6.10.2010 | 05:25
UPP MEÐ SPJÓTIN!
Arfavitlaus niðurskurður heilbrigðismála birtist nú landsmönnum ofan á allt annað. Í stuttu máli færast bráðalækningar mestmegnis á suðvesturhornið og litlu landsbyggðarsjúkrahúsunum breytt í heilsugæslur. Bæta á sjúkraflutninga til að gera þetta kleift. Hvernig ráðherra hyggst stytta leiðir og breyta veðrabrigðum er mér hulið. Get ei heldur séð neinn sparnað í svona umróti, að fækka stöðugildum úti á landi með tilheyrandi atgervisflótta, ónýta aðstöðu sem þegar er fyrir hendi og færa niðurgróna þjónustu fyrir íbúana úr heimabyggð. Vítt um landið er prýðis aðstaða og fremur vert að íhuga streymi sjúklinga til landsbyggðar en ekki frá. Vandamál heilbrigðiskerfisins er að minnstu leyti litlu, manneskjulegu einingarnar í borgum og sveitum heldur sú miðstýringarárátta hvurs birtingarmynd er í stórum byggingum og ofvaxinni stjórnsýslu. Þetta sést víða, nefni ráðhúsið, sjónvarpshúsið, landspítala orkuveituna og bráðum tónlistarhúsið. Hættum sífelldum árásum á raunveruleg störf, beinum spjótunum frekar upp.
LÁ
Athugasemdir
Það virðist alveg hafa farið framhjá yfirvöldum að þetta er fólk en ekki tölur. Öryggisfjarlægðir eru ekki virtar og þetta yrði mikið alvörumál fyrir afskekkt byggðarlög.
Hvernig væri frekar að nýta úrræði sem við höfum mörg ennþá þ.e. áður en öll umframgeta er flutt úr landi, til þess að skapa tekjur og halda uppi þjónustu.
Ég tel að Húsavík og suðurnes gæti t.d. nýtt sér lækningatengda ferðaþjónustu. Þannig skapað næga atvinnu fyrir sérfræðinga og viðhaldið þjónustu á svæðinu.
Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 6.10.2010 kl. 07:16
Mikið er ég sammála þér Lýður - hugsaðu þér ruglið og spillingin í ofvöxnu bankakerfi heldur áfram eins og ekkert hafi í skorist. Hvers vegna beitir stjórnin sér ekki að því að aðlaga bankakerfið að samfélaginu í stað þess að grafa undan heilbrigðisþjónustunni?
Sigurjón Þórðarson, 6.10.2010 kl. 11:04
Rétt hjá ykkur báðum, ríkisstjórnin er í sama pytt og fyrirrennararnir, stefna og sannleikur rekin frá degi til dags. Glöggt dæmi er ráðherraskiptin þar sem hver upphefur sitt eigið veggjakrot.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 6.10.2010 kl. 11:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.