16.4.2010 | 01:56
GÆGJUGÖT TIL SKRATTANS.
Skerfur Íslands til heimsfréttanna hefur verið dágóður umliðin ár. Útrásin, bankahrunið, byltingin, bananinn, bullið og borgum ekki. Fleiri mannsbörn en áður vita um þessa eldfjallaeyju sem sannlega stendur undir nafni þessa dagana. Í stað þess að borga bjóðum við heimsbyggðinni upp á gosösku og niðurfellingu flugsamgangna. Sjálfhverfan virðist takmarkalaus. En í þessum mekki öllum er viðskiptatækifæri. Sjónvarpsréttur íþróttaviðburða er seldur dýrum dómum, heimsmeistarkeppnin í fótbolta nærtækt dæmi. Eldgos þykir ekki síður merkilegt og auðvitað eigum við að selja aðgang að hamförunum á 2007-verði. Land sem lumar á gægjugötum til skrattans hlýtur að vekja eftirtekt, ekki sízt þeirra sem sjá sæng sína útbreidda. Og er það ekki einmitt ríkasta klanið?
LÁ
Athugasemdir
Takk.....takk.
Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 16.4.2010 kl. 10:18
Kæri listræni vin,
Takk fyrir þessa hugvekju um eðli hinnar íslensku þjóðarsálar og hvernig hún hefur orðið til í hamförum elds og ísa. Það sem atburðir liðinna missera afhjúpa fyrir heimsbyggðinni er þrennt:
1. Við erum þrautseig þjóð að hafa haldið lífi í gegnum aldirnar við stórbrotna vosbúð og harðræði. Við munum aldrei gefast upp fyrr en í fulla hnefana.
2. Hugmyndaauðgi og sköpunarmátt náttúrunnar höfum við daglega fyrir augum okkar og því er vandfundið höfuðból með fleiri listamenn per íbúa. Óvíða í veröldinni verða læknar í eins ríkum mæli að listamönnum á laun.
3. Öfgar elds og ísa tröllríða þjóðarsálinni. Við eigum gnótt visku, kærleika og hugrekkis en réttvísi og hófstillu eigum við eftir að læra. Því ber hugrekki vort ætíð keim af fífldirfsku. Rannsóknarnefndir alþingis gerðu þetta að sínum kjarnaboðskap.
Bestu kveðjur vestur.
Björn Hjálmarsson (IP-tala skráð) 16.4.2010 kl. 23:18
Það var hinsta ósk fjármálakerfisins, að öskunni yrði dreift yfir evrópu (Bobbý Breiðholt)
Þorður Sævar Jonsson (IP-tala skráð) 17.4.2010 kl. 12:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.