ÞJÓÐAREIGA AUÐLINDA ER GRUNDVALLARMÁL.

Magmamálið endurspeglar fyrst og fremst eitt:  Auðlindalög á Íslandi eru óskýr og skortir almenna skírskotun.   Nenni ekki að tala um aðfinnslur sjálfstæðismanna, þær eru ómaklegar og mikið skelfing hafa þeir lítið lært.  En auðvitað áttu samræmd auðlindalög að vera eitt fyrsta verk ríkisstjórnarinnar, lög um allar auðlindir, til sjávar og sveita, lög sem tryggja ævarandi þjóðareigu með tímabundnum nýtingarrétti, mun styttri þó en þeim sem Magma er að fá.  Forkólfar atvinnulífsins hræðast ótrúverðugleika íslendinga á alþjóðavettvangi og segja riftun samningsins við Magma fráfælandi.  Þessu er öfugt farið.  Veikleiki Íslands í alþjóðaviðskiptum er einmitt skortur á hreinu borði og verkferlum sem eru gagnsæir.  Enn er öllu haldið undir borðum og vinnubrögðin mismunandi frá degi til dags.  Riftum því þessum samningi og hunskumst í þá vinnu sem til þarf svo fólk, fyrirtæki og íslenzka ríkið viti hvað semja skal um og hvernig.  Látum ekki blekkjast af skammtímasjónarmiðum, til lengri tíma er óskoraður eignaréttur íslenzku þjóðarinnar á auðlindum sínum sá hornsteinn sem framtíðina mótar.   

LÁ  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Grétar Guðmundsson

Þú kemur mér á óvart Lýður, ég hélt að þú værir víðsýnn og vildir ræða mál út frá staðreyndum. Við verðum að fara að temja okkur að hætta að segja að epli sé appelsína  og öfugt. Magma Energy hefur ekki eignast eitt einasta brot af auðlindum Íslands. Afnotaréttur til ákveðins tíma til að framleiða orku og selja er tveir hlutir náskyldir enn algerlega aðskildir þó. Landvirkjun hefur byggt margar vatnsaflsvirkjanir en á þó ekki eitt einasta vatnsfall, hefur hins vegar afnotarétt, en það er víst annar handleggur því þar eru Íslendingar við stjórnvölinn en ekki útlendingar. Það mun stórskaða okkar orðspor á alþjóðavettvangi ef við riftum kaupunum á Magma Energy, sem líklega er ekki framkvæmanlegt. Sem ungur maður var ég eindreginn þjóðnýtingarmaður en ég er búinn að sjá að líklega eru engir eins óhæfir til að reka fyrirtæki og stjórnmálamenn.

Vertu svo velkominn á bloggið mitt <siggigretar.blog.is> hvenær sem þú vilt. gleður mig að þú hefur litið þar inn.

Fyrst og fremst vona ég að þú kynnir þér rækilega kröfuna um að orkufyrirtæki séu í íslenskri eigu (að auðlindirnar eigi að vera það er hafið yfir vafa) til þess að allur arður verði eftir í landinu. Sjáðu hvað ég segi um Landsvirkjun, orkufyrirtæki 100% í íslenskri eigu.

Hefur ekki allur arður af því fyrirtæki orðið eftir í landinu?

Nei öðru nær, meirihluti af rekstarafgangi Landvirkjunar hverfur til útlendra fjármálfyrirtækja og banka í formi vaxta auk afborgana af lánum. Allar virkjanir Landsvirkjunar hafa verið byggðar fyrir útlent lánsfé sem verður að endurgreiða að sjálfsögðu og gleymdu ekki vöxtunum

Sigurður Grétar Guðmundsson, 28.7.2010 kl. 20:50

2 identicon

Fer oft inn á bloggið þitt, Sigurður, kennir þar ýmissa grasa og margt gagnlegt í umræðunni.  Skil sjálfur vel muninn á eign og nýtingu en hvernig er útkoman í sjávarútvegnum?  Þar áskilja menn sér lög og rétt, mótmæla öllum breytingum og ráða þar því sem þeir vilja ráða.  Ógnin í þessum Magmakaupum er lengd nýtingarréttarins sem er út í hött.  Er svo á öndverðum meiði varðandi áhrif riftunar þessa samnings, tel það skaða okkur mjög til lengri tíma að gera það ekki en samhliða þarf vitanlega að drífa í skotheldum auðlindalögum þar sem þjóðarhagur er í öndvegi.  Sammála að stjórnmálamenn eigi ekki að reka fyrirtæki en ganga þannig frá hnútunum að þjóðinni séu tryggð yfirráð auðlinda sinna og einnig arður í formi auðlindagjalda.

Kveðja,

lydurarnason (IP-tala skráð) 28.7.2010 kl. 22:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband