22.10.2010 | 04:22
LANDI Í KLANDRI.
Hraus hugur við viðtali við landlækni í fréttum kvöldsins. Tjáði hann sig um einkasjúkrahúsið á suðurnesjum og sagði það ógn við heilbrigðiskerfið, tók til rannsóknir sem bentu á skaðsemi slíkra stofnanna. Ennfremur ýjaði landlæknir að atgervisflótta starfsfólks frá ríkisreknu einingunum þegar hinar einkareknu væru í boði. Hef rendar æ verið ósammála því að fólk með faglega löggildingu í læknisfræði megi ekki setja sig niður og hefja rekstur sýnist því svo. Þetta tíðkast allsstaðar og þarf ekki einu sinni stúdentspróf til. Sem er fínt. Segi ennfremur bábilju að einkarekstur geti ekki þrifist með ríkisrekstri og tel fagnaðarefni að á niðurskurðartímum sem þessum skuli heilbrigðisstarfsfólki nú bjóðast nýjar stöður. Eða hvað með allt fólkið sem mun missa vinnu sína í komandi niðurskurði heilbrigðisstofnanna, er betra að allir húki heima? Við þetta má bæta að allt í kringum okkur er blandaður heilbrigðisrekstur, meira að segja í Svíþjóð, og ekki vandamál að fólk deyi drottni sínum sökum fátæktar. Held stjórnvöld og landlæknir þ.m.t. ættu að hætta þessum grenjum gegn einkarekstri í heilbrigðisþjónustu og hlúa frekar að uppbyggingu einkageirans samhliða þeim ríkisrekna. Þannig fáum við fleiri valmöguleika, atvinnu, samkeppni, þekkingu og jafnvel arð. Óska svo einkasjúkrahúsi suðurnesja velfarnaðar í hvívetna.
LÁ
Athugasemdir
Algerlega sammála þér. Ég vil meira að segja taka þetta lengra og held því fram að einkaframtakið verði að koma núna ellegar eigum við von á óafturkræfum flutningi mannauðs úr landi. Af tvennu illu vil ég frekar að mannauðurinn flæði í einkafyrirtækin en úr landi. Ef hann fer úr landi þurfum við fljótlega að senda sjúklinga á eftir þeim með tilheyrandi gjaldeyriskostnaði og fórnum. Þetta er svo blóðugt vegna þess að við höfðum fyrir aðeins rúmu ári mikil tækifæri til lækningatengdrar ferðaþjónustu og höfum kannski ennþá.
Það sem þarf og verður að gerast er að fram komi lög sem veiti ríkinu forkaupsrétt að allri læknisþjónustu, heilbrigðisstofnanir verði sjálfseignarstofnanir og fái þannig frelsi til þess að taka þátt í að skapa sér tekjur og spyrna á móti þessari samkeppni sem þær geta engan veginn unnið eins og nú er ástatt.
Um leið þá er hægt að taka einkarekstrinum fagnandi sem bjargvætti, leysa heilbrigðisfagfólk úr einokunarálögum og nýta nýsköpunar og frumkvöðlagetu þessara stétta til atvinnusköpunar og tekjumyndunar fyrir samfélagið. Nú er samkeppnin að myndast milli einkareksturs of opinbers en ekki Íslands og nágrannaríkjanna. Hvernig dettur þessum stjórnvöldum í hug að hægt sé að segja upp fólki í löngum bunum og það fari ekki úr landi þegar það má hvergi starfa á eigin vegum?
Nei þess í stað er valið að hrekja þetta fólk úr landi með háum sköttum, litlu frelsi, lokunum á landsbyggðinni og með því að láta fjárlög taka stefnumótandi ákvarðanir fyrir framtíð afskekktra byggða og heilbrigðisþjónustunnar á landinu. Hvernig í ósköpunum á að vera sannfærandi hagræðing í því að snúa píramídanum við og senda breiða botninn til Reykjavíkur eftir þjónustu? Á ekki fágæt hátækniþjónusta að vera á LSH? Hvernig ætla þeir að koma henni við þegar líknardeildir eru komnar á gangana og hvergi er hægt aðs enda fólk í hjúkrunarlegu á heimasvæðum?
Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 22.10.2010 kl. 06:09
Ég hef alla tíð verið þeirrar skoðunar að varlega skuli farið í einkavæðingu heilbrigðisgeirans. En hvað á að gera þegar stjórnvöld treysta sér ekki til að halda uppi grunnþjónustu? Reyndar er nú þegar búið að einkavæða hluta hennar.
Þessi starfsemi sem hugsuð er á Suðurnesjum er að því að ég best veit, ætluð fyrir innflutning á sjúklingum og því ekki í samkeppni um sjúklinga hérlendis. Því er þarna um að ræða fyrst og fremst vinna fyrir ört stækkandi hóp atvinnulausra auk þess sem þetta fyrirtæki mun væntanlega skila nokkrum gjaldeyri í ríkiskassann. Ekki veitir af.
Gunnar Heiðarsson, 22.10.2010 kl. 07:56
Við höfum verið með skipulögðum hætti að hræða almenning gagnvart einkarekstri. Alltaf er bent á USA sem dæmi um hina hræðilegu einkavæðingu og hvaða örlög bíði okkar ef við svo mikið sem gælum við einkaframtakið. Ég fullyrði að enginn núlifandi Íslendingur hefur áhuga á kerfi eins og er í USA. Það er ofsalega dýrt, tekur stærstan hluta skatttekna af öllum heilbrigðiskerfum í heimi og annar ekki um 40% íbúa sinna fyrir þessa miklu upphæð.
Enginn talar aftur á móti um að mörg best reknu heilbrigðiskerfi í heimi eru líka einkarekin. Aðalatriðið er að mínu mati að Ríkið hafi ávallt forgang í þjónustuna. Engu á að skipta rekstrarformið heldur eigi sömu reglur, kröfur og annað að gilda. Með þessu er gífurlegur ávinningur fyrir Ríkið því að það getur dregið saman eða aukið útgjöld eftir sínum hag án þess að kyrkja fagstéttirnar. Umframgeta seljist hæstbjóðendum.
Fyrir örfáum áratugum hafði enginn trú á því að aðrir en vegagerðinni væri treystandi til að byggja brýr. Nú dettur engum í hug að hún eigi að vasast í því. Hið opinbera á að setja reglurnar, tryggja þjónustu við íbúa og framfylgja eftirliti. Aðrir eiga að spila eftir þessu í algjöru jafnræði og óháð rekstrarformum. Þjónusta við íbúa á að vera algjör forgangur en ekki hverjir veiti hana.
Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 22.10.2010 kl. 08:21
Gunnar ég tel að allir óháð þjóðerni geti keypt þjónustu hjá einkaaðilum ef þeir eru til staðar. Eins og staðan er í dag getur þú farið t.d. til Svíþjóðar og keypt þér aðgerð. Afhveru máttu kaupa allt nema heilbrigðisþjónustu á Íslandi? Eins og staðan er í dag máttu kaupa þjónustu hvar sem er en þeir sem eru á samning mega ekki selja hana nema Ríkinu. Þetta ætti að vera brot á alþjóðalögum.
Ég blæs á það að það sé jafnræði í því að allir verði að bíða í biðröð. Hvar er jafnræðið í því þegar einyrki sem ekki á rétt á tryggingum eða bótum þarf að bíða í 18 mán eftir aðgerð í röð með fólki sem fær bætur mánaðarlega inn á reikning sinn? Fyrir þennan einyrkja er tíminn gríðarlega mikilvægur og hann gæti því frekar viljað taka lán og kaupa sér aðgerð í stað þess að hanga á biðlistanum og reyna að troða sér í örorkubætur sem hann ætti ekki að þurfa.
Af hverju að neyða aðstoð upp á fólk sem getur alveg greitt fyrir hana sjálft? Við höfum ekki efni á svona bulli. Ríkið fækkar aðgerðum í kreppu. Fínt ef hluti þeirra sem þurfa þjónustuna kaupi hana sjálft og þeir sem ekki geta það fái hana fyrr.
Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 22.10.2010 kl. 08:34
Ég vil aðeins benda á það að læknar þurfa miklu meira á sjúklingum að halda en sjúklingarnir læknunum. Við getum án þeirra verið en þeir ekki okkar. Hvort fólk er læknað á Suðurnesjum eða við Hringbraut skiptir ekki máli. Það sem máli skiptir er hvað það kostar að halda líftórunni í okkur. Því miður er það í mörgum tilfellum dýrt en ef allir leggjast á eitt að borga fyrir þá sem á lækningu þurfa að halda ætti það að verða viðráðanlegt hér eftir sem hingað til.
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 22.10.2010 kl. 18:11
Vonandi eru fordómar gagnvart einkarekstri í heilbrigðisþjónustu á undanhaldi, tímabært er að opna þetta hlið og sjá hvernig það reynist. Eins og Adda bendir á er markmiðið þetta: Greiði þeir sem geta og hinir fá þjónustuna fyrr. Að auki sparast almannafé. M.ö.o. saxar þetta á mörg vandamál. Svo segir Benedikt réttilega að læknar þurfi meira á sjúklingum að halda en öfugt þó leikmynd læknafélagsins reyni eindregið að sannfæra ráðamenn um annað.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 22.10.2010 kl. 18:44
Er ekki heilbrigðisþjónusta okkar undir það búin að takast á við faglega samkeppni? Getur ekki verið að það komi í ljós að ýmsir sérfræðingarí læknastétt megi bara þakka fyrir að hafa vinnu hjá ríkinu og að það komi jafnframt í ljós að eftirspurnin verði minni en þeir sjálfir vilja trúa?
Árni Gunnarsson, 22.10.2010 kl. 20:01
Ég hef bæði notið þess að vera heilbrigður og sjúkur. Það fyrrnefnda þótti mér betra þangað til ég var svæfður á Landspítala háskólasjúkrahúsi um mitt ár 2006.
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 22.10.2010 kl. 22:45
Rétt, Árni, samkeppni myndi varpa nýju ljósi á þörf og umframþörf. Og eins og Benedikt segir, þá sigrar svefninn stundum.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 23.10.2010 kl. 12:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.