26.4.2010 | 01:52
FARI STEINKA, FARA FLEIRI.
Nokkuð er þrýst á þingmenn að segja af sér vegna fjárveitinga frá fyrirtækjum og viðskiptablokkum. Enda komið í ljós að fyrri yfirlýsingar um takmörkuð áhrif þessara tengsla stóðust ekki. Hrun samfélagsins varð vegna þessa bræðings og því eðlilegt að fólk vilji hann burt. Steinunn Valdís er ólánsöm styrkjadrottning þessa samspils en segist hafa skýrt sín mál og ekkert óeðlilegt sé á seyði. Kveðst ennfremur bíða ályktunar eigin flokks varðandi siðferðisstaðla. Þessi afstaða að láta einhverja siðferðisnefnd ákveða hvort farið sé yfir strikið eða ekki er undarleg. Eigin samvizka og dómgreind hlýtur að skipta höfuðmáli sem og augljós vilji almennings. Sér þingkonan ekki að með brotthvarfi sínu myndi hún gera þjóð sinni mikinn greiða og opna á margar gáttir endurreisnar? Öðrum þingmönnum í líkri stöðu yrði tæpast stætt og skriður kæmist loks á málin. Sjálfhverfni stjórnmálamanna sem muna fífil sinn fegri er að valda okkur miklum búsifjum og hamlar mjög allri framþróun. Skora hér með á Steinunni Valdísi að stíga af stalli og setja þannig þrýsting á aðra þingmenn, sekt eða sakleysi skiptir hér ekki höfuðmáli, heldur krafa þjóðarinnar um ný vinnubrögð og siði.
LÁ
Athugasemdir
Ef þingmenn og ráðherrar virtu þjóð sína og almenning myndu þeir segja af sér með glöðu geði en þeim finnst spillingin svo góð því miður er það svo.
Jón Sveinsson, 26.4.2010 kl. 08:41
Á dögum hrunsins sögðu forystumenn ríkisstjórnar að fyrst kæmu hagsmunir þjóðarinnar, síðan flokksins og þá einstaklinga. Nú er orðið deginum ljósara að þessu var alveg öfugt farið.
Fyrir fólk sem alist hefur upp við slæmt stjórnmálasiðferði er það þjáningarfull slóð að snúa til baka. Þess vegna fer það frá eigin hagsmunum til flokksins áður en það kemst til þjóðarinnar.
Íslensku stjórnmálaöflin berjast um að drottna í stað þess að þjóna landi og þjóð. Í því er kjarni vandans fólginn.
Björn Hjálmarsson (IP-tala skráð) 26.4.2010 kl. 13:11
Hef ekki trú á því, að efnt verði til kosninga í nánustu framtíð. Það er setið í trausti þess, að kjósendur hafi gullfiskaminni. Í mesta lagi eina viku. Svo er nú ekki lengur. Það verður að hamra linnulaust á liðinnu. Varamenn eru útækir. Þetta er allt sami grauturinn í sömu skál.
Þorður Sævar Jonsson (IP-tala skráð) 26.4.2010 kl. 13:58
Stjórnarskipti nú eru óskynsamleg. Ekki vegna gæða þeirrar sem situr heldur ógnarinnar sem stafar af endurkomu hinnar sem áður sat. Leyfum málum að gerjast enn um sinn þannig að fólk fari að sjá að gömlu valkostirnir eru langt frá því þeir einu.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 26.4.2010 kl. 15:47
Steinunn V. vísar sínu máli til siðvitundar flokksins síns. Bjarni Ben. segist munu láta kjósendur Sjálfstæðisflokksins skera úr um sitt siðferði.
Nú er það spurning hvort ekki sé bara í lagi að láta siðgæði sjallanna og kratanna um að afgreiða öll siðgæðismál þjóðarinnar sem koma til álita?
Árni Gunnarsson, 26.4.2010 kl. 20:13
Sæll LÁ læknir!
Aðeins ein lítil athugasend.
Mér finnst heldur mikið í lagt að tala hér um samfélagshrun, því eins og þar stendur, þá "Fyrr má nú rota en dauðrota!"
Magnús Geir Guðmundsson, 27.4.2010 kl. 21:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.