8.5.2010 | 04:30
KÍMNIGÁFA ER SÍZT VERRI EN ÖNNUR.
Besti flokkurinn birtir nú lista sinn og sýnist sitt hverjum. Margir átelja framboðið sem marklaust grín og aðrir segja frambjóðendur mestmegnis fífl og skemmtikrafta sem skorti reynslu. En hvaða reynslu? Varla á fólk við reynsluna af atvinnustjórnmálamönnum, finnst mér það hæpið. Á alþingi voru tugir ára samankomnir í menntun ef ekki hundruð. Lítið skilaði það bókvit þjóðinni. Og útungunarofnar flokkanna skila litlu nema fúleggjum og stropi. Því er ljóst að íslenzk stjórnmál standa á krossgötum og við þurfum nýtt blóð ótengt fúaspýtu fjórflokksins. Hvort Jón Gnarr og hans lið sé málið skal ósagt en ég minni þó á að flest þetta fólk hefur sannað sig á einkamarkaði. Það hefur búið til peninga með gleði sinni og gríni, músik, leik og galgopahætti meðan atvinnustjórnmálamenn sjúga blómann allt frá klaki. Vanmetum því ekki kímnigáfuna, hún gæti verið flotið þar sem sigldi hitt í strand.
LÁ
Athugasemdir
Nú er ég sammála. Ég hef aldrei skilið að einhverjir útvaldir séu fæddir stjórnmálamenn. Nú, ef ég hef rangt fyrir mér þá segir það mér að fólki beri að varast stjórnmálamenn til pólitískra starfa og þó fyrst og fremst til pólitískrar forystu.
Árni Gunnarsson, 8.5.2010 kl. 20:35
Mér finnst nú ekki þurfa að fara langt niður á lista Besta Flokksins til að finna fólk sem hefur rekið fyrirtæki í áratugi með góðum árangri og miklum sóma. Hvað er hægt að benda á marga í núverandi borgarstjórn með viðlíka reynslu og þarna er til staðar?
Grín hvað?
Billi bilaði, 8.5.2010 kl. 21:24
Orð í tíma töluð Lýður. Ekki bara búið til peninga, heldur létt undir lund landans. Fyrir og utan, með galgopahætti sínum, opnað augu okkar fyrir hallærishætti okkar í dag. Það er allavega mjög oft sem mín augu hafa fyrst opnast þegar ég er mötuð á hlutunum í hæðnisbröndurum.........
Sólveig Hannesdóttir, 9.5.2010 kl. 00:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.