30.10.2010 | 04:01
HANN LENGI LIFI!
Nú blasir við að fiskibærinn Flateyri við Önundarfjörð verði ekki lengur fiskibær. Skiptir engu þó fiskarnir sprikli í firðinum, þeim verður landað annarsstaðar og bærinn rúinn sinni sjálfsbjörg. Ekki sá fyrsti og vart sá síðasti. Framtíðin er óviss en margir veðja á sumarhúsabyggð. Þá koma göngin sér vel. Mikil forsjálni í þeirri framkvæmd og óhætt að segja að sú samgöngubót hafi verið byggðastólpi. Framsýni sveitastjórnarmanna aðdáunarverð og sýnir hve langt menn komast með seðlabúnt í afturendanum. Blessuð sértu sveitin mín og vonandi verður síðasta vígið ekki aflagt, sorpurðunin. Lengi lifi kvótinn, annars fer allt til andskotans.
LÁ
Athugasemdir
Halelúla.
En örlætið glatar frændsemd og fylgd.
Fagna skal hóglega kynni og vinum,
Svo stopult er margt í venslum og vild,
– vinnirðu einn, þá týnirðu hinum.
Hugsirðu djúpt, sé mund þín mild
og mælist þér best, verða aðrir hljóðir.
Öfund og bróðerni eru skyld;
– ótti er virðingar faðir og móðir.
En fullið er tæmt – heyrið feigðarsvan.
Fastar og nær koma vængjablökin.
Ástin er dauð. Sjáum man eftir man
að moldarsvæflunum hallast á bökin.
Synduga hönd – þú varst sigrandi sterk,
en sóaðir kröftum á smáu tökin; –
að skiljast við æfinnar æðsta verk
í annars hönd, það er dauðasökin.
Níels A. Ársælsson., 30.10.2010 kl. 11:17
Þarna fannstu Einari gamla Ben. verðugt hlutverk Nilli.
Hversu mörg atkvæði þorpsbúa hafa óskað eftir þessu ástandi?
Árni Gunnarsson, 30.10.2010 kl. 11:29
Athafnaskáldið smellpassar en hitt sorglegt að þorpsbúar kusu þetta yfir sig sjálfir.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 30.10.2010 kl. 14:36
Ríkisstjórnin fer einsog köttur kringum heitan graut, þar sem vandamál samfélagsins eru. Kjarklaus og huglaus! Hér ríkir stjórnarkreppa og þingið er í upplausnarástandi. Engin forysta er fyrir hendi, sem þing og þjóð gæti fellt sig við. Málin verður að leysa. Það getur ekki ríkisstjórnin og ekki þingið með núverandi stjórn! Valið stendur því milli neyðarstjórnar og kosninga. Síðari kosturinn er raunar ekki kostur í stöðunni miðað við ástand stjórnmálaflokkanna. http://utanthingsstjorn.is/
Auðun Gíslason, 30.10.2010 kl. 15:49
Heyrðu Auðunn. Án þess að ég sé eitthvað að verja þessa ríkisstjórn þá var það ekki hún sem kom kvótanum og frjálsa framsalinu á. Við höfum hér í þessu landi þrjú arfavitlaus kerfi, mannanna verk sem þó lítur út fyrir að guð hafi skapað og mælt svo fyrir að óbreytt skuli standa um eilífð. Kvótakerfið, verðtrygginguna og lífeyrissjóðasukkkerfið.
Þórir Kjartansson, 31.10.2010 kl. 00:05
Drengir... Hættum þrasi um hverjum sé að kenna og verum vökulir fyrir því fólki sem líklegast er til að breyta hlutunum.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 31.10.2010 kl. 02:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.