6.11.2010 | 00:03
SVANBERGIS RÍÐUR Á VAÐIÐ.
Mitt gamla þorp, Flateyri, var til umfjöllunar í Kastljósi kvöldsins. Kom þar fram einn stæðilegasti bústólpi eyrarinnar, Jón Svanberg. Sagði hann réttilega að sjávarþorp án aðgengis að fiskimiðum væri illa sett. Staðreynd sem blasir við öllum en þó kjósa sumir að ákalla fremur góða vætti en breytta stjórnarhætti. Ömurlegt er svo kvak fyrrum sjávarútvegsráðherra sem segir lognmollu í sjávarútvegi stafa af óvissu sem fyrningarleiðin hafi skapað. Rétt er að minna á að hnignun landsbyggðarinnar byrjaði löngu áður en fyrning kom til tals. Staða Flateyrar og reyndar þorpa allt í kringum landið er í tvísýnu vegna kvótaframsalsins sem kerfisbundið sviptir fólkið lífsbjörginni en örfáar fjölskyldur græða og fara. Ládeyða í fjárfestingum þessa geira stafar mestmegnis af fyrrum offjárfestingu og skuldasöfnun. Staða útgerðarmanna er í mörgu lík stöðu íbúðaeigenda, eignin minna virði en skuldin og því situr allt fast. Með öðrum orðum er kerfi það sem Einar Kristinn tók þátt í að skapa og viðhalda meginorsök sorgarsögunnar á Flateyri. Miðað við hve augljóst þetta er og alþekkt er þöggunin sorgleg. Megi fleiri feta í spor Svanbergis og kalla vandann sínu rétta nafni.
LÁ
Athugasemdir
Sammála hverju orði. Hrun landsbyggðarinnar er nátengt eignatilfærslum í kvótakerfinu. Mikið fjárstreymi er úr greininni og kennitöluflakk sem lætur málið líta þannig út að allir hafi keypt kvóta. Í fjárflæðinu fyrir hrun hækkaði verð á kvóta uppúr öllu valdi og þess vegna er eigið fé greinarinnar nær horfið. Eftir situr greinin með 500 milljarða skuldir og fjórðung fyrirtækja í algerlega vonlausum rekstri. Í mótsögn við opinbera stefnu Líu er greinin alþjóðleg. Samherji starfar á alþjóðavettvangi og mörg fleiri fyrirtæki. Fjölmörg fyrirtæki gera upp í evrum en ekki krónum. Líu vill halda kvótanum og miðunum fyrir sig en eiga sjálft greiðan aðgang að öllum öðrum miðum.
Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 6.11.2010 kl. 08:40
Vel mælt Lýður.
Níels A. Ársælsson., 6.11.2010 kl. 12:27
Þetta er laukrétt og ég segi alltaf að kvóta málin voru gerð fyrir stjórnmálamenn en þeim vantaði atkvæða agn. Nú er bara að byrja strax að veiða eins og má vegna sjálfsþurftar. Ef allir gerðu það þá væri ekki hægt að stoppa það. Látið menn innsigla bátanna og hvað þeir vilja en ekki láta þá stoppa sjálfbærar fiskiveiðar. Lesið Grein Björns Bjarna en þar segir hann að sameiniðuþjóðarlögin kveða á um þetta.
Valdimar Samúelsson, 6.11.2010 kl. 21:32
já Jón er ekki eins vitlaus og hann lýtur út fyrir að vera
sigurður j hafberg (IP-tala skráð) 7.11.2010 kl. 00:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.