16.3.2010 | 15:39
GAGNSLAUST VALDATAFL.
Hvað varðar afstöðu Íslands í icesave hafa fullyrðingar um einangrun, útskúfun, veikingu krónu og stöðvun atvinnulífsins reynst rangar. Flokka má þennan málflutning sem hræðsluáróður. Mótstaða íslendinga gagnvart borgun þessa fjármálasukks hefur þvert ofan í úrtölur styrkt stöðu okkar á alþjóðavettvangi og fært brennipunktinn yfir á kjarnann, þ.e. að fáranlegt sé að borgarar þurfi að sjá á bak velferð sinni og lífsgæðum vegna skuldasköpunar óreiðumanna. Skilaboð þjóðarinnar í nýafstaðinni atkvæðgreiðslu snúast ekki um vaxtaprósentur heldur að allar hlutaðeigandi þjóðir icesave axli sameiginlega ábyrgð og hjálpist að með innheimtuna. Gleraugu alheimsins eru sjaldan á litla Íslandi en niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar hefur vakið athygli og sérlega sú staðreynd að dvergríki bjóði stórveldum byrginn. Og þessi athygli hefur reynst mun jákvæðari í okkar garð en margir hugðu. Hún hefur aukinheldur blásið krafti í þá umræðu að hugsanlega séum við að ofmeta eigin lánsþörf. Og krónan bregst við með styrkingu. Atvinnulíf er að vísu enn í klakaböndum en það hefur ekkert batnað eða versnað með pendúlklukku icesave. Sjávarútvegur er þó undanskilinn en því miður heykjast stjórnvöld á augljósu bjargráði sem er að veiða meira. Ríkisstjórn Íslands beitir öllu sínu til að halda stóru hrunflokkunum frá stjórnarráðinu sem er vel skiljanlegt en mikið skortir á samstöðu og innri styrk. Ráðherrar spila einleik, aleinir og óstuddir, framrásin snýst meira um menn en málefni og kafbátar bíða færis. Framundan er valdatafl, spennandi en fyrir þjóðina vita gagnslaust.
LÁ.
Athugasemdir
Þú hefur lög að mæla.
Að þessu sögðu myndi ég vilja sjá alfrjálsar krókaveiðar.
Sigurður Þórðarson, 16.3.2010 kl. 16:37
Sammála þér í þessu Lýður .
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.3.2010 kl. 19:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.