23.4.2010 | 01:37
ÞEIR FISKI SEM RÓA.
Þrjár meginástæður eru fyrir breytingum á íslenskri fiskveiðistjórn. Í fyrsta lagi ágreiningur um eignarhald. Handhafar veiðiréttar hafa komist upp með að brjóta stjórnarskrárákvæði um þjóðareign auðlinda og gert aðgengi að Íslandsmiðum að einum allsherjar verslunar- og leigumarkaði með mikilli hagsmunaslagsíðu. Hinir sömu segja þetta allt í þágu almannahagsmuna og kerfið skili þjóðinni hámarksarði, reyndar svo miklum að móðurmálið er horfið úr frystihúsunum. Í öðru lagi var talað um efnahagslegt hrun yrði kvótakerfinu breytt. Þessar viðvaranir liggja nú úthverfar og deginum ljósara að þessu var öfugt farið. Móðurkartafla útrásarinnar lá í hinum gjöfulu undirdjúpum og þaðan fengið það sem til þurfti. Gríðarleg skuldsetning þessarar arðbæru atvinnugreinar er augljóslega af þessum sökum og viðnám gegn breytingum auðvitað frá þeim komið sem enn sitja á þessum fjársjóði. Krukkurnar eru sem fyrr tvær, ein plús og ein mínus, í plúsinn fer gróðinn, í mínusinn tapið og því að lokum hellt yfir almenning. Skotheld formúla sem við öll orðið þekkjum. Þriðja ástæðan til að breyta þessu kerfi er dauðinn. Jafnvel handhafar veiðiréttarins eru ekki eilífir og þegar sláttumaðurinn knýr dyra er ekki gert ráð fyrir að hægt sé að kippa kvótanum með sér. Hann fellur heldur ekki byggðunum í skaut sem liggja að miðunum heldur niðjum. Veiðireynsla þeirra er oft takmörkuð og því um að gera að koma þessu í verð. Oftar en ekki afleiðingin sú að verstöðin sjálf horfir á eftir atvinnuréttinum annað og allt fólkið sem býr við auðlindina situr uppi með gjaldfallnar eignir, ónýtar fjárfestingar og óvissa framtíð, jafnvel enga. Allt tal um hagræðingu er ónýtt nema fólkið fylgi með, gildir það jafnt um jarðnezk innlegg sem himnezk. Í raun þarf aðeins eina grundvallarbreytingu á fiskveiðstjórnunarkerfinu, þá að þeir fiski sem róa.
LÁ
Athugasemdir
Af hverju eru útgerðarfyrirtæki svona laus á fé við frambjóðendur til Alþingis?
Árni Gunnarsson, 23.4.2010 kl. 19:12
Elsku Lýður,
Ég dáist að dugnaði þínum við að kveða niður sérhagsmunakerfi kvótans á Íslandsmiðum. Nú er svo sannarlega tími kominn til breytinga.
Ég skora á þig að bjóða þig fram til Alþingis undir kjörorðunum:
1. Byggðirnar lifi.
2. Stöðvum sérhagsmunavörslu stjórnarráðs.
3. Gerum jafnrétti að hugsjón allra stjórnmálaafla í landinu bláa.
4. Útrýmum mun á Jóni og Séra-Jóni sem hefur tröllriðið íslenskri þjóðarsál frá kristnitöku fram til síðnútíma.
Björn Hjálmarsson (IP-tala skráð) 23.4.2010 kl. 20:18
Útgerð og fiskvinnslan skulda að minnstakosti 6oo miljarða. Eru það kostirnir við hagræðinguna, sem alltaf er verið að halda fram? Sukkið og svínaríið í þessari atvinnugrei er algert. Dæmið með stelpunna, sem er tannlæknir, og erfði einhver óskup í kvóta og vissi ekkert hvað hún átti að gera. Af nógu er að taka.
Innilega sammála Birni.- - - Þú og Sigurjón eruð öryggir!!!
Þorður Sævar Jonsson (IP-tala skráð) 23.4.2010 kl. 21:57
Ég held því fram, Árni, að stærsta útgerðin innan vébanda LÍÚ sé sjálfstæðisflokkurinn og framsóknarflokkurinn litlu minni. Björn, þakka traustið og gott innlegg, aldrei að vita hvað maður gjörir, en þú sjálfur? Þórður er auðvitað öruggt atkvæði þó helst vildi ég sjá hann í framvarðarsveit eldri borgara.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 24.4.2010 kl. 02:00
Og ég tek undir ályktun Þórðar Sævars hvað varðar framboð með Sigurjón Þ. og Lýð Árnason í broddi fylkingar. Þótt ótrúlegt sé þá er það sannfærandi ályktun að sterkasta útgerð innan LÍÚ séu þau tvö stjórnmálasmtök sem þú nefnir Lýður.
Árni Gunnarsson, 24.4.2010 kl. 13:15
Útgerðin skuldar 600 kúlur og er að borga af þeim en ein fjölskylda skuldar 1000 kúlur sem verið er að afskrifa. Skrítið ekki satt?
Valmundur Valmundsson, 27.4.2010 kl. 19:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.