BER GISTIÞJÓÐIN ÁBYRGÐINA?

Franski evrópuráðsþingmaðurinn sem fram kom í Silfrinu í dag átti skot dagsins:   Heimaþjóðin ber ekki ábyrgð á bankastarfsemi á hennar vegum heldur gistiþjóðin.  Nýr vitnisburður og alger viðsnúningur á túlkun ríkisstjórnar Íslands, vitnisburður af vörum afar virts lögspekings sem í ofanálag tók þátt í samningu téðra laga.  Og Steingrímur bíður eftir einhverju áþreifanlegu.  Í þessu er fall hans fólgið, aðgerðaleysi þegar aðgerða er þörf, vantrú þegar tækifærið loksins býðst.  Þetta hugarfar er þjóðinni óboðlegt og sjái maðurinn ekki ljósið verður hann að finna sér arftaka.  Loksins þegar glufa opnast dugir ekki að sitja heima og umbreyta eigin dómgreindarbresti í  fýlu út í forsetann.   Hagsmunir þjóðarinnar eru hagsmunir ríkisstjórnarinnar og  sé okkur hugsanlega stæður nýr samningsgrundvöllur hrein og klár frágangssök að kanna það ekki til hlítar. 

LÁ 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Að gistiþjóðin geti hirt 40% fjármagnstekjuskatt af gróðanum og sagt sig frá allri ábyrgð einfaldlega passar ekki.

Theódór Norðkvist (IP-tala skráð) 11.1.2010 kl. 05:35

2 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ég er hrædd um að mikill misskilningur hafi komið fram í máli Evrópuþingmannsins . Hann virðist standa í þeirri trú að Landsbankinn hafi rekið dótturfyrirtæki í Hollandi og Bretlandi og þess vegna beri Bretum og Hollendingum að standa ábyrgir fyrir innistæðutryggingunum þar sem það sé skýrt tilskipunum ESB (einkum tilskipun 94) að ábyrgðin falli á það land þar sem aðalstarfsemi viðkomandi banka fari fram. Hann túlkar það svo að það séu Bretland og Holland þar sem um dótturfyrirtæki sé að ræða.
Málið er, að Landsbankinn (öfugt við Kaupþing t.d.) fór aldreið að fyrirmælum um að stofna dótturfyrirtæki. Hefði bankinn gert það væri ekkert Icesave vandamál.
Hafi ég skilið mannainn rétt og viðtalið í heild sinni, þá hafa hann og Eva Joly talað þarna á kolröngum forsendum -

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 11.1.2010 kl. 08:20

3 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Afsakið hvað stafirnir urðu stórir - veit ekki hvað gerðist

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 11.1.2010 kl. 08:21

4 identicon

Það er gott að biðja afsökunar.....!

Þorður Sævar Jonsson (IP-tala skráð) 11.1.2010 kl. 09:52

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Málið snýst um siðferði þótt lagakrókar og lagaskilningur hafi yfirhöndina í rökræðunum.

Stofnanir þriggja lýðræðisþjóða, Íslands, Bretlands og Hollands bera ábyrgð sem menn viðurkenna nú að eigi að láta gilda með því að skattborgarar þessara þriggja ríkja leggi fjármuni til lausnar þess.

Það er ekki siðferðilega rétt að innistæðueigandi í útibúi Landsbankans í Kópavogi hafi fengið innistæðu sína tryggðar haustið 2008 en innistæðueigandi í útibúi Landsbankans í Bretland ekki.

Það er svona álíka eins og að framleiðandi bíls bæti smíðagalla á bíl í einu landi en hlaupi frá því í öðru.

Ég held fram "fair deal", sanngjarnri skiptingu þessarar ábyrgðar og hvað snertir hvern skattborgara þessara þriggja landa er það ekki sanngjörn skipting að hver íslenskur skattborgari greiði 24 sinnum meira en hver skattborgari hinna landanna.

En hér gildir líka það sem Íslendingurinn sagði við danska valdsmanninn sem lét hann finna fyrir valdi sínu. Þá sagði Íslendingurinn: "Ég stend á réttinum þótt ég verði að beygja mig fyrir valdinu."

Í þessu liggur vandi okkar.

Ómar Ragnarsson, 11.1.2010 kl. 12:06

6 identicon

Sæl, öllsömul.  Gat ekki betur heyrt en að evrópuþingmaðurinn talaði sérstaklega um útibú en ekki dótturfyrirtæki, greip einmitt þennan vitnisburð glóðvolgan því honum hefur ekki verið flaggað fyrr.  Mun athuga þetta betur.  Hrósa þó Ólínu fyrir að vera sýnileg í umræðunni og taka þátt alþýðlega, það mættu fleiri þingmenn gera.  Er hjartanlega sammála Ómari að allar hlutaðeigandi þjóðir eigi sök á hve illa þetta fór og rangt sé að nota umdeilt regluverk sem þungamiðju vandans.  Keppikefli Íslands ætti að vera að opna augu alþjóðasamfélagsins fyrir sameiginlegri ábyrgð þessa máls og leysa málið á þeim grundvelli.  Rétt afstaða ríkisstjórnarinnar nú gæti forðað okkur frá hrunflokkunum, röng hinsvegar býður hættunni heim.

LÁ     

lydurarnason (IP-tala skráð) 11.1.2010 kl. 13:30

7 Smámynd: Ólafur Als

Það er einmitt ekki siðferðisleg skylda íslenskra skattgreiðenda að bera uppi innistæðutryggingakerfi fyrir innistæður í útibúum íslenskra banka á erlendri grund. Þó ekki væri annað en að í gistilandi útibúanna sækja menn skatta af vaxtahagnaði þessara reikninga og þar með hljóta verulegar siðferðislegar skyldur hvíla á þarlendum stjórnvöldum. Að auki var féð notað til fjárfestinga í Bretlandi (hvað Icesave varðar þar), þó svo að það fé hafi að nokkru eða verulegu leyti verið notað af íslenskum aðilum. Ef við t.d. gefum okkur að Icesave reikningarnir hefðu verið vistaðir í dótturfyrirtækjum og þetta mál hefði því ekki farið í þann ófarnað sem það nú er, ætla menn eftir sem áður að halda því fram að siðferðisleg skylda hvíli á íslenskum skattgreiðendum? Hvað með t.d. dótturfyrirtæki Kaupþings, sem hrundi í kjölfar hryðjuverkalaganna og í kjölfarið Kaupþingsbanki sjálfur? Hvar er hinn siðferðislegi grunnur þess máls?

Því er ekki mótmælt að íslenskir eftirlitsaðilar brugðust, líkt og þeir bresku og hollensku. Sú afstaða hvílir fyrst og fremst á regluverki því sem Ísland hefur skuldbundist í gegnum EES samninginn. Ef sama regluverk segir jafnframt, að íslenskum skattgreiðendum beri ekki að greiða fyrir hin hroðalegu mistök Landsbankans, einkabanka, sem starfaði undir hatti regluverksins, þá er einsýnt að krafa á hendur okkur er hvorki siðferðislega sterk né lagalega réttmæt. Hún hvílir því aðallega á að þjóðríki komi sér saman um að leysa þetta mál í ljósi gallaðrar löggjafar en ekki að eitt ríki, aðallega vegna smæðar sinnar, taki á sig efnahagslegar klyfjar, sem hún á erfitt með að rísa undir, vegna þess að yfirvöld töldu sig þurfa að beygja sig í duftið fyrir kúgun stórvelda.

Ólína Þorvarðardóttir, ásamt með Birni Vali Gíslasyni, hafa í dag orðið ber að afar sérkennilegri hagsmunagæslu fyrir Holland og Bretland. Í stað þess að taka undir orð hins franska hagfærðings, þó ekki væri nema að hluta, þá hafa þau opinberað sinn vonda málstað, sem hvílir ða siðferðisbresti sömu þingmanna. Þeir virðast taka pólitíska hagsmuni fram yfir hagsmuni samlanda sinna.

Það mun taka tíma fyrir þessa tvo þingmenn að rísa úr þeirri pólitísku skammargröf sem þau hafa grafið sér í dag.

Ólafur Als, 11.1.2010 kl. 23:24

8 identicon

Það er eitt af mörgu sem sem vekur athygli mína á framgöngu tvíeykisins........ Og það er hvað þau eru miður sín, hvernig bretar og hollendingar taka synjun Ólafs á icesave.... ER það eitthvað til að hafa áhyggjur af ?.... Svo er það annað,....hvernig þau bregðast við ábendingum þeirra sem vilja okkur vel....Það er á allan hátt reynt að gera þá tortryggilega....Ekkert mark sé á þeim takandi.......Þetta séu bara Græningjar.

Hvað má til varnar verða vorum sóma ????????

Þorður Sævar Jonsson (IP-tala skráð) 12.1.2010 kl. 00:24

9 identicon

Er sammála sjónarmiðum ÓAls í grunnatriðum.  Held hinsvegar að margir stjórnarþingmenn, eins og t.d. Ólína og Björn Valur, hafi þá sýn að icesavehafi verið í ásættanlegum farvegi og vont að raska því nú.  Þjóðaratkvæðagreiðsla er lýðræðislegur farvegur til að útkljá málin, hitt sem ámálgað var í dag, að finna nýjan sáttagrundvöll er flýtimeðferð þeirrar niðurstöðu að lögunum verði hnekkt. 

lydurarnason (IP-tala skráð) 12.1.2010 kl. 00:41

10 identicon

Hvaða landráðabrigsl eru þetta Ólafur Als? Það veikir málstað þeirra sem ekki vilja greiða fyrir gjaldþrot einkafyrirtækisins að vera endalaust að halda því fram að þeir sem eru á öndverðum meiði elski ekki Ísland nóg. Þetta snýst miklu fremur um stöðumat. Ég met það svo, þrátt fyrir að fyrirlíta þá sem komu okkur í þessa stöðu, að vænlegast sé að klára þetta með samningum. Ég elska Ísland ekkert minna fyrir vikið. Ég elska það heldur ekkert minna þó ég telji hagsmunum okkar betur borgið innan Evrópusambandsins. Ég er heldur ekkert minni vinstrimaður fyrir vikið.

Ég óttast hinsvegar þjóðernishyggju meira en svartadauða. Ég tel hana vera uppsprettu stríða og hörmunga. Það hefur sagan kennt mér.

Grímur Atlason (IP-tala skráð) 13.1.2010 kl. 13:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband