FYLGISPEKT VIÐ FÚAKVISTI.

Baráttufundaherferð útgerðarinnar gegn firningarleið er hafin.  Vestmannaeyingar riðu á vaðið og víst að fleiri byggðarlög fylgi í kjölfarið.  En hvers vegna ætli málin hafi æxlast svona?  Hvers vegna stendur fyrir dyrum firning aflaheimilda sem eru keyptar og það dýrum dómum?  Afhverju virðist stór hluti þjóðarinnar svona áfjáður í þetta verk?  Og réttkjörin ríkisstjórn kveðst ekki ætla að bakka með þennan boðskap þrátt fyrir viðvörunarorð og hótanir útgerðarmanna að sigla flotanum í land.   Allt stefnir því í þorskastríð í landi.   En eins og hrunflokkarnir sem ekki gættu  fjöreggs síns standa útvegsmenn í sömu sporum.  Öll stéttin blæðir fyrir verk einstakra manna.  En þau voru líka svívirðileg.  Samt er það sama að gerast í þessum hópi og í stjórnmálaflokkunum, menn losa sig ekki við fúakvistina heldur verja þá falli  eins og líf liggi við.  Hagsmunasamtök útvegsmanna segja neikvæða ímynd sjávarútvegs orsök atgervisflótta úr greininni.  Það er ekki rétt heldur lág laun.   Ímynd allra atvinnugreina endurspeglast í launum.  Hagsmunasamtök útvegsmanna segja  veiðirétt í einkaeigu þjóna best hagsmunum þjóðarinnar.  Hvernig getur það verið þegar fé hefur kerfisbundið verið dregið út úr sjávarútveginum og eytt í alls óskylda starfsemi sem kallaðist útrás og einkavæðing en umbreyttist í innrás og aðför að lífskjörum.  Málflutningur sömu aðila um aðför að landsbyggðinni, eyðileggingu sjávarplássanna dæmir sig sjálfur.  Verstöðvar landsins reiða sig ekki lengur á auðlindina heldur kvótakónga sem verður að hafa góða og jöfnunarsjóð sveitarfélaga.   Hvers konar lágkúra er það?  Vel reknar útgerðir sem byggja vilja á eigin veiðiskap eiga samt sinn málstað en hann verður aldrei varinn undir gjammi núverandi forystu LÍÚ.  Sú afstaða að þetta komi engum við nema hagsmunaaðilum er gengin sinn veg og miklu betra fyrir útvegsbændur að ganga til sátta við þjóð sína.   Ný forysta með nýja sýn væri góð byrjun.

LÁ  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Útgerðarmenn vilja margir hverjir líta á aflaheimildirnar sem sína einkaeign þó það eigi sér enga stoð í lögum, sem segja þvert á móti "að aflaheimildonum sé úthlutað til eins árs en slík úthlutun geti aldrei myndað eignarétt".  Við sem lesum lögin eins og þau eru skrifuð viljum tala um innköllun aflaheimilda en ekki firningu, enda er réttur stjórnvalda til að breyta, jafnvel afnema fiskveiðistjórnunarkerfið skýr. Það er ekki við almenning að  sakast þó menn hafi látið peninga ganga á milli sín í trausti þess að lögum veði aldrei framfylgt.  Hitt er annað hvort menn ha

Sigurður Þórðarson, 22.1.2010 kl. 07:20

2 identicon

...það er greinilegt að þið vitið ekkert um hvað þið eruð að tala. Upphrópanir einar eins og öll umræða virðist vera um sjávarútveg á íslandi.

Þú spyrð: Hvers vegna stendur fyrir dyrum fyrning aflaheimilda?

Ástæðan er sú að hugmyndafræði samfylkingarinnar gengur út á að hún eigi að útdeila auðlindinni á "réttmætan hátt". Hún hafði enga stefnu í sjávarútvegsmálum svo hún tók upp á sína arma stefnu frjálslynda flokksins. Vanþekking þeirra er algjör. Frálslyndi flokkurinn eru vestfirðingar sem selt hafa sinn kvóta og sjá eftir því.

Ég hvet þig til að horfa á þennan fund áður en þú svarar:

http://www.youtube.com/watch?v=O9Ftru7xyUA&feature=PlayList&p=D7D852162132A755&index=0&playnext=1

Sigurður G (IP-tala skráð) 22.1.2010 kl. 08:11

3 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ég hætti í miðri setningu...............

Hitt er annað hvort þessi ríkisstjórn hefur einhverja framtíðarsýn varðadi fiskveiðikerfi, ég leyfi mér að efa að svo sé, því miður. Og ef svo er, hvenær ætti það að koma fram?  Færeyingar afnámu kvótakerfið á einni nóttu og þar með brottkastið. Engum heilvita manni dettur í hug að fara til baka. Hérna eru menn að hugsa um að teyja lopann í 22 ár og hafa sjálfir ekki hugmynd um hvað tekur við..

Sigurður Þórðarson, 22.1.2010 kl. 11:27

4 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ágæti, nafni það litla sem ég sá frá þessu í sjónvarpinu var heimskan uppmáluð, s.b.r. kvartanir ykkar um ofveiði á skötusel! Ef annað hefur verið í þessum dúr ætla ég að minnsta kosti ekki að eyða tíma mínum í þetta myndband.

Sigurður Þórðarson, 22.1.2010 kl. 11:38

5 identicon

Er sammála Sigurði G. að útfærsla endurúthlutunar er illa skilgreind en það þýðir ekki að hún sé ómöguleg.  Umræðan snýst of mikið um hverjir seldu og hverjir högnuðust, réttmæti og óréttmæti.  Aðkoma þjóðarinnar að fiskveiðum er afar ólík og beinir hagsmunir mismunandi.  Aðalatriðið er að skilgreina eignarhaldið þannig að þjóðin þurfi aldrei að horfa upp á þá svívirðu sem viðgengist hefur með veiðiréttinn.  Að aflaheimildir á Íslandsmiðum séu undir hömrum erlendra lánadrottna segir allt sem segja þarf.

lydurarnason (IP-tala skráð) 22.1.2010 kl. 15:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband