21.5.2010 | 02:18
ÞÖGN SVEITASTJÓRNARMANNA.
Sjómennskan er ekkert grín. Í norðvestrinu, þar sem sólin rís, sóttu menn í maímánuði sjóinn sex daga undir merkjum strandveiði. Tíu dagar eftir af mánuðinum og bátarnir þegar fastir við bryggju. Skötuselsgengd hefur verið mikil í Ísafjarðardjúpi og er það nýlunda. Villist þessi forljóti matfiskur gjarnan í grásleppunet sem boðflenna. Án kvóta er mönnum gert að henda þessum afla, einn grásleppukarl undi því þó ekki og kom með hráefnið í land, uppskeran milljónir í sekt. Sjóstangaveiði er vaxandi atvinnugrein í sjávarþorpum og telst til svokallaðra sprota. Þó heildarafli þessara frístundaveiða sé ekki mikill er atvinnurekendum gert að leigja kvóta til veiðanna sem ekki endilega er heiglum hent. Óvissa um veiðar er því fylgikvilli þesarar nýju atvinnugreinar og hlýtur að hafa hamlandi áhrif á vöxt hennar og viðgang. Þögn sveitastjórnarmanna um þessi augljósu hagsmunamál byggðanna hlýtur að vera vegna annríkis á öðrum sviðum, ekki skil ég í öðru.
LÁ
Athugasemdir
Málið er er til vill að allir sem einhver tengsl hafa við sjávarútveginn vita sem að ráðgjöfin og stjórn veiðanna er algjört bull en eru orðnir kjaftloppnir á að benda á það og láta umræðuna bíða betri tíma.
Sigurjón Þórðarson, 21.5.2010 kl. 22:09
Líkast rétt, Sigurjón, held þó að tækifæri til breytinga séu skammt undan. Lykilmálið að þeir nýju kraftar sem sannlega vaða nú uppi sameinist undir einu merki og hefji landgönguna.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 22.5.2010 kl. 01:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.