1.6.2010 | 01:58
RYKSUGAN Á FULLU.
Mikið er um að vera á hinum pólitíska vettvangi og völlurinn líkur varplendi með tilheyrandi gaggi og gjörningum. Einn þeirra eru mótbárur Guðmundar Steingrímssonar en sá knái forsætisráðherrasonur beitir formanninn hælkrók og skellir á hann afhroði kosninganna. Kannski Guðmundur muni fella Sigmund og auka vægi flokksins á ný. Forsvarsmenn seðlabanka og fjármálaeftirlits verða marineraðir hjá sérlegum saksóknara og eiga varla von á góðu. Ennfremur eru uppi raddir um að ræsa landsdóm fyrsta sinni vegna yfirsjóna fyrrum ráðherra. Grátlegt að Dóri sé firndur og eiginlega þyrfti að breyta firningarákvæðinu afturvirkt. Ráðhúsið er svo að fyllast af poppurum sem hlýtur að teljast gott æfingahúsnæði fyrir nýgræðinginn. Vangaveltur eru uppi í utanríkismálanefnd um að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael og virðist alvara í þeim pælingum hvað sem verður. Held það myndi styrkja Ísland á alþjóðavettvangi að verða fyrstir þjóða til að sýna andúð sína í verki. En ekki nóg með þetta heldur styrktist gjaldeyrisforðinn í dag vegna samninga seðlabanka og lífeyrissjóða. Sem gæti þýtt hræringar til hins betra í gjaldeyrishaftarmálum. Því er synd að tala hér um kyrrstöðu, þjóðfélagið er á bullandi skriði og spennandi hlutir að gerast.
LÁ
Athugasemdir
Ég bendi á þetta til gamans.
Besti Flokkurinn er frjálslyndur og heiðarlegur lýðræðisflokkur sem vinnur að stöðugum umbótum á samfélaginu og lausn sameiginlegra viðfangsefna þjóðfélagsins á jafnréttisgrundvelli, með víðsýni að leiðarljósi.
Við lofum að stöðva spillingu. Við munum gera það með því að stunda hana fyrir opnum tjöldum. Við viljum opna Kvennastofu þar sem konur geta komið og fengið sér allskonar kaffi með bragðefnum eins og vanillu og kanil. Og svo mega þær tala eins og þær vilja og það verður allt tekið upp og geymt. Við ætlum að skipuleggja óvissuferðir fyrir gamalmenni. Í rauninni erum við samt ekki með neina stefnu en við þykjumst vera með hana. Við hlustum á þjóðina og gerum eins og hún vill því þjóðin veit best hvað er sér fyrir bestu. Við getum boðið meira af ókeypis en allir aðrir flokkar því við ætlum ekki að standa við það. Við gætum haft þetta hvað sem er, til dæmis ókeypis flug fyrir konur eða ókeypis bílar fyrir fólk sem býr útá landi. Það skiptir ekki máli.
Besti Flokkurinn er besti vettvangurinn undir lýðræðislega umræðu, Besti flokkurinn er bestur fyrir þig!
Ég stofnaði Besta flokkinn af því að mig langar að fá vel launað starf og að komast í áhrifastöðu þar sem ég get hjálpað vinum og vandamönnum með ýmislegt. Mig langar líka að vera með aðstoðarmann.
Þetta er m.a. það sem var kosið í höfuðborg Íslands. Hvernig lýst þér á?
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 1.6.2010 kl. 19:43
Þetta er afrit stefnuskráa fjórflokkanna nema hreinskilnin í garð kjósenda er alger. Standi Besti Flokkurinn við þessi kosningaloforð fá borgarbúar áfram sinn skammt en svikin valda þau einungis gleði. Fyrir Reykvíking stóð valið á milli gríns og glæps. Margir kusu grínið vegna alvörunnar sem ávallt fylgir.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 2.6.2010 kl. 00:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.