18.4.2010 | 12:38
SJÓNSKEKKJA.
Sigurður G. Guðjónsson, lögfræðingur með meiru, tekur upp hanzkann fyrir fyrrum varaformann sjálfstæðisflokks og segir hana engin lög hafa brotið og afsögn hennar afleiðingu múgsefjunar. Formaður sama flokks kveðst sitja áfram þar eð hans mál séu skýrð. Stjórnmálamenn, jafnvel þeir sem beint eru sakaðir um vanrækslu, láta í veðri vaka að fráfæra þeirra sé tímabundin. Enn fleiri bíða svo átekta. Þjóðin er nú í fyrsta skipti í lýðveldissögunni að upplifa berskjöldun sína gagnvart spillingu. Fúi var í öllum meginstoðum samfélagsins sem saman tekið skilaði sér í sambræðslu stjórnmála og viðskiptalífs. Lög um einkavæðingu, fjölmiðla, siðferði, samskipti og jöfnuð voru ekki til og refsirammi ei heldur. Afleiðingin sú að megn gjörninga útrásartímabilsins telst ekki ólögmætur, einungis ósiðlegur. Sem raskar hugsanlega sálarfriði einhverra en ekki frelsi. Íslenzk þjóð þyrstir ekki í lögfræðilega úttekt á sukkinu eða refsingar. Hún vill siðbót og lærdóm. Hún vill ný gildi og nýjan mannskap. Hún vill breytta stjórnarhætti og að allur vafi sé þjóðinni í hag. Þess vegna eiga allir þeir stjórnmálamenn sem á einhvern hátt tengdust eða tóku þátt í hrunadansinum að víkja. Með því láta þeir þjóðina njóta vafans og halda kannski eilitlum sóma. Að Bjarna Benediktssyni langi eitthvað er ekki nóg. Velferð þjóðarinnar og vilji á að skipa öndvegi í ákvörðunum þessara ólánsömu stjórnmálamanna sem gátu en gerðu ekkert á ögurstundu. Trúverðugleiki alþingis er horfinn, þjóðin vill hreint borð og losna við mykjuhauginn, flestum augljóst nema alþingismönnum og viðhlæjendum þeirra. Afsakanir og loforð um betrun er einfaldlega miklu verri kostur en nýtt fólk. Er svo erfitt að skilja það?
LÁ
Athugasemdir
Það kemur hvergi fram í skýrslunni góðu né heldur tali fólks hver ber í raun ábyrgð á íslensku samfélagi. Hér hefur áratugum saman verið stundað slæmt uppeldi og eru sökudólgarnir besta sönnun þess. Það fremur engin vel upp alin manneskja mikinn glæp.
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 18.4.2010 kl. 13:44
Sigurður G. er mistækur penni, svo ekki sé meira sagt.
Honum finnst ekkert athugavert að eiginmaður stjórnmálaforingja hafi tekið þátt í meiriháttar markaðsmisnotkun í banka sem hefur nú verið flett ofan af sem hreinni svikamyllu. Þessi meinta markaðsmisnokun er til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara. Stjórnmálaleiðtoginn hafði auðvitað haft mikinn hag af því persónulega ef þessi flétta hefði heppnast og skilað eigimanninum milljarða í arð. Fyrir utan það að eiginmaðurinn var jú með býsna margar milljónir í mánaðarlaun hjá svikamyllu-bankanum, sem ríkisstjórn sem eiginkonan sat í misstókst svo herfilega að hafa nokkurt taumhald á.
Það er hárrétt hjá Þorgerði Katrínu, að þetta rýri hennar trúverugleika sem stjórnmálamanns.
Sigurður G. segir svo:
"Mér er ekki alveg ljóst hvað var siðferðilega rangt við það hjá eiginmanni Þorgerðar Katrínar að nýta sér þau starfskjör sem vinnuveitandi hans bauð upp á.
Nýta ekki flestir starfsmenn sér þau starfskjör sem bjóðast? Taka ekki þingmenn hátt í mánaðarlaun í formi dagpeninga í nokkra daga utanlandsferðum á vegum þingsins, þó allt sé á sama tíma greitt? Hirða þeir ekki líka til eigin brúks alla ferðapunkta sem þeir fá í slíkum ferðum á vegum Alþingis án þess að telja þau hlunnindi fram til skatts? "
Sem sé, ef manni býðst að taka þátt í vafasömu athæfi sem gæti fært manni gróða, þá bara gerir maður það. Og ein tegund spillingar réttlætir aðra...
Slappt hjá hæstaréttarlögmanninum.
Skeggi Skaftason, 18.4.2010 kl. 14:09
eru það ca 925 ár sem sem Þorgerður K = XD getur lifað sem vísitölufjölskylda á þessum 1.700.000.000 kr / ja hvað með auðætararðræningjana til áratuga og BB lauk vafning ? eru það 925 ár hjá ÞKG tja hún ætti að spjara sig sennilega gott betur yfir 1500+ ár með vöxtum ? er þetta ekki bara grín , í hvaða veröld erum við Islendingar // og aðrir margir Islendingar liggja vonlittlir niðurlægðir svikknir , brottrækir af sýslumönnum af heimilum sínum vegna forssendubrests stjórnsýslu Islands / magnað þjóðfélag
Ásgeir Gunnarsson (IP-tala skráð) 18.4.2010 kl. 18:00
Stillum okkur félagar, verum ískaldir og kjósum þvert á þá flokka sem með aðgerðaleysi sínu komu okkur í þennan vanda.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 19.4.2010 kl. 01:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.