30.9.2010 | 01:46
DÝRKEYPT ER DÓMGREINDARLEYSIÐ.
Viðbrögð fjórmenninganna sem áttu sitt undir velvilja félaga sinna á alþingi vekja furðu. Öll segja sakargiftir á veikum grunni og sum bera við pólitískum ofsóknum. Sammála Jóni Baldvin að vitanlega ættu þau öll að krefjast framgöngu til landsdóms. Fjórmenningunum hlýtur að vera ljós undiraldan í samfélaginu, ekki endilega til sakfellingar heldur niðurstöðu sem byggir á öðru en afstöðu vinnufélaganna. Afgreiðsla alþingis á málum fjórmenninganna varðar hvorki sekt né sýknu, hún stýrir einungis einum í dómshús og hinum heim. En hún er annað og meira, hún er holdgervingur afglapa sem dæmir eigin afglöp. Geir fær nú tækifæri til að hreinsa mannorð sitt, hin ekki og þessu ætti Geir að fagna. Held reyndar fáa telja Geir glæpamann né þau hin, yfirsjónin fremur sú að vera á slysstað og aðhafast ei. Þjóðin kennir þessu fólki ekki um hrunið heldur hitt að bregðast ekki við. Jú, og svo þá blindu, að telja sig enn umkomin í stað þess að hleypa að nýju fólki. Kannski það sé mesta dómgreindarleysið og þjóðinni dýrkeyptast.
LÁ
Athugasemdir
Er ekki einsýnt, að sama hver niðurstaða Landsdóms verður; hún mun í besta falli friðþægja einhverja, líklegast Geir Haarde sjálfan - en einungis fyrir lögunum. Undiraldan sem þú vísar í lýsir sér einna helst í því að fjölmargir hafa fyrir margt löngu sakfellt þetta fólk - en hefur í raun ekkert með það að gera að fá eitthvað fram í dagsljósið. Ef menn telja enn skorta á það, hefði Alþingi verið í sjálfsvald sett að rannsaka málið á þeim grunni, án þess að fara í ákæru á fjóra ráðherra. Geir bar sig að því leytinu vel, að hann fagnaði því að hann einn sætti ákæru.
Niðurstaðan á Alþingi þótti mér dapurleg og einsýnt að griðrofin á þeim bænum munu ekki verða til þess að efla starf þessarar samkundu, nú þegar ríður á að leysa vanda þúsunda heimila og forða áralöngu samdráttar- og niðurlægingarskeiði. Ömurlegt ástand þessa lands er að verða óþolandi - og allt eins víst að maður hugi á brottför.
Ólafur Als, 30.9.2010 kl. 17:52
Þjóðin er svo sem ekkert bættari með að dæma þetta fólk en útburður þess hinsvegar löngu tímabær. Dragist það enn munu margir hverfa héðan brott eins og þú segir. Vonum það besta en biðlundin er þverrandi.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 1.10.2010 kl. 01:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.