8.10.2010 | 01:52
BJARGRÁÐ & NESJAÞINGMENN.
Verjandi fyrrum forsætisráðherra fyrir landsdómi vill láta málsókn á hendur skjólstæðingi sínum niður falla. Segir alþingi hafa gleymt að skipa saksóknara í málinu jafnhliða samþykkt um málsókn. Svo sem ágæt lausn að formgalli bjargi Geir frá landsdómi. Firningin bjargaði jú Davíð og Halldór, samheldni vinnufélaganna hrunstjórnarráðherrunum og kennitöluflakkið útrásarvíkingunum. Allir hafa einhver bjargráð nema heimilin. Mestu aumingjarnir eru þó listamenn, svo segir nesjaþingmaður. Eflaust má finna drabbara í þeirra hópi sem öðrum en músikhúsið á hafnarbakkanum þolir nesjaþingmaðurinn heldur ekki. Hafi hann þökk fyrir hreinskilnina, sjálfur tel ég tónlistarhús ekki til brýnustu verkefna þjóðar neðarlega í hrunhlíð en léti það óátalið ef áhugamenn slíkrar framkvæmdar stæðu sjálfir að húsinu. Því er ekki að heilsa og afstöðu þingmannsins tel ég reyndar ekki einsdæmi. En séu menn spurðir, ekki sízt þingmenn, hafa allir gaman af ballet.
LÁ
Athugasemdir
Mér finnst leiðinlegt að hlusta á fólk tala saman syngjandi. Ég kann ekki að meta fólk sem stekkur upp í loftið í sokkabuxum. Ég þoli ekki fiðlukonserta með knéfiðluundirleik. Þungarokk fer í taugarnar á mér. Mér finnast íslenskar kvikmyndir flestar leiðinlegar o.s.frv. Segir þetta ekki allt sem segja þarf um mig?
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 8.10.2010 kl. 17:50
Jú, Benedikt, þú virðist alls óalandi og óferjandi. Er reyndar sammála þér um þetta allt nema sokkabuxurnar, sé þetta lipurlega gert og kvenmaður sem stekkur er hægt að hafa gaman af.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 9.10.2010 kl. 01:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.