2.9.2010 | 00:50
RÁÐHERRAKAPALL.
Puntstráin eru mörg þessa dagana enda farið að hausta. Ráðherrakapallinn heillar sem fyrr og sá ameríski siður að horfa meira í umbúðir en innihald orðinn fastur hér í sessi. Get þó ekki séð að sífelld ráðherraskipti komi þjóðinni til góða, hvorki félagslega né fjárhagslega. Orð Þórunnar Sveinbjarnardóttur um frændann styttu mönnum stundina enda sköruleg. Jón Bjarnason stendur svo keikur af sér storminn enda eini ráðherrann sem sýnir pólitískum rétttrúnaði viðspyrnu. Vegur hans fer vaxandi og tollmúrar íslenzkri framleiðslu og viðskiptajöfnuði til framdráttar ber framsýni vott og þúfnaást. Með þessu beinir Jón landanum að innlendri vöru og ýtir þannig undir sjálfbærni. Iðnaðarráðherra ætti að fara að fordæmi Jóns og hefja hér bílabyltingu með umhverfisvænum orkugjöfum. Viðskiptajöfrar hrunsins eru svo annað umhugsunarefni. Flestir virðast koma vel undan vetri, nýafskrifaðir og klárir í bithagana. Björgólfur, Hannes, Jóhannes og hvað þessi nes öll heita virðast lenda á löppunum klingjandi skotsilfri. Held almenningur skilji lítt í þessum vendingum en hugsi sitt.
LÁ
Athugasemdir
Góðan daginn félagi Lýður.
Nú fer fyrst að færast fjör í leikinn þegar tveir hæfustu stjórnmálamenn landsins leggja saman í ríkistjórn.
Þeir verða kröftugir félagar Jón Bjarnason og Ögmundur, svo öflugir að undan skelfur sjós með dunum.
Níels A. Ársælsson., 2.9.2010 kl. 07:47
Þú hefur nú oft átt góða punkta Lýður en nú er ég alveg kjaftstopp.
Það að setja á ógurlega tolla til að vernda innlenda framleiðslu hefur ekkert með pólitískan rétttrúnað að gera. Það er einfaldlega enn einu sinni verið að færa úr vasa neytenda í vasa sérhagsmuna (bænda í þetta skipti). Jón Bjarnason er einfaldlega gamaldags stjórnmálamaður sem passar upp á sitt fólk en hefur hagsmuni heildarinnar að engu. Sorglegir stjórnmálamenn á þessu landi.
Kári Kristinsson (IP-tala skráð) 2.9.2010 kl. 10:09
Sæll, aðmíráll, sjáum hvað setur með félaga Jón og Ögmund, að minnsta kosti er ekki hægt að reiða sig á sjálfstýringuna. Og við þig, Kári Kristinsson, vil ég segja þetta: Eigin matvælaframleiðsla er grunnstoð sjálfsbjargar. Kaupum íslenzkt eflir viðskiptajöfnuð. Hagstæður viðskiptajöfnuður styrkir krónuna. Og styrking hennar eykur kaupmátt og þar með lífskjör og stöðu okkar í alþjóðasamfélaginu. Til lengri tíma eru sérhagsmunir bænda almannahagsmunir. Hinsvegar eru sérkjör opinberra starfsmanna, biðlaun, laun í námsleyfum og eftirlaunagreiðslur dæmi um sérhagsmuni sem dregnir eru úr vasa almennings án endurgjalds. Bændastéttin er í útrýmingarhættu en af frambjóðendum í stjórnmál er urmull. Og kannski ekki að furða.
Kveðja, LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 2.9.2010 kl. 11:04
Kári......hverslags ?
Eiga íslenzkir bændur sem lapið hafa dauðann úr skel í marga áratugi að keppa við niðurgreitt EB kjöt sem fóðrað er með makrílmjöli frá Samherja hf, og álíka ofbeldis útgerðum ?
Nei takk.
Níels A. Ársælsson., 2.9.2010 kl. 11:09
Og eitt skalltu vita.
Jón Bjarnason er eini ráðherran í þessari ríkistjórn sem látið hefur verkin tala og hann þorir að storka glæpasamtökum LÍÚ.
Það sama verður ekki sagt um átrúnaðargoðið þitt lítilmennið sem sat á undan Jóni Bjarnasyni í stóli ráðherra.
Níels A. Ársælsson., 2.9.2010 kl. 11:17
Varðandi skrif Kára hér fyrir ofan vil ég benda á þetta blogg, sem ég skrifaði 24. maí síðastliðinn og var gegn grein Þórólfs Matthíasonar sem titlar sig hagfræðing.
Í þeirri grein afhjúpar hann pólitískar skoðanir sínar og hvernig hann notar titil sinn til að koma þeim á framfæri. Grein Þórólfs er ein alsherjar staðreyndarvilla með óhróður á bændastéttina innan um!
Gunnar Heiðarsson, 2.9.2010 kl. 11:55
LÁ: Til lengri tíma er þetta óhagkvæm framleiðsla sem er að miklu hluta haldið uppi af skattgreiðendum. Ekki láta þér detta í hug að það sé gott fyrir Ísland að halda uppi slíkri framleiðslu. Innlend framleiðsla er nú þegar vernduð með ofurtollum, ríkisstyrkjum og gengi íslensku krónunnar. Er það ekki nóg? Ef þú vilt styrkja innlenda framleiðslu er þér velkomið að gera það með þvi að kaupa viðkomandi vöru á frjálsum markaði. Það er bara alveg óþarfi að neyða mig til þess.
Níels: Já ég er ánægður með að Jón storki við LÍÚ, hann mætti reyndar alveg storka meira við þeim. Fyrrverandi ráðherra er hinsvegar ekkert átrúnaðargoð mitt. Ég veit reyndar ekki hvernig þér dettur í hug að halda því fram.
Gunnar: Ég og Þórólfur erum ekki sömu mennirnir svo ég sé enga ástæðu til að verja hans skrif.
Kári Kristinsson (IP-tala skráð) 2.9.2010 kl. 23:43
Félagi Kári. Klyfjar landbúnaðar er kvótakerfið. Það býður upp á einokun og háan fjámagnskostnað. Frjáls samkeppni milli bænda innanlands myndi lækka verð til neytenda sem og úthreinsun milliliða og eftirlitsaðila. Beint frá býli er framtíðin. Og þó ég hafi hrósað Jóni fyrir tollatrúna eys ég hann skömmum fyrir mjólkurkvótafrumvarpið sem er að mínum dómi hrein hagsmunagæsla fyrir kúabændur. En í hnotskurn er málið þetta: Eigin matvælaframleiðsla er ein meginstoð sjálfstæðrar þjóðar. Við eigum því að kaupa íslenzkt, styðja við bakið á okkar fólki hvert svo sem sýsl þess kann að vera. Hafi þjóðin hugsun á þessu fylgir því mikið afl.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 3.9.2010 kl. 01:08
Þá erum við ekki langt frá því að vera sammála Lýður
.
Beint frá býli er algerlega framtíðin. Og ég er handviss að íslenskar vörur ættu ekki í neinum erfiðleikum að keppa við erlendar. Ég og flestir sem ég þekki myndum t.d. kaupa íslenskt í lang lang flestum tilfellum. Ég vil bara að valið sé mitt, ekki Jóns Bjarnasonar.
Kári Kristinsson (IP-tala skráð) 3.9.2010 kl. 13:16
Jón, blessaður, er trúr sinni en auðvitað vill maður hafa val um flest. Krónutala vöru segir bara ekki allt. Þakka skemmtilega orðræðu, Kári, og vona þær verði fleiri.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 4.9.2010 kl. 00:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.