13.6.2010 | 05:03
STRANDVEIÐIRALLIÐ.
Strandveiðar eru að sanna gildi sitt. Hafnirnar fullar af bátum og líf í tuskunum. Annmarkar eru þó að koma í ljós, magnið er of lítið og virknin því aðeins örfáa daga hvers mánaðar. Einnig er fáranlegt að njótendur veiðanna skuli ekki þurfa að borga neitt auðlindagjald til löndunarhafna, t.d. 25-50 kr. á kíló. Með því myndi skapast nýr tekjustofn fyrir sjávarbyggðirnar. Bara með að breyta þessu vinnst mikið. Svo ætti að undanþiggja stangveiðiflotann frá kvótakerfinu og styrkja þannig nýsköpun í ferðamannaiðnaði enda erfitt að sjá þá ásókn ógna heildarstofninum. Alla vega er mótsögn í röksemdafærslu hagsmunaaðila að krókaveiði ógni fiskistofnum en dragnót ekki. Vona að sjávarútvegsráðherra standi á sínu og innleiði þá bragarbót sem til þarf.
LÁ
Athugasemdir
Heldur þú virkilega, að Jón Bjarnason, standi á sínu og innleiði bragarbót..... Mín skoðun er sú, að maðurinn hefur enga skoðun eða frumkvæði í nokkru einasta máli.... Undantekningin er álit hans á því, hver eigi að gegna stöðu Sjávarútvegs- ráðherra.
Þorður Sævar Jonsson (IP-tala skráð) 13.6.2010 kl. 07:44
Doddi Koddi... Jón er engu að síður sá ráðherra sem eitthvað hefur potað í LÍÚ-skrímslið þó meira megi vera. Verst að hann stendur alltaf einn og meira að segja flokksfélagi hans, formaðurinn sjálfur, sem tjáði sig mjög um sjávarútvegsmál í aðdraganda kosninga lætur nú eins og málaflokkurinn sé ekki til. Ærin er sú ömm.
LÁ
Lýður Árnason, 13.6.2010 kl. 14:42
Magnið of lítið??? Þetta er engin veiðistjórnunaraðferð þetta eru bara einfaldlega stjórnlausar veiðar. Auðvitað verður líf í tuskunum þegar allri stjórnun er varpað fyrir róða og alls konar fleytur fá að fara á sjó til þess að moka upp fiski. Það tekur þennan flota fiskveiðibáta ekki nema 9-10 daga í hverjum mánuði til þess að klára pottinn.
Mér þætti gaman að heyra þig heimfæra þessa frábæru veiðistjórnunaraðferð upp á aðrar tegundir veiða. Tökum uppsjávarflotann sem dæmi. Þvílík ringulreið myndi skapast á miðunum ef uppsjávarskip sem að geta á nokkrum klukkustundum veitt hátt í þúsund tonn, ef að þau ættu nú að fara að veiða úr einum potti. Með öðrum orðum stjórnlaust eins og strandveiðarnar.
Þessar strandveiðar hafa leitt til þess að menn hafa farið af stað, útbúið báta, haldið að um væri að ræða einhvern atvinnugrundvöll af þessu en átta sig á því að þeir þurfa að berjast fyrir hverju einasta kílói af fiski sem að kemur upp úr þessum strandveiðipott. Á þessum strandveiðum eru allt of margir að berjast um allt of fá kíló. Það leysist ekki með því að taka meira frá kvótakerfinu og setja í strandveiðipottinn. Þá munu nefninlega netabátarnir, dragnótabátarnir, línubátarnir og á endanum togararnir fylgja með og fara að berjast við trillurnar um kílóin sem að eru í sameiginlegum potti. Í staðinn fyrir að haga veiðum eftir því sem að hagkvæmast er eru menn tilneyttir til þess að sækja stíft á miðinn því að alltaf vofir yfir þeim sú hætta að potturinn sé búinn þegar þeir ætla að róa.
Þetta er einhver sú alvitlausasta hugmynd að veiðistjórnunaraðferð sem að hefur komið fram. Stjórnlaustar veiðar eru þetta og stjórnlausar veiðar skulu þær heita. Þá var nú sóknardagakerfið skárri hugmynd.
Jóhann Pétur Pétursson, 13.6.2010 kl. 16:44
Sæll, Jóhann Pétur. Tel grundvallaratriði að strandveiðipotturinn verði ekki "gefinn" án endurgjalds, nóg að gera þau mistök einu sinni. Þá er fólki í sjálfvald sett hvort það leggi í þann kostnað sem strandveiðinni fylgir. Það þarf ekkert að heimfæra strandveiðar upp á aðrar tegundir veiða, heldur einmitt aðskilja þær sem nýjan kost, nýtt kerfi. Flestir sjómenn eru sammála um að útilokað sé að útrýma fiskistofnum með krókum og því óhætt að önnur viðmið gildi um slíkar veiðar. Meginmálið er þetta: Kvótakerfið, eignarhald þess, framsal, leiguok, brask, skuldsetning og veðsetning hefur leitt þjóðina í blindgötu og stjórnmálamönnum skylt að leita nýrra leiða. Strandveiðar er hluti þessarar viðleitni, langt í frá gallalaus en gæti með tímanum þróast upp í alvöru bragarbót á meingölluðu kerfi.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 13.6.2010 kl. 19:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.