FÁRÆÐI LÝÐRÆÐISINS.

3000 manns réðu framboðslista sjálftæðisflokks í borginni.  Kannski 2000 ráði hjá samfylkingu, 700 hjá grænum og 300 hjá framsókn.   7000 borgarbúar.   Hinir mæta eða mæta ekki á kjörstað og fá sína fulltrúa samkvæmt forskrift þessara 7000.  Þetta er öngstræti lýðræðisins og þess vegna kemst fólk áfram þó sannað sé að vondu.   Af sömu ástæðu ganga umbætur hægt enda nýrri hugsun kerfisbundið bægt frá af þeirri gömlu.  Loforð flokkanna um að greiða götu kjósenda til beinna áhrifa virðast gleymd og keppast þeir allir við að flagga umræðunni sem minnst.   Hinn fíni matseðill er í raun ekkert annað en hafragrautur í öll mál.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Eiga þeir sem mæta ekki að hafa jafn mikil áhrif og hinir sem mæta?  Varla sanngjarnt.  Er ósanngjarnt að  áhugasamir og duglegir  flokksmenn hafi meira um flokkinn sinn að segja en þeir sem eru ekki félagsmenn, áhugalitlir eða jafnvel fjandsamlegir flokknum? Ekki finnst mér það.  Það sem mér þykir verst er hvernig pólitíkusar sniðganga flokksmenn og misnota almannafé til að halda völdum og hygla sér  og sínum. Flokksmenn eru margir svo sauðtryggir að þeir sinna ekki eftirlitshlutverki sínu né nýta þeir sér lýðræðislegt vald og festa þannig spillingu í sessi óafvitandi.

Eigum við ekki annars að fara að huga að stofnun flokks?

Sigurður Þórðarson, 27.1.2010 kl. 05:22

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þetta hefur verið álitamál og deilumál svo lengi sem ég man. Svarið sýnist mér fólgið í annari spurningu. Hvort er vinnufólkið í stjórnsýslunni fulltrúar stjórnmálaflokkanna eða samfélagsins? Því varla er nokkur maður svo barnalegur að trúa því að öll þau fjölmörgu álitamál sem afgreiða þarf á fjögurra ára kjörtímabili séu svo fyrirséð í upphafi að kjósendum sé fært að taka afstöðu til þeirra.

Því miður er sannleikur málsins sá að til þess að ganga í augum á kjósendum nota frambjóðendur barnalegan populisma en þegar til kastanna kemur þá vinna sumir þeirra undir stjórn hagsmunaafla sem styrktu þá til framboðs.

Árni Gunnarsson, 27.1.2010 kl. 10:17

3 identicon

Loksins erum við ósammála, Sigurður.  Málið er að þeir sem kjósa í prófkjörum hafa kannski mestan áhuga á innviðum flokksins og prílinu þar.  Nýti fólk atkvæði sitt í almennum kosningum er það merki um pólitískan áhuga sem að mínum dómi er ekki ósannari en framboðsslagurinn.  Auk þess er um miklu fjölmennara og fjölbreyttara úrtak að ræða fyrir utan hið augljósa sem er nauðsynlegt frammistöðumat á verkum þeirra sem fyrir sitja.  Árni hittir naglann á höfuðið með hagsmunavogina sem virðist æ meira hníga í átt að sérhagsmunum og frá grundvallaratriðum. Árni er líka með skýringuna sem er peningaítroðsla stuðningsaðila og vinsældahark.

lydurarnason (IP-tala skráð) 27.1.2010 kl. 18:04

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ef persónukjör verður tekið upp breytist þetta. Þá munu allir kjósendur hvers framboðs ráða röðinni í kjörklefanum með þráðbeinu lýðræði.

Ómar Ragnarsson, 28.1.2010 kl. 00:27

5 identicon

Einmitt, Ómar, það er það sem þarf.

lydur arnason (IP-tala skráð) 28.1.2010 kl. 01:57

6 Smámynd: Einar Þór Strand

Bara að halda því til haga að það voru 198 sem réðu hjá Framsókn.

Einar Þór Strand, 28.1.2010 kl. 15:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband