29.6.2010 | 01:45
BEKKJARMYNDIN.
Afi minn var á vertíð á Stokkseyri fyrir hartnær 100 árum. Launin, 50 kíló af þorskhausum, bar hann á bakinu upp í Landssveit, um 50 kílómetra labb. Amma niðursetningur en heppin með fólk. Síðar fékk Pabbi ekki bankalán og mamma hætti að vinna þegar hún varð ófrísk, sagði upp eins og þá tíðkaðist. Sjálfur man ég veggsímana, sjónvarpslausu fimmtudagskvöldin og eftirvæntinguna þegar lög unga fólksins hljómuðu, vikulega, klukkustund í senn. Þá voru hommar litnir hornauga og ofnæmi mjög sjaldgæft. Á bekkjarmyndum allir grannir nema kannski einn. Póló, Miranda, Spur Cola. Og Sinalco. Fótbolti allan daginn, úti, annaðhvort á möl eða túni. Alvörutúni. Nú, sem foreldri, leiðir maður hugann að því hvort framhaldið sé rökrétt eður ei. Erum við, forsjáraðilar, komandi kynslóðar að standa okkur? Ég var nokkuð bjartsýnn þangað til ég sá bekkjarmyndina.
LÁ
Athugasemdir
Köttur í mýri. --- Setti upp á sig stýri. --- Úti er ævintýri.
Þorður Sævar Jonsson (IP-tala skráð) 29.6.2010 kl. 06:19
Lýður, þú ert búinn að vekja forvitni mína. Amma mín var úr Landsveitinni, fædd í Efra- Seli, alin upp á Snjallsteinshöfða. Það væri fróðlegt að fá aðeins nánari skýringar á þínum Landsveitarættlegg. Ég át með bestu lyst alla mína æskudaga herta þorskhausa frá Stokkseyri sem pabbi endurgalt með lambakjöti á haustin.
Sigurður Grétar Guðmundsson, 29.6.2010 kl. 09:13
Hafi langafi þinn borið sama nafn og þú og búið á Hjallanesi í Landsveit erum við klárlega frændur. Ég hef aldrei étið þorskhausa en drakk Sínalcó og Spur, ekki síst hjá afa en hann vann í Ölgerðinni og hét Lýður Kristinn Lýðsson.
Emil Hannes Valgeirsson, 29.6.2010 kl. 13:02
Sælir, drengir. Jú, langaafi var búandi á Hjallanesi og átti 12 stykki börn, þ.á.m. Jón Lýðsson, sá sem þorskhausana bar, og L. Kristinn Lýðsson. Langafi er alnafni minn og langamma hét Sigríður Magnúsdóttir. Þannig liggur í því og við Emil Hannes erum náfrændur.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 29.6.2010 kl. 17:07
Við erum örugglega allir með sömu genin. --- Langa lang afi minn var Ampi og átti býli í Amphóli við Veiðivötn.
Þorður Sævar Jonsson (IP-tala skráð) 30.6.2010 kl. 00:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.