1.11.2010 | 05:01
JÁ VIÐ NEI VIÐ ESB.
Athyglisverður álitsgjafi kom fram í Silfri dagsins, Andri Geir, og kvað nei við ESB jafngilda flutningi ungu kynslóðarinnar til ESB. Ekki gengi að eftirláta þeim sukk núlíðandi kynslóðar til borgunar án vona um mannsæmandi lífskjör. Fram kom hjá Andra Geir mikil trú á myntskiptum eða tengingu íslenzku krónunnar við annan gjaldmiðil. Ekki er ég bjartsýnn á okkar hlut í þeim viðskiptum og mat viðsemjenda okkar á krónunni yrði varla mikið. Hinsvegar er ég honum sammála að ætli þjóðin sér að standa utan við ESB þarf hún að marka sér skýra stefnu. Lítum aðeins á Noreg, mjög stöndug þjóð og utan ESB. Af öllum evrópuþjóðunum líkist Ísland helst Noregi og einsýnt að samleið þessara þjóða sé líklegust, ekki sízt hvað landlegu og auðlindir varðar. Mun minni líkur eru á Búlgaríu, Spáni eða jafnvel Danmörku. Tel og barnaskap að halda ESB einhver góðgerðarsamtök, aðgangur að þeirri kornhlöðu verður hvorki ókeypis né án fórna. Tel því þá leið, að láta önnur evrópuríki taka ábyrgð á misgjörðum okkar eigi síður áhættusama en hina að eftirláta niðjum okkar sukkið. Best er að brjóta af okkur þá hlekki sérhagsmunagæslu sem tröllriðið hafa þjóðfélaginu í efnahagslegu og siðferðislegu tilliti, virkja þau tækifæri og auðlindir sem við höfum og sýna öðrum þjóðum að sérstaða Íslands felist ekki í spillingu né skuldasúpu heldur kraftbirtingu frelsis og dugnaðar.
LÁ
Athugasemdir
Bestu þakkir fyrir góðan pistil !
Kv.,KPG.
Kristján P. Gudmundsson, 1.11.2010 kl. 13:19
Og má ég þá spyrja, á hvaða herrans ári það muni gerast.
Spilling er búin að vera viðloðandi á Íslandi svo lengi ég man, og er ég komin af léttasta skeiðinu. Ísland getur ekki rekið sig eingöngu með innlendum aðilum, það er margsannað;)
Kalla Karls. (IP-tala skráð) 1.11.2010 kl. 16:29
Afhverju ætli unga fólkið flyi Írland sem er jú í ESB
Jón Aðalsteinn Jónsson, 1.11.2010 kl. 16:48
Sammála að utanaðkomandi aðstoð sé nauðsynleg en ekki endilega að það sé samspyrt ESB. Landflótti íra er hlutur sem vert er að minna á sé svo.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 1.11.2010 kl. 17:30
Ef allt fer til andskotans getum við bara flaggað norska fánanum og lýst því yfir einhliða að ísland sé ekki til lengur sem ríki, heldur hluti af Noregi.Við höfum gert það áður og höfum aldrei sagt okkur formlega frá Noregi sem við fylgdum inn í Danmörku.Í þjóðréttarlegum skilningi getum við þess vegna lagt Ísland niður og sagt að stofnun þess hafi verið misskilningur.Og þá höfum við norska krónu til að greiða læknum sem öðrum laun.
Sigurgeir Jónsson, 1.11.2010 kl. 22:50
Hér er talsvert um þverslaufur. Landflótti Íra er orðum aukin - flestir sem flytja frá Írlandi er vinnuafl frá öðrum löndum sem í kjölfar kreppu missti vinnuna og færir sig á aðra staði. Þetta er mjög sambærilegt þvís sem gerðist hér á landi. Það varð hins vegar algjör barnasprengja í Írlandi á síðustu 2 árum.
Það er eiginlega alveg makalaust hvað menn fullyrða til að gera hið ægilega Evrópusamband enn verra.
Grímur svefnlaus í Seattle (IP-tala skráð) 5.11.2010 kl. 01:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.