23.6.2010 | 01:18
VINNULAG GÆRDAGSINS.
Ráða þurfti óvænt á ný í stöðu dagskrárstjóra ríkissjónvarpsins. Þó aðeins tveir mánuðir séu liðnir síðan umsóknarferlinu lauk ákvað yfirmaðurinn að ráða án auglýsingar. Og það rökstutt með hagsmuni RÚV í huga. En hvernig getur það samrýmst hagsmunum stofnunar að grafa undan trúnaði hennar? Hefur sjónvarpsstjóri ekkert fylgst með gangi samfélagsins? Honum var í lófa lagið að rúlla yfir enn volgar umsóknirnar og ráða í stöðuna út frá þeirri yfirferð, samt kaus hann vinnulag sem er að hníga til viðar. Ríkissjónvarpið hefur aldrei staðið á eins veikum grunni og nú. Þær raddir gerast æ háværari sem vilja RÚV burt af herðum skattborgaranna. Kannski ekkert skrítið því sjónvarpið er ekki lengur sjónvarp með blómlegri dagskrárgerð heldur risastórt hús. Eins og starfseminni hefur verið háttað er í raun nóg að vera með skúr sem spýtir út í ljósleiðarann amerískri sápu og tölvuleikjum eða hreinlega sleppa skúrnum og láta frjálsu sjónvarpsstöðvunum þetta eftir. Óska samt nýjum dagskrárstjóra velfarnaðar í starfi og vona hún færi sjónvarp allra landsmanna nær sínum upprunalega tilgangi.
LÁ
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.