10.9.2010 | 02:18
UMMÆLI.
Safarík ummæli færast nú í vöxt og augljóst að stjórnmálamenn eru farnir að láta flakka í stað settlegheita og fullkomnunaráráttu. Útgustur fyrrum umhverfismálaráðherra, Þórunnar Sveinbjarnardóttur, hefur náð fótfestu á flíkum ungu kynslóðarinnar og persónufylgi Þórunnar ugglaust rokið upp í þessum aldursflokki. Að virtur stjórnmálamaður skuli æskja einhverjum hopps upp í óæðri endann er auðvitað ekkert annað en dúndursvalt. Borgarstjórinn, Jón Gnarr, minntist svo á eigin klámsíðunotkun sem tekin var úr samhengi við Tourette sem þykir óviðeigandi en er þó engu að síður hann. Þurfti Jón að afsanna stuðning sinn við mansal og vændi og brást að sjálfsögðu athygli til þess. Tel borgarstjórann enn vaxa að vinsældum með öllum þessum breyzkleika. Steingrímur Joð átti þó svívirðilegustu ummælin sem voru um Þór Saari, þingmann Hreyfingarinnar. Hafði sá síðarnefndi átalið stjórnarflokkana fyrir niðurstöðu sáttanefndar í sjávarútvegi sem gengur í berhögg við yfirlýsta stefnu stjórnvalda. Í kjölfarið fannst Steingrími dapurlegt að alþingi íslendinga sitji uppi með eintök eins og Þór Saari. Af stjórnarsáttmálanum að dæma hafði Steingrímur einhverntíma svipaða sýn og títtnefndur Saari á sjávarútvegsmálunum. Kannski Steingrímur Joð Sigfússon hafi þá verið dapurt eintak en hafi nú snúist til betri vegar. Ja, ekki veit ég hvort sé verra, klámið eða fylgispektin við LÍÚ...
LÁ
Athugasemdir
Því verður varla móti mælt, að við lifum á tímum fáránleikans.
Þorður Sævar Jonsson (IP-tala skráð) 10.9.2010 kl. 09:25
Þegar ég ólst upp var sagt að "menn færu alveg í kleinu" þegar þeir þóttust uppvísir af því að hafa komið sér í vandræði. Það ástand er svipað því og að hoppa upp í rassgatið á sjálfum sér.
Gísli Ingvarsson, 10.9.2010 kl. 10:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.