26.8.2010 | 00:51
MAÐUR ER NEFNDUR JÓN BJARNASON.
Jón Bjarnason... Hver er hann eiginlega þessi maður? Með húfu og skegg, einatt púkalega til fara, fasið eirðarlaust, framkoman vinaleg og talandinn út og suður. Rökræður vissulega ekki hans sterkasta lið en samt. Þessi litli, krangalegi maður getur svo sannarlega valdið aumingjahrolli en líka vakið spurnir. Standandi á sínu, þversum, hipsum, hapsum, einn í túni, rökþrota eða ekki, hann stendur. Jón Bjarnason hefur gert það sem forverar hans í sjávarútvegsráðuneytinu forðuðust eins og heitan eldinn, að vera á skjön við útvegsmenn og hagsmunasamtök þeirra. Samhliða því að vera fylgjandi breytingum á fiskveiðistjórn ýtir hann undir einokun í landbúnaði með nýju mjólkurkvótafrumvarpi. Gegn ESB-aðild gefur hann skít í þá vegferð og ærir fylgjendur aðildar með fratyfirlýsingum. Jón er sannlega ólíkur samráðherrum sínum sem sigla lygnari sjó. Sumir segja söðu Jóns veika innan ríkisstjórnarinnar og má til sanns vegar færa. Held hinsvegar Jón eiga mikinn stuðning úti í samfélaginu því þar teljast gallar oft til kosta. Spái því að lífdagar ríkisstjórnarinnar verði jafnmargir og dagar Jóns í embætti.
LÁ
Athugasemdir
Er Jón nokkuð öðruvísi en aðrir í þessari ríkisstjórn ? --- Út og suður, -- norður og niður.
Þorður Sævar Jonsson (IP-tala skráð) 26.8.2010 kl. 02:35
Jón er þrjóskur og magnaður karl á marga lund. Og ég tek undir með þér hvað það varðar að sumum mönnum hentar vel að komast í umræðuna á forsendum sem aðrir sækjast ekki eftir.
Sannspár muntu líka verða um að lífdagar þessarar ríkisstjórnar verða ekki margir umfram ráðherratíð Jóns Bjarnasonar.
Árni Gunnarsson, 26.8.2010 kl. 07:09
Afhverju segirðu að hann sé púkalegur til fara ? Mér finnst hann geta leikið pabba Emils í Kattholti, skandinavískur eða kannski eistneskur í útliti. Flottur kall !
Hann verður látinn víkja fyrir Ögmundi og einhverjar róteringar gerðar í ríkisstjórn til að Samfylkingin geti haldið útvegsmönnum góðum áfram. Furðulegt að Sjálfstæðisflokkurinn skuli enn hafa áhrif þrátt fyrir að vera í stjórnarandstöðu. Var að vona að Ólína fengi fyrningarleiðinni framhaldið....en eitthvað hefur verið gert til að þagga niður í henni. LÍÚ heldur áfram að stjórna þessu landi.l
Guðrún (IP-tala skráð) 26.8.2010 kl. 10:46
Jú, Doddi, Jón er öðruvísi, eins og hrútspungur í sleikipinnabúnti. Árni, spádómurinn kemur í ljós en brottrekstur Jóns myndi ergja marga utan stjórnarheimilisins... Og Guðrún... Hef sjálfur fengið þá umyrðan að vera púkalegur til fara, klæðist ekki ólíkt Jóni. En kannski það sé della og við flottir. Ólína hvarf og ekki sú fyrsta haldandi á þessu flaggi. LÍÚ stjórnar enn þessu landi, næstu kosningar munu snúast um það.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 26.8.2010 kl. 11:55
Líkar ekki við hans hugsunarhátt,alls ekki.
Sigurbjörg Sigurðardóttir, 26.8.2010 kl. 17:05
Sæl Sigurbjörg. Hugsunarháttur Jóns er kannski eilítið upp og ofan en hann dirfist þó að raska ró gæðinganna sem gæti kostað hann básinn.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 27.8.2010 kl. 01:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.