9.10.2010 | 01:17
VELFERÐ VINSTURSINS.
Nýskipaður heilbrigðisráðherra, Guðbjartur Hannesson, segir sívaxandi kröfur um ákveðna tækni og ákveðna færni og kunnáttu í læknisþjónustu. Þessu sé ekki hægt að dreifa um allt land heldur verði að koma þessu fyrir á fáum stöðum. Að heyra þetta úr munni æðstráðandi manns á sviði heilbrigðismála á Íslandi er sláandi og illur fyrirboði. Hvaðan heilbrigðisráðherra fær þessa greiningu eða ráðgjöf veit ég ekki en hinsvegar veit ég hana ranga. Sívaxandi eftirspurn eftir tækni og sérhæfðri læknisþjónustu er ruglumbull. Á hinn bóginn er framboð yfirþyrmandi af allskonar tæknilegheitum og nýjungum sem keppast við að festa sig í sessi. Örþekking er öflug en oftar angrar þó eyrnamergurinn. Vandi heilbrigðiskerfisins er það sjálft. Í stað þess að gera fólk sjálfbjarga kappkostar kerfið að vera miðpunktur, ómissandi álitsgjafi sem síbyljar um að þetta þurfi að gera og hitt verði að athuga, eftirlit sé nauðsynlegt og þú þurfir að koma aftur og aftur og aftur. Og þegar háskólagráðurnar óma hlusta auðvitað allir. En heilbrigðisráðherra sem virkilega vill vinna fyrir fólkið í landinu dugir ekki eintal við vísindafólkið, meira þarf til. Í öllum landshornum eru sjúkrahús starfandi og heilsugæslur. Einnig heimahjúkrun og elliheimili. Þessar stoðir sjá fyrir daglegum þörfum fólks, bráðalækningum, sjúkrarúmum, lyfjagjöfum, fæðingum og félags- og öldrunarþjónustu. Með þessu er nánast allri þörf svalað. Hvarvetna er þetta fyrir hendi, aðstaða, þekking og mannskapur. Í borginni er ástandið einna verst, þjónustan á vergangi og málum riggað frá degi til dags. Yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar, að eyðileggja nýtilegustu bita heilbrigðisþjónustunnar, er feigðarflan og mikill skaði komist hún til framkvæmda. Ekki bara vegna atgervisflóttans sem hún sannlega inniber heldur mun þjónustan rýrna, bæði að kostum og gæðum. Sparnaður slíkrar misgjörðar er enginn. En hvar er þá hægt að spara?1. Hætta strax við nýtt hátæknisjúkrahús, byggingarkostnaður ærinn, rekstur strembinn og mönnun byggð á bjartsýnisspám. 2. Draga úr yfirbyggingu sjúkrastofnanna og lækka kaup þeirra hæstlaunuðu. 3. Setja þak á rannsóknir og kvótasetja lækna í þeim efnum. 4. Tilvísunarkerfi til að draga úr ofnotkun sérfræðiþjónustu. 5. Hækka komugjöld. Skárri kostur en sá sem nú er uppi á borðum.6. Samnýta starfsfólk og flytja það fremur á milli staða en sjúklinga. 7. Efla einkarekstur og gera hann fýsilegri en nú er. Gæti dregið úr aðkomu hins opinbera og létt þannig róðurinn. Í hnotskurn má þó segja að mesti sparnaðurinn og sá varanlegasti sé fólginn í aukinni meðvitund fólks um eigið framlag til heilbrigðis. Vegferð heilbrigðisráðherra er augljóslega í litlu samráði við vinnandi fólk innan heilbrigðisgeirans, hvað þá sjúklinga. Enn og aftur er það stjórnsýsluliðið sem ræður för. Enn og aftur er ýtt undir sjúkdómsvæðingu sem styrkir höfundana sjálfa í sessi. Farin er dýrasta leiðin, sú óskynsamlegasta og ómanneskjulegasta. Sé þetta velferð vinstursins er kominn tími á hægðir. LÁ
Athugasemdir
Engu er líkara en hann hafi fengið hæstráðandi lækna frá Landspítalanum sem sögðu hvað þeir vildu fá þangað og vessgó. Hvað hefur hátæknisjúkrahús að gera með ferliverk og aðgerðir sem vel er hægt að vinna í heimasjúkahúsum fyrir lægra verð?
Hver reiknar út ferðir sjúklinga, aðstandenda, vinnumissi, tekjutap, óþægindi og vanlíðan sjúklinga og aðstandenda þeirra? Hátæknisjúkrahús hlýtur að eiga að sinna hátækniaðgerðum. Vera toppurinn á píramídanum. Þingeyingar og Vestmannaeyingar eiga að fá að fæða sín börn án þess að þurfa að flytja annað í fleiri vikur. Sömuleiðis að sinna sínu deyjandi fólki. Þetta er hneisa.
Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 9.10.2010 kl. 06:47
Það er alveg ótrúlegt hvað hver heilbrigðisráðherrann á fætur öðrum tætir allt niður og ólmast í forinni meðan hann er í einfeldni sinni viss um eigið ágæti til verka þrátt fyrir algjöry þekkingarleysi. Sparnaðaraðgerðir fyrrverandi ráðherra eru aflagðar og tussufínu stráklingarnir semja nýjar sparnaðartillögur sem ganga í augun á ´nýja ráðherranum og herra Hindriða Lákastráks.
Kari (IP-tala skráð) 9.10.2010 kl. 09:25
Starfsfriður litlu stofnananna er enginn, sífelldur viðsnúningur á framtíðarsýn og því að engu að keppa. Læknamafían er svo engu betri en LÍÚmafían, gín yfir og gleypir allt. Stjórnvöld þurfa að sýna svo ekki verði um villst hver stjórni landinu.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 9.10.2010 kl. 14:13
Hér þarf að leggja niður Heilbrigðisráðuneytið með manni og mús.
Skipa nýtt 10 manna ráð af heilbrigðu fólki.
Málið er að ráðherra, sama hver hann er, fær engu ráðið núna.
Svo áttu að nota greinarskil Lýður.
Gudmundur Bjarnason (IP-tala skráð) 9.10.2010 kl. 23:26
Guðmundur Bjarnason, nota alltaf greinaskil og svo einnig nú en þegar ég límdi pistilinn inn á bloggið riðlaðist allt heila klabbið og útkoman varð þessi grautur, afsakaðu.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 11.10.2010 kl. 02:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.