23.10.2010 | 13:21
KVÓTANN Í ÞJÓÐARATKVÆÐI!
Spennandi verður að fylgjast með uppástungu sjávarútvegsráðherra, Jóns Bjarnasonar, um aukna veiði bolfisktegunda og bjóða hana út á nýjum forsendum. Sem fyrr rís hagsmunagæzlan upp á afturlappirnar, vælir um skerðingu og aðför að atvinnugreininni. En þjóðin er hætt að hlusta. Leikmynd sjálftökunnar er hrunin og þjóðin veit nú sínu viti. Krafan um þjóðaratkvæðgreiðslu er skýr, almenningur vill hafa eitthvað að segja um ráðstöfun eigin auðlinda. Hugarfar útvegsmanna opinberast í viðhorfi þeirra til ofannefndra lýðréttinda enda líkur á að niðurstaðan raski núverandi samhengi afskrifta og arðgreiðslna. Kominn er tími á að fámenn klíka hætti að ráðskast hér með allt og vonandi kemur Jón hugrenningum sínum í verk, studdur af ríkisstjórn og þjóð.
LÁ
Athugasemdir
Fullkomlega sammála.
Elle_, 23.10.2010 kl. 14:28
Um hvað villtu kjósa.
Ætla menn að kjósa um það hvaða einstaklingar fái að veiða fiskinn? hvaða landshlutar fái að veiða fiskinn? hver skatturinn á að vera?
Auðlindin er í þjóðareign samkvæmt lögum um fiskveiðistjórnun.
Málið er einfalt. Kvótinn hefur aldrei verið gefinn einum né neinum. Þeir sem hafa veiðiréttinn í dag hafa ekki haft neina tryggingu og muni ekki hafa um að þeir fái veiðiréttinn áfram. Þetta er í höndum Alþingis.
Alþingi þarf að klára sitt mál og ákveða hver afraksturinn til þjóðarinnar á að vera og í hvaða formi. Þegar það liggur fyrir þá er hægt að kjósa, ekki fyrr.
Kristinn Daníelsson, 23.10.2010 kl. 14:55
Það á að kjósa um afnám kvótakerfisins í áföngum. Afskriftarleiðina á ekki að afskrifa nema með kosningum. Þetta er sem sagt ekki flókið mál ef stórútgerðirnar hefðu ekki verið búnar að taka kvótana og leggja þá að veði inn í bankana. Það má búast við því að þegar útgerðir fara á hausinn þá missi bankarnir veðmæti og geta sjálfir farið á hausinn. (Veðmæti er ný-íslenska sem ég fann upp sjálfur). Það þarf að gera ráð fyrir að þær útgerðir sem missa kvótann vegna gjaldþrots missi hann en skipti ekki bara um kennitölu. Síðan yrði þeim kvóta ráðstafað með útboði á frjálsum markaði. Úff þarna fékk ég sagt það: Frjáls markaður, ég vil, samt ekki sjálfstæðismaður, hvað er orðið um öll prinsippin í pólitíkinni?
Gísli Ingvarsson, 23.10.2010 kl. 16:05
Gleymið því aldrei að máttur LÍÚ er mikill.
Sigurður I B Guðmundsson, 23.10.2010 kl. 23:49
Máttur LÍÚ er í öfugu hlutfalli við þann málstað sem þeir eru að verja. Kristinn spyr um hvað eigi að kjósa. Það er einfalt. Vill þjóðin áframhaldandi óbreytta fiskveiðistjórnun eða ekki? Sýnir veika málsvörn að ætla þjóðaratkvæðgreiðslu mannamun, landshlutamun eða skatt. Málið snýst um áralanga óánægju með einokun fyrirliggjandi kvótahafa á veiðiheimildum og skrumskælingu á þjóðareignaréttinum í meðförum þeirra. Bendi bara á þá staðreynd að þessi "þjóðareign" skuli vera veðtæk. Og auðvitað á enginn að hafa fyrirfram tryggingu á nýtingu þjóðareignar, hverskonar bull er það? Hingað til hefur alþingi þó ekki þorað öðru. Alþingi á svo heldur ekki að klára eitt né neitt, einungis fá á hreint hvað þjóðin vill og drullast svo í þá vinnu. Veðmæti er gott orð, Gísli, en blessaður hafðu ekki áhyggjur af sjálfstæðismennsku og frjálsum markaði, á Íslandi eru þetta algerlega óskyld fyrirbæri.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 24.10.2010 kl. 01:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.