10.8.2010 | 02:43
PÓLITÍSKAR FLEYTIKERLINGAR.
Af mörgu er að taka þessa dagana, eitt af því er stjórnsýslan. Belgingur hennar hefur verið með ólíkindum á síðustu árum og áratugum. Í þessum loftbelg býðst flokksgæðingum allra fjórflokkanna risavaxið hlaðborð af allra handa lífsbrauði, smáu, stóru, með áleggi og endalausu. Hvílíkur aragrúi ráða og nefnda, sviða, verkefna og álita. Skógurinn er þéttur og flæmið ómælt. Góður jarðvegur fyrir metorðaklifur. Enda sést oft ferill flokksgæðinga þegar þeim býðst ný staða og yfirlitið einatt pólitískar fleytikerlingar. Verst er þó sjálftaka flokkanna á opinberu fé, sjálftaka sem þeir ákveða sjálfir og nenna svo vart að vinna fyrir fólkið. Stórfelldur niðurskurður stjórnsýslunnar er ekki bara skref í lýðræðisátt heldur nauðsynlegur upp á skilvirkni kerfisins. Allur þessi mannskapur sem náði hæstu hæðum kringum hrun reyndist gagnslaus. Yfirsýnin var engin og allir héldu að annar væri að vinna verkin. Okkur ber að læra af þessu og sníða stjórnsýsluna að þörfum þjóðarinnar, ekki flokkanna.
LÁ
Athugasemdir
Kæri Lýður, ég dáist að elju þinni við að benda okkur og stjórnvöldum á villur síns vegar.
Ég hef þrjár spurningar til þín:
1. Nú hljóta hagsmunir flokkanna og þjóðarinnar að einhverju leiti að vera sameiginlegir, því ef þjóðarskútan sekkur, þá tortíma flokkarnir sjálfum sér. Er þetta rétt?
2. Höfum við efni á að mennta stjórnmálamenn á Íslandi? Þurfum við ekki að mennta þá í útlöndum eins og flesta sérfræðilækna?
3. Hvað er það besta sem þú sérð við íslenska stjórnkerfið?
Björn Hjálmarsson (IP-tala skráð) 10.8.2010 kl. 08:27
Þakka hnýsnina, félagi Björn.
1. Haldreipi flokkanna er að viðhalda stjórnskipuninni og spillingin náði fram að því. Allir biðjast afsökunar og kveðast vera breyttir. Eðlilegra hefði verið að láta öðrum eftir framhaldið. Iðrunin er því ósönn og til þess eins að geta tekið þráðinn upp að nýju. Tel því snertifleti þings og þjóðar í mikilli óvissu og ekkert fær þeim breytt nema meira aðhald stjórnsýslunnar.
2. Jú, fjarlægð væri til bóta, eða ráða í auknum mæli útlendinga í stjórnsýsluna. Megum þó ekki gleyma skóla lífsins, þannig menntun bráðvantar á alþingi.
3. Sjálfsákvörðunarréttur íslenzku þjóðarinnar.
Kveðja og heyrumst, kæri vin.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 10.8.2010 kl. 09:45
Vegna fyrirspurnar Björns Hjálmarssonar, þá mæli ég með lestri á Litlu Gulu Hænunni. Einnig ævisögu Árna Þórarinssonar, Hjá Vondu Fólki, ritaða af meistara Þorbergi.
Þorður Sævar Jónsson (IP-tala skráð) 10.8.2010 kl. 09:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.