19.1.2010 | 02:39
SAMEINUM STÓR-REYKJAVÍKURSVÆÐIÐ.
Bæjarfulltrúi í Kópavogi sagði sameiningaráform minni sveitarfélaga úti á landi ekki spara fé sem neinu nemi en einfaldi hinsvegar alla yfirstjórn. Kona úr dreifbýlinu kvað alla íbúa síns héraðs mótfallna þessum ráðahag og vilja fá frið með sitt. Aðspurður sagði Kópavogsmaðurinn sameiningu stóru sveitarfélaganna á Reykjavíkursvæðinu ekki komna til tals. En hvers vegna ekki? Sveitastjórnarfulltrúar litlu sveitarfélaganna spandera ekki peningum út um allar jarðir né hanga á rándýrum nefndarsætum. Það eru ekki þeir sem fljúga heimshorna á milli á kostnað sinna sveitunga. Það er ekki þetta sveitastjórnarfólk sem bollaleggur um fokdýrar, óraunhæfar bullframkvæmdir né stundar sjálftöku með fjarverum og frumsýningum. Vandamál sveitastjórnarmála kristallast í þéttbýlinu. Þar keppa sveitarfélögin sín á milli, í vegaframkvæmdum, menningu, mannvirkjum, miðbæjum, lóðamati og lífsstíl. Og allsstaðar eru massív stjórnsýsluapparöt, marglaga völundarhús þar sem vinir og flokksgæðingar spóka sig hér og andfætis, allt í nafni nauðsynja. Fólk þiggur milljónir árlega fyrir nefndarsetur og störf jafnvel þó fjarverandi sé, engum er skotaskuld að brenna hundruði þúsunda í loftferðum og koma svo heim og véla niður vasapeninga eldri borgara. Dagpeningur opinbers starfsmanns í einn dag er meiri en áðurtalið vasafé í mánuð. Allt þetta afætulið þarf að losna við úr stjórnkerfinu og góð byrjun væri að sameina öll sveitarfélög Stór-Reykjavíkursvæðisins í eitt. Sparnaðurinn yrði gífurlegur og öll þjóðin gæti andað léttar.
LÁ
Athugasemdir
Tímabært umræðuefni.!
Tímabært umræðuefni!
Kveðja frá Flateyri.
Kv.frá Flateyri
Þorður Sævar Jonsson (IP-tala skráð) 19.1.2010 kl. 07:24
Á fundinum sem vísað er í kom sérstaklega fram hjá stjórnsýslusérfræðingunum að sunnan að sparnaður eða hagræðing væri ekki það sem réði ferðinni þegar kemur að sameiningum sveitarfélaga - enda hlýtur það að vera reynslan af einhverjum sameiningum sveitarfélaga síðustu árin.
Varðandi sparnaðinn þá liggur það í augum uppi að hann yrði mestur með sameiningu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og þá í annað hvort eitt sveitarfélög eða tvö. Hugsið ykkur hve miklir fjármunir hefðu sparast við uppbyggingu nýrra hverfa ef aðeins eitt sveitarfélög hefði verið á höfuðborgarsvæðinu? Líklega er þar um tugi milljarða að ræða fyrir þjóðarbúið.
Og hvað býr þá að baki áformum um sameiningar sveitarfélaga ef það er ekki hagræðingin sem skiptir máli? Eru þetta e.t.v. einhvers konar trúarbrögð? Kemur ástin á ESB þar eitthvað nærri? (Á umræddum fundi töldu fræðingarnir að stór sveitarfélög væru dásamlegri en þau litlu í augum ESB) Eða snýst þetta einfaldlega um að færa fjármuni og þjónustu úr litlu sveitarfélögunum yfir í þau stærri (aðal) eins og Jenný sveitarstjóri á Drangsnesi talaði um?
Baldur Smári Einarsson, 19.1.2010 kl. 10:10
Í mínum huga snýst sameining sveitarfélaga um almenna skynsemi, hvort sem um er að ræða sveitarfélög hér vestra eða syðra. En almenn skynsemi hefur svo sem ekki átt upp á pallborðið hjá stjórnmálamönnum.
Katrín, 19.1.2010 kl. 10:23
Ef íbúar sveitarfélags geta rekið sitt sveitarfélag, án þess að vera baggi á þjóðfélaginu, þá segir mín skynsemi mér að sjálfsagt sé að þeir geri það áfram.
Ég fæ ekki séð að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafi verið rekin af mikilli skynsemi undanfarin ár. Hagkvæmni í rekstri sveitarfélags hefur ekkert með stærð þess að gera, heldur ráðdeild þeirra sem stjórna því.
Þið vitringar í Arnarhváli látið okkur hin í friði.
Sigurjón Jónsson, 19.1.2010 kl. 10:44
hugmyndir um sameiningu sveitarfélaga úti á landi hefur oft á tíðum verið í ruglinu. td. allt talið um að Vestfirðir sameinist í 1 sveitarfélag. þegar það snjóar þá er styttra fyrir Patreksfirðinga að fara til Reykjavíkur heldur en á Ísafjörð. það væri allt eins skynsamlegt að sameina Patró og Reykjavík.
sveitarfélög með marga byggðarkjarna á ekki að sameina nema það sé eitt vinnusvæði. það sé innan við hálftíma akstur milli ystu marka vinnusvæðisins. annað er bara vitleysa.
Fannar frá Rifi, 19.1.2010 kl. 13:44
Sammála ykkur öllum, ástæðulaust að miðstýra öllu ef hagræðing sé lítil. Litlu sveitarfélögin ættu að sambeita sér að eigin sjálfsbjörg, yfirfæra jöfnunarsjóð sveitarfélaga í eigin tekjustofna sem fá má með auðlindagjaldi, flugvelli og ferðamönnum. Engir eru betur fallnir en við sjálf að þekkja þarfir okkar og áherzlur.
LÁ
lydur arnason (IP-tala skráð) 19.1.2010 kl. 15:05
Hagræðing fæst venjulega ekki með sameiningu. Stjórnsýsla tekur á bilinu 8-12% af heildartekjum sveitarfélaga að jafnaði, hvort sem um er að ræða stór eða lítil sveitarfélög. Hagræðing, ef svo má að orði komast, felst í því að útgjöld sem "sparast" á einu sviði er veitt í aðra málaflokka. En geta stórra sveitarfélaga til að takast á við umfangsmeiri verkefni eykst að sjálfsögðu með aukinni stærð. Vísast þar t.d. til nýlegrar umræðu um sundlaugarmannvirkja á Álftanesi.
Stærð og innbyrðis hlutföll sveitarfélaga er annað umræðuefni, sem ekki mál gleyma. Nú þegar er þriðji hver íbúi landsins í einu þeirra, Reykjavík, og um í hinum 70 eða þar um bil. Á höfuðborgarsvæðinu eru nú 8 sveitarfélög með um 200 þús. íbúa, eða ca. 25 þús. að meðaltali. Raunhæft væri e.t.v. að breyta skipan sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu þannig að íbúafjöldi þeirra væri jafnari og því myndi skapast meira jafnvægi meðal sveitarfélaga í landinu líka. Ekki er víst reyndar að reykvíkingar fallist á þetta.
Jónas Egilsson, 19.1.2010 kl. 17:26
Ég tek undir að það er fyllilega ástæða til að huga að sameiningu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Það þarf líka að gera bragarbót á lagaumhverfi sveitarfélaganna til að reyna að vinna bráðan bug á spillingu innan sveitarstjórnarstigsins.
Við höfum fengið að kynnast henni illilega undanfarin ár hérna á höfuðborgarsvæðinu í þenslunni.
Árni Davíðsson, 19.1.2010 kl. 23:47
Bæði tilkoma ríkisendurskoðunar, sem Halldór Ásgrímsson átti frumkvæði að sem og stjórnsýslulögin, upplýsingalögin, lög um umhverfismat, tilkoma kærunefnda í stjórnsýslunni, sem sett voru í tíð Davíðs Oddssonar, hafa gjörbreytt aðgengi ög möguleikum almennings til að hafa áhrif á framgang opinberra mála, langt umfram það sem flestir gera sér grein fyrir.
Það sem skortir á í stjórnsýslu höfuðborgarsvæðisins, er ekki endilega sameinging. Þá er til slíkt "monster" á okkar mælikvarða sem bæði myndi skekkja alla stjórnsýslu í landinu og færa alla stjórnsýslu enn fjærri íbúunum og þ.a.l. ópersónuegri og auka enn frekar á samþjöppun valds. Stundum hefur verið sagt að Reykjavíkurborg sé e.k. ríki í ríkinu, eins og hún er. Hvað yrði þá sameinað sveitarfélag? Eins yrðu það endalaok fyrir sveitarstjórnarstigið. Hin 70 sveitarfélögin eða þar um yrðu tómt kák við hliðina á þessu stóra sveitarfélagi.
Það sem þarf að gera er að setja skýrari lög um hlutverk sveitarfélaga. Samstarf sveitarfélaga, eins og t.d. í skipulagsmálum, á ekki vera valkvætt. Það ætti að vera skylduverkefni. Eins á samstarf um rekstur Strætó vera þannig að þjónustan og gjaldskrá sé með eins og ákvarðanir um þessi atriði sé miðlæg, ekki í höndum einstakra sveitarstjórna. Orkuveita Reykjavíkur er því sem næst alfarið í höndum eins sveitarfélags, þ.m.t. gæði þjónustu, verðskrá o.fl. Er það sanngjarnt? Uppbygging íþrótta- og annarra þjónustumannvirkja. Vissulega er samkeppni af hinu góða. En þegar hún er farin að kosta skattborgara of mikið, þá er spurning hvort ekki sé þörf á nýrri hugsun. Svona mætti áfram telja.
Sveitarstjórnarlögin og skipan sveitarstjórnarmála taka mið af skipan mála fyrir um 20-30 árum, þegar sveitarfélög voru um 200 og verkefni og umsýsla þeirra mun umfangsminni en þau eru í dag.
Jónas Egilsson, 20.1.2010 kl. 08:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.