ÁLYKTUN ÞJÓÐFUNDAR UM MANNRÉTTINDI.

Ályktun þjóðfundar 2010.  

 

FLOKKUR 3.  

 

MANNRÉTTINDI

Gildi sem liggja til grundvallar eða tengjast viðteknum mannréttindum, svo sem jafnrétti og jafnræði, tjáningarfrelsi, menntun, trúfrelsi og eignaréttur.


"Allir skulu njóta mannréttinda samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasáttmálum sem Ísland hefur lofað að virða, svo sem tjáningarfrelsis, friðhelgi einkalífs, trúfrelsis og eignarréttar. Tryggja skal jafnræði fyrir lögum óháð kyni, trú, þjóðerni, kynþætti, búsetu og kynhneigð. Allir skulu njóta jafns réttar til náms, heilbrigðisþjónustu og lágmarksframfærslu. Vægi atkvæða verði jafnt"
   

 

Allir ættu að geta verið sammála þessu nema hugsanlega síðastnefnda atriðinu og það einkum landsbyggðafólk.   Eðlilegt hlýtur þó að teljast að vægi atkvæða sé jafnt, einn maður, eitt atkvæði.   Þannig er jafnræðis þegnanna best gætt.   Hugumlíka að því að núverandi kjördæmaskipan ekki fært landsbyggðinni sinn sjálfsagða rétt til sjálfsbjargar.  Hann hefur drukknað í hreppapólitík, kjördæmapoti og samkrulli þingmanna og hagsmunahópa.   Því hníga mörg rök að því að gera landið að einu kjördæmi sem myndi beina sjónum og skyldum allra þingmanna til allra landshorna, ekki einungis eins.   

Stærsta hagsmunamál hinna dreifðu byggða er að geta notið nálægðar við landkosti sína.  Að  auðlindir nýtist svæðisbundið og myndi tekjustofna íbúunum til framdráttar.  Þessu er mjög ábótavant og undarlega lítill áhugi sveitastjórnarmanna að bæta úr þessu.  Vil ég að nokkru tengja það óbreyttri kjördæmaskipan og því samkrulli sem ég nefndi hér að ofan.  En svarið við þessu er heimastjórn.  Hver landsfjórðungur þyrfti að hafa sína eigin heimastjórn sem í krafti nándar hefði þá yfirsýn sem nú sárvantar.  Hræðsla við að landið verði gert að einu kjördæmi er að minni hyggju ástæðulaus.  Fyrir landsbyggðina felur hún í sér ný tækifæri og gæti innleitt nýja hugsun inn í stjórnsýsluna.   Ekki sízt með persónukjöri þar sem alræði flokkanna yrði rofið.  Þéttbýli og dreifbýli eiga ekki að vera andstæður heldur samstæður, efnahagslega eru fyrirbærin háð hvort öðru og hvorugt geta án hins verið.  Andstæðingar þess að gera landið að einu kjördæmi ættu að íhuga núverandi stöðu landsbyggðarinnar.  Hún er ekki glæsileg.  Landsbyggðin á að rísa á landkostum sínum, auðlindum til sjávar og sveita og fólkinu sem þar býr en ekki bitlingum frá Reykjavík eða Brussel né heldur ójöfnu atkvæðavægi.  Með sjálfsbjörginni er möguleiki á framtíð.    

 

 

Lýður Árnason, frambjóðandi til stjórnlagaþings.  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband