aumleg frammistaða og flokksræðisleg.   Forsvarsmenn þjóðarinnar eiga að hampa lýðræðinu og farvegum þess en ekki að tala það niður og gera tortryggilegt.  Samþykki þjóðin icesavefrumvarpið er það stórkostlegt veganesti fyrir ríkisstjórnina, þjóðina og viðsemjendurna.  Að þessu ætti ríkistjórnin að róa.  Hafni þjóðin hinsvegar frumvarpinu er ljóst að ríkisstjórnin er að ganga erindisleysu.   Niðurstaðan verður því þörf hver sem hún verður.   Gætum líka að einu.  Fjórðungur atkvæðisbærra manna skrifaði undir mótmæli gegn icesavefrumvarpinu.   Hvað myndi gerast ef allt þetta fólk myndi sameinast undir einum hatti og kjósa eigin fjöldahreyfingu á þing?  Það er þetta sem Ólafur Ragnar var að gera í dag, opna nýja glugga og gefa íslendingum tækifæri á að hugsa út fyrir rammann.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég vil að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um að sameina framsóknarflokk og sjálfstæðisflokk.

sjh

sigurður hafberg (IP-tala skráð) 6.1.2010 kl. 09:08

2 identicon

Frábært innleg hjá þér, Lýður, í náttúrulausa umræðu sem styðst við gelda umræðuhefð.

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 6.1.2010 kl. 09:32

3 identicon

Hégómi og náttúrluleysi er hættuleg blanda. Forsetinn er hégóminn en Lýður er hvorki náttúrulaus eða hégómagjarn. En forsetinn átti aðeins einn leik færann: að segja sig frá málinu í heild sinni. Af Bessastöðum í helgan stein.

Úmbarúmb (IP-tala skráð) 6.1.2010 kl. 10:38

4 identicon

Árið 2004 fagnaði ég ákvörðun forsetans.  Ekki endilega vegna mikilvægi téðra laga heldur röskunar á einræði.  Af sömu ástæðu fagna ég ákvörðun forsetans nú og jafnvel innilegar því tímar eru viðsjárverðir og enn brýnna að fá fram raunverulegan þjóðarvilja.  En flestir sem fögnuðu 2004 eru nú í fýlu og flestir sem voru fýldir 2004 eru nú glaðir.  Grundvöllurinn þó sá sami en nýtt lið í brúnni.  Því má spyrja:  Erum við fyrst samfylkingarfólk og sjálfstæðismenn og framsóknarmenn og vinstri græn og síðan íslendingar?   Þurfum við alltaf að fara til útlanda til að vera íslendingar?  Hvað skýrir þennan viðsnúning?

LÁ   

lydurarnason (IP-tala skráð) 6.1.2010 kl. 15:32

5 identicon

Forsetinn er langt frá því að  vera samkvæmur sjálfum sér. 

Hann synjaði þjóðinni um að greiða atkvæði um Kárahnjúkaframkvæmdirnar.

Fjölmiðlamálið var bara sjónarspil manns sem var að hefna sín og stríða forsætisráðherra. 

Núna er hann að hefna sín á Steingrími vegna 20 ára gamalla væringa. 

Ummæli hans um lýðræðið er bara vaðall. 

Sammála fyrsta ræðumanni um sameiningu framósóknar og íhalds.  Ef ekki með góðu þá með illu eins og sveitarfélög og sjúkrastofnanir.

Jón Óskarsson (IP-tala skráð) 6.1.2010 kl. 17:45

6 identicon

Vel má vera að forsetinn sé sekur um sjónarspil og vaðal.  En ákvörðun hans nú er í samræmi við þá fyrri og hún á eftir að sanna gildi sitt fyrir þjóðina.  Sameining framsóknar og sjálfstæðisflokks þarf enga þjóðarsamþykkt og best yrðu þessi vörumerki gleymd.  LÁ

lydurarnason (IP-tala skráð) 7.1.2010 kl. 02:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband