20.11.2010 | 02:21
HVERS VEGNA NÝJA STJÓRNARSKRÁ?
Hef heyrt suma tala um að þrátt fyrir hrunið græddum við svo mikið á mektarárunum á undan að ósanngjarnt sé að tala eingöngu um tap. Einkavæðingin hafi þrátt fyrir allt blásið lífi í staðnað samfélag og leyst úr læðingi áður óþekktan kraft. Margt er til í þessu og nýr kraftur verður líka sóttur til einkaframtaksins. En áður þarf að skapa þann leikramma sem sárlega skorti undir fyrri ríkisstjórnum. Í því ferli er ný stjórnarskrá heillaskref. Kannski fyrsta skref endurreisnar þjóðar sem fór offari. Og það offors birtist fyrst og fremst í bágu siðferði sem fór síminnkandi uns botninum var náð. Við hættum ekki fyrr. Með glýju í augum misstu stjórnmálamenn sjónar á hlutverki sínu og þjóðin á hlutverki þeirra. Núna, tveimur árum eftir skellinn, er flestum ljóst samhengi hlutanna. Og við viljum breyta til. En til þess þarf að moka út hinni gömlu hugsun en það er enginn hægðarleikur. Stjórnarskráin inniber engan rétt þegnunum til handa í aðstæðum sem þessum. Við þurfum að bíða unz hinum gamla hugsunarhætti þóknast sjálfum að ganga út. Sem verður eftir dúk og disk og jafnvel aldrei því græðlingar dauðasyndanna eru duglegir að skjóta rótum. Því er fólki þessa lands brýn nauðsyn á nýrri stjórnarskrá, stjórnarskrá sem gefur þjóðinni möguleika til breytinga þegar almannahagur kallar. Og sé slíkt ástand ekki núna, hvenær þá?
LÁ
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.