28.4.2010 | 02:12
LÖGLEGT OG SIÐLEGT.
Þversagnir stjórnmálamanna gagnvart ábyrgð ríða nú húsum og vísa þeir gjarna í löglega gjörninga. En auðvitað er allt löglegt og reglum samkvæmt í þjóðfélagi sem mótaði enga ramma. Stjórnvöld skópu ekkert regluverk meðfram einkavæðingunni, henni var sjálfri ætlað eigið eftirlit. Ot nú þegar mistökin liggja fyrir skáskjóta allir sér á bak við einhvern tíðaranda og stemmningu. En er löglegt og er siðlegt að borga einhverjum margföld ævilaun fyrir það eitt að þiggja starf, stunda starf eða hætta starfi? Er löglegt og er siðlegt að stunda innherjaviðskipti, kennitöluflakk og útlán án ábyrgðar bara af því að engar sérstakar lagaklausur finnast um athæfið? Er löglegt og er siðlegt að troða vinum og vandamönnum, flokksgæðingum og viðhlæjendum upp á stjönuhiminn stjórnsýslunnar án tillits til hæfis gagnvart starfinu og öðrum umsækjendum? Er löglegt og er siðlegt að fara ekki eftir stjórnarskrá lýðveldisins og hunsa ákvæði hennar ár eftir ár og hætta í því augnmiði sjálfstæði þjóðarinnar? Er löglegt og er siðlegt að koma heilu samfélagi á hausinn og gangast ekki við því? Fólk sem þarf einhverjar eftiránefndir til að greina rétt og rangt ætti að finna sér annan starfsvettvang en þann að taka að sér hagsmunagæslu fyrir aðra, hvað þá heila þjóð.
LÁ
Athugasemdir
Þetta er lýsing á siðlausu samfélagi. Þetta getur bara hrunið eða liðast í sundur. Það er bara spurning hvenær.
Margrét Sigurðardóttir, 28.4.2010 kl. 06:31
Sæll Lýður. Hjarðhegðun en það nýjasta sem afsakar allt. Hjarðarónæmi er svo þegar við erum orið ónæm fyrir umræðunni. BK
Vilhjálmur Ari Arason, 28.4.2010 kl. 07:58
Besta vörn bolsins gegn tregðunni er að kjósa ekki gömlu flokkana. Gott orð, hjarðarónæmi, nú vantar bara bóluefni gegn fjórflokkaveirunni.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 28.4.2010 kl. 12:51
Er ekki komið hugsanlegt nýtt rannsóknarverkefni fyrir Kára Stefáns, að finna gen siðspillingarinnar, jú og hugsanlega að athuga hvort þetta sé meðfætt eða áunnið :-)
Ahh djöfull ég var búinn að gleyma að Kári er Kapútt andskotinn sjálfur, þá er fokið í flest skjól.
Kv Axel
Axel Överby (IP-tala skráð) 28.4.2010 kl. 15:06
Þeir svæfðu siðferðisvitund sína á dúnmjúkum kodda sérhagsmunagæslunnar og læstu hana svo inni á bak við rimla sérsniðins lagaumhverfis sem var gersneytt öllu réttlæti nema því sem hægt er að greiða fyrir með peningum (þurfa ekkert endilega að vera beinharðir)
Rakel Sigurgeirsdóttir, 28.4.2010 kl. 18:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.