25.2.2010 | 02:48
GETA 0,06 PRÓSENTIN STAÐIÐ Á EIGIN FÓTUM?
Helstu rök Íslands til inngöngu í ESB eru þau að hérlendir geta ekki stjórnað sér sjálfir. Okkur hefur mistekist að skapa sátt um auðlindir, stóriðju, umhverfisvernd, gjaldmiðil, sjávarútveg, ESB, icesave, einkavæðingu, ríkisrekstur, stjórnsýslu, kosningalög, stjórnarskrá og meira að segja forsetann. Allt er í uppnámi og hvergi sést almennilega til lands. Því er ekki að furða að margir líti hýru auga til Brussel. Varla mun evrópusambandið valda því að við hættum að halda með strákunum okkar, blóta þorrann og framleiða áramótaskaup? Kannski efnahagssveiflurnar verði líka minni og verðlag stöðugra, aldrei að vita. Og kannski verður bara þægilegra að fá meiri fjarlægð á stjórnmálin, ekki veitir af hvíldinni. En svo má spyrja: Hvers vegna ætti 300.000 þúsund manna þjóð sem hefur allt til alls og heilmargt að bjóða að hætta eigin sjálfræði? Eða telur fólk enga hættu á slíku? Af 750 þingmönnum evrópuráðsins fengu íslendingar fimm, við yrðum 0,06% af heildinni og framlag okkar um 0,6%. Spurningin er því: Fara hagsmunir okkar kannski að langmestu leyti saman við hagsmuni evrópubandalagsins? Þeir sem svara þessu játandi geta andað léttar, hinna bíður hinsvegar það erfiða verkefni að endurreisa lýðveldið Ísland. Á þessari stundu kann það að sýnast illmögulegt en skjótt skipast veður í lofti.
LÁ
Athugasemdir
Nú hefur komið í ljós að Íslendingar geta ekki stjórnað sér sjálfir svo vel sé. Ég lít svo á að það hafi ekki nokkur maður leyfi til að gera þjóðina gjaldþrota. En þegar fólk og flokkar hafa sýnt vanhæfni sína til að gera vel er þá ekki skárra að sitja undir því að einhverjir útlendingar taki við stjórninni jafvel þótt þeir komi hugsanlega til með að stjórna hér illa?
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 25.2.2010 kl. 08:41
Sæll, Benedikt. Huxanlega er skárra að sitja undir annarra stjórn en eigin séu báðar vondar. Meiri möguleiki ætti þó að vera til breytinga séu fúakvistirnir eingöngu hér uppi á Íslandi.
LÁ
lydur arnason (IP-tala skráð) 25.2.2010 kl. 12:11
Skrítin röksemdarfærsla hjá BenAx.
Gunnar Heiðarsson, 28.2.2010 kl. 02:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.