31.1.2010 | 02:41
AUGAFULLT TUNGL.
Undarlegur dagur. Og kaldur á vesturslóð. En fagur. Vonbrigðin voru tekin í býtið með frakkaleiknum en síðan haldið til mótmæla á Ísafirði. Var hundurinn og konan með í för. Hún ók en ég skóf. Í kaupstað stóð á tröppum rithöfundur og fyrrverandi fjólmiðlamögur, Finnbogi Hermannsson, og syrgði örlög svæðisútvarpsins. Þung undiralda var í máli hans og undirliggjandi reiði. Samreiddust viðstaddir og segist mér svo að ekki sé búið að setja punktinn aftan við þetta mál. Hitti síðan bæjarstjórann í Hamraborg sem kvaðst hafa gleymt mótmælunum og kannski ekki furða eftir svona landsleik. En sammála var hann og rjóður í kinnum. Óshlíðin skartaði sínu á heimleiðinni og ljóst að einhvers er að sakna þegar gatið opnar. Lýðsdætur biðu heima með Lýðsson en fóru svo að skemmta eldri borgurum með gleði og söng. Sem minnti mig á að draga niður í vasapeningnum. Tóku laugardagssætindi Lýðsdætra mið af því. Bestar þykja mér lakkrísrúllurnar en hundurinn er með tannrótarbólgu þetta skeiðið og óvenju lystarlítill. Miðnæturgangan var undir augafullu tungli og heyrðust hlátrasköll víða úr húsum. Kannski kreppan sé eftir allt saman líka jákvæð.
LÁ
Athugasemdir
Það er menningarleg forsmán ef svæðisútvörpin verða lögð niður. Klár afturför. Ég sleiki sárin á þjóðarstoltinu yfir enn einum rassskellinum frá Frökkum á handboltasviðiðinu. Svo tók ég að hugsa málið. Erum við ekki haldin glórulausri árangurshyggju, þ.e.a.s. að við teljum að eina leiðin að farsæld sé árangur og þá sem bestur. Ef fólk gáir ekki að sér fer sóknin eftir árangri að skyggja á velferð okkar og hamingju. Þetta er ein af helstu orsökum hrunsins á Íslandi. Þetta veldur því líka að íþróttastarf er ekki eins mikil forvörn gegn fíkniefnavánni og af er látið því þeir lökustu er látlaust "höggnir af."
Hvað segir þú við þessu Lýður minn góði? Og hvernig myndir þú greina að árangurshyggju og velferðarhyggju?
Björn Hjálmarsson (IP-tala skráð) 31.1.2010 kl. 12:53
Já, Björn "Kuggur" Hjálmarsson. Ég átti nú ekki von á íslenzkum sigri gegn frökkum en útilokaði ei heldur. Svo unnu strákarnir pólverjana og kannski skemmtilegra að skarta bronsi eftir sigurleik en silfri eftir tapleik. Árangur og hamingja haldast gjarna í hendur, skussagangur gleður engan. Árangur má þó ekki verða að áráttu. Varðandi aðgreiningu árangurs og velferðar tel ég hvorugt sannt án hins. Mælistikan skiptir höfuðmáli og sé henni rétt beitt er alltaf hægt að finna ljós í myrkri.
LÁ
lydur árnason (IP-tala skráð) 31.1.2010 kl. 19:03
Og nú væri ekki úr vegi að enda þessa dramatisku frásögn af tungskinsbörtu kvöldi með dramatiskum endi á þeirri hádramatisku frásögn Gerplu ef því þegar þeir fóstbræður höfðu lokið kvöldgamni sínu að hýða prestinn á Reykjahólum.
"Þá var stjarnljóst um Vestfirði."
Árni Gunnarsson, 31.1.2010 kl. 20:07
Ps. Og nú eru kjellingarnar í þessu landsliði búnar að niðurlægja okkar hart leiknu. þjóð með því að draga hana niður á bronsöld!
Árni Gunnarsson, 31.1.2010 kl. 20:10
Sæll Lýður. Ég er enn það bjartsýn að það eina sem ég hef áhyggjur af er að við glutrum tækifærinu til að nýta kreppuna til að breyta hugarfari. Jákvætt hugarfar myndi breyta sjálfkrafa samskiptum manna, sjálfsvirðingu, viðskiptasiðferði og síðast en ekki síst veita meiri og dýpri lífsnautn. Vel skrifaður pistill hjá þér og svarkommentið sýnu betra. Eins og talað út úr mínu árangursmiðaða hjarta
Kveðja Kolla.
Kolbrún Stefánsdóttir, 8.2.2010 kl. 21:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.