8.11.2010 | 16:28
ÁLYKTANIR ÞJÓÐFUNDAR - FLOKKUR 1.
Næstu blogg mun ég helga þjóðfundinum, ályktunum hans og eigin sýn á því sem þar kom fram.
Ályktun þjóðfundar 2010.
FLOKKUR 1. LAND OG ÞJÓÐ
Gildi og gildistengd atriði sem lúta að sjálfstæði ríkisins, menningu og landshögum, svo sem framsýni, gildi íslenskrar tungu og landsbyggðar.
"Stjórnarskráin er sáttmáli sem tryggir fullveldi og sjálfstæði Íslendinga og er skrifuð fyrir fólkið í landinu. Stjórnarskráin á að standa vörð um íslenska tungu, menningu og auðlindir þjóðarinnar. Hún verði kynnt í skólum og almenningi tryggð áhrif á ákvarðanir í þjóðmálum. Efla skal ímynd Íslands, stuðla að fjölmenningu og aðskilnaði ríkis og trúfélaga"
Hér er tekið á ýmsu, eftirtektarverður punktur að kynna stjórnarskrána í skólum, held það sé mjög til bóta og geri þegnana meðvitaðri um þennan þjóðarsáttmála og hefji hann til vegs og virðingar. Einnig er síðastnefnda atriðið merkilegt en þar kemur fram sú meirihlutaskoðun þjóðfundarfulltrúa að ríkið hætti trúarrekstri. Þetta verður ugglaust umdeilt. Að mörgu leyti tel ég hyggilegt að nýta hin kristnu gildi í siðgæðisvakningu þeirri sem framundan er en vitanlega verður kirkjan að njóta trausts. Sé fyrir mér þjóðaratkvæði um aðskilnað ríkis og kirkju. Yrði aðskilnaður samþykktur tel ég kirkjuna eiga eftir að styrkja sig í sessi á nýjum forsendum.
Lýður Árnason, frambjóðandi til stjórnlagaþings.
Athugasemdir
----------------------------------Munið 3876----------------------------------------
Þorður Sævar Jonsson (IP-tala skráð) 9.11.2010 kl. 01:32
Sæll, hvað fannst þér um eftirfarandi niðurstöður þjóðfundar: a: að ráðherrar sitji ekki á þingi b: persónukjör verði innleitt (t.a.m. með því að hægt sé að velja fleiri en einn flokk en raða nöfnunum á kjörseðlinum) c: fækka þingmönnum (talan 34 hefur heyrst) ? Með kveðju, Björn.
Björn Leifur Þórisson, 9.11.2010 kl. 12:21
Sæll, Björn Leifur. Mun fjalla í næstu bloggum um ályktanir þjóðfundar, hverjar fyrir sig. En varðandi ofangreint er ég á fagráðningum ráðherra og þeir séu ekki alþingismenn. Persónukjör tel ég eitt veigamesta nýmæli nýrrar stjórnarskrár, útfærslan þarf að vera í þágu kjósenda, ekki flokka. Fækkun þingmanna er skynsamleg, kýs þó frekar oddatölu en slétta, t.d. 33.
Kveðja, LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 9.11.2010 kl. 17:10
Sæll og takk fyrir svarið. Telur þú raunhæft að leggja stjórnmálaflokka niður? Kveðja, Björn.
Björn Leifur Þórisson, 9.11.2010 kl. 21:25
Varðandi stjórnmálaflokkana sé ég ekki fyrir mér afnám þeirra. A.m.k. ekki í nánustu framtíð. Held þó að grundvallarbreyting á innviðum þeirra og vinnubrögðum sé þó ekki langt undan.
Kveðja, LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 9.11.2010 kl. 22:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.