15.9.2010 | 00:50
ÞAK Á ÞINGSETU.
Þó uppgjör við fortíðina sé lýðveldinu mikilvægt má ekki gleyma frumþörfunum. Þjóðin þarf að hafa í sig og á, trú, von og einhverja framtíðarsýn. Í þessu er tvennt uppi á borðum, auðlindir og mannauður. Hvernig getum við nýtt það sem við höfum og gert okkur sjálfbjarga á sem flestum sviðum? Við gætum t.d. raf- og/eða gasvætt bílaflotann fyrst ríkja í heimi. Gert óþarft að flytja inn bílabensín og jafnvel flutt út rafmagn og gas? Líka má nefna að jarðarbúar ganga hratt og örugglega á vatnsbirgðir sínar og ljóst að vatnsskortur er ekki langt undan. Þá kemur Frónið sterkt inn. Þangað til getum við aukið fiskveiðar og útflutning fiskafurða. Hvað mannauðinn varðar höfum við tvær leiðir: Kreista túpuna eða fjölga þeim. Skattpíningarleið ríkisstjórnarinnar skilar kannski einhverju til að byrja með en skjótt mun framlegð hvers og eins minnka og sumir hverfa af landi brott. Örvun atvinnulífsins verður með vænlegu skattaumhverfi sem og auðlindanýtingu. Því miður er hvorutveggja í molum í dag. Miðað við þær samfélagslegu hamfarir sem íslenzk þjóð hefur gengið í gegnum ættum við að vera mun samstilltari. Alþingi ætti að ganga í takt, viljugt til þjóðþrifaverka. Moka út ónýtu drasli og sparsla í rifurnar. Illu heilli bólar lítt á slíku og í flestum málum, stórum sem smáum, ráða flokkslínur. Flokksræðið er orðið til trafala og bezta móteitrið örari skipting þingmanna og ráðuneytisfólks. Kaninn gefur átta ár, kannski það sé reynandi.
LÁ
Athugasemdir
Þakka góða pistla Lýður. Varðandi að sparsla í sprungurnar og mannauðinn t.d. í heilbrigðiskerfinu að þá á frekar að treysta undirstöðurnar, sérfræðiþekkinguna og koma í veg fyrir atgerfisflótta heilbrigðisstarfsfólks frá landinu í stað þess að leggja alla peningana í ótímabæra 20 - 30 milljarða króna byggingu á Landspítalalóð! Og á hverjum er tekið mark á í stefnumótununarvinnunni? BK
Vilhjálmur Ari Arason, 15.9.2010 kl. 13:38
Sæll, félagi Vilhjálmur. Við erum í þeim pytti að uppbygging í flestu miðar meira að starfsfólkinu en notendum þjónustunnar. Augljós er sjúkdómsvæðingin í okkar geira, hverjum þjónar hún?
Kveðja, LÁ
lydurarnaosn (IP-tala skráð) 15.9.2010 kl. 16:01
Vilhjálmur! Gleymdi því mikilvægasta. Skoðun allt of margra lækna varðandi hátæknisjúkrahúsið er ókunngjörð. Fáir læknar hafa sagt hug sinn. Sértu þeirrar skoðunar að peningunum sé betur varið í annað hvet ég þig eindregið út á ritvöllinn.
Kveðja, LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 15.9.2010 kl. 16:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.