MOLI ER ALLUR.

Slóðin verður einföld í nótt.  Eftir allt sem ég gerði fyrir þig.  Gekk 1.500 kílómretra á ári þín vegna, ók alltaf suður þín vegna, flutti ekki af landinu þín vegna, bakaði pönnukökur þín vegna, fékk kattaofnæmi þín vegna, ryksugaði þrisvar í viku þín vegna, svaf í krumpu þín vegna og hreinsaði eyrun þín vegna.  Allt þín vegna og ef ég gæti einhverju hnikað í klukkuverki lífsins myndi ég ofar öllu vilja byrja á þessu aftur.  Mín vegna.  Elsku vinur, takk fyrir samveruna og vonandi rétt sú tilgáta að við munum hittast á ný.   Athugasemdir vinsamlegast afþakkaðar.

LÁ   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Ég veit þú afþakkar athugasemdir, en ég vil endilega bjóða þér annan Mola.

Jón Pétur Líndal, 28.2.2010 kl. 18:15

2 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Við Embla vottum gengnum virðingu og berum einnig virðingu fyrir tilfinningum þínum.

Á nokkra vini hinumegin, sem ég gerði svona allt   ,,fyrir "

Kveðjur frá einum sem er löngu farinn í hundana.

Bjarni Kjartansson, 28.2.2010 kl. 22:50

3 identicon

Þakka boðið, Jón Pétur, man eftir þér í kosningabaráttunni og ljóst að þjóðin hefði betur þegið þína krafta, allavega litlu að tapa.  Ég held ég taki mér smá hundahlé en þakka gott boð, ertu kannski með íslenzka hvolpa?  Sömuleiðis, Bjarni, þakka ykkur Emblu hluttekninguna en hundar eru eilítið eins og börn sem þjást af "flýtiöldrun" og fara fram úr manni. 

Kveðja, LÁ

lydurarnason (IP-tala skráð) 1.3.2010 kl. 01:47

4 identicon

Elsku Lýður,

Moli og þín einlæga ást á hundum voru leið til þess að "sætta hjarta þitt við þessa jörð." Nú er skarð fyrir skildi. Þér hefur löngum þótt eins og hundurinn hafi verið fundinn upp til þess að berja í mannlega breiskleika.

Einar Ben unni fákum á sama hátt og þú unnir hundum. Hann kvað:

- Ef inni er þröngt, tak hnakk þinn og hest
og hleyptu á burt undir loftsins þök.
Hýstu aldrei þinn harm. Það er bezt.
Að heiman út, ef þú berst í vök.
Það finnst ekkert mein, sem ei breytist og bætist,
ei böl, sem ei þaggast, ei lund, sem ei kætist
við fjörgammsins stoltu og sterku tök.
Lát hann stökkva, svo draumar þíns hjarta rætist.
(E.Ben. Fákar, 8. erindi)

Ég samgleðst þér innilega yfir öllum þeim töfrastundum sem þið Moli áttuð saman.

Bestu kveðjur

Björn Hjálmarsson (IP-tala skráð) 2.3.2010 kl. 20:29

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Lýður ég skil þig vel.  Við áttum hund Lubba í 12 ár, hann var partur af fjölskyldunni og þegar hann varð fyrir slysi lenti undir bíl, þá var margra mánaða sorg í fjölskyldunni.  Við eigum okkur félaga hvort svo sem þeir eru tvífættir eða fjórfættir, þeir verða okkur kærir, og ekkert getur sefað sorgina við að  missa góðan vin.  Því vil ég bara segja knús

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.3.2010 kl. 23:43

6 identicon

Takk fyrir hugulsemina, Ásthildur, eftir því sem árunum fjölgar, fjölgar vinunum hinu megin.

Lydur Arnason (IP-tala skráð) 5.3.2010 kl. 00:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband