2.12.2010 | 05:26
GEFUM STJÓRNLAGAÞINGI SJÉNS.
Þó löngu sé búið að ákveða að hafa stjórnlagaþing bölsótast margir út í fyrirbærið, segja það ekki hafa hlotið nægilegan styrk, sé einlitt og jafnvel prívatþing Þorvaldar Gylfasonar. Engu að síður finnur öll þjóðin fyrir sultarólinni sem góð stjórnarskrá hefði hugsanlega getað komið í veg fyrir. Held fólk ætti fremur að beina reiði sinni til stjórnmálamanna sem enn þjaka þjóð sína með yfirveðsettu kvótakerfi, lúxusbyggingum og ofvaxinni stjórnsýslu. Kjörsókn stjórnlagaþings telja hrunverjar traustyfirlýsingu í sinn garð. Sjálfur tel ég það fjarri sanni og mun starfa á stjórnlagaþingi samkvæmt því. Minni svo á að þó Þorvaldur sé einkar vel lesinn og víðsýnn maður ætla ég stjórnlagaþingi önnur vinnubrögð en að vera afgreiðslustofnun Þorvalds enda tæpast hans vilji. Það mun koma í ljós sem og afrakstur þingsins. Verum þolinmóð fram að því og gefum þessari lýðræðisumbót tækifæri. Hvers vegna í ósköpunum ættum við ekki að gera það?
LÁ
Athugasemdir
Athygli vekur sú fullyrðing að stjórnarskrá lýðveldisins Íslands sé um að kenna að bankastofnanir í Vesturálfu fóru á hliðina! Þar má segja að landinn sé samur við sig, 320 þúsund manna þjóð sem allir mæna til og sem öllu ræður :-)
Þessi fullyrðing kemur líka "beint á ská" framan á þá fullyrðingu Þorvaldar Gylfasonar, að þjóðin með þessa mögnuðu stjórnarskrá, sem getur lagt Bear Stearns og Lehmann Brothers, et. al. á hliðina, sé þess ekki umkomin að stjórna sjálfri sér.
Nú er bara að styðja staðhæfinguna rökum, þó ekki sé nema að vitna í þá statútu grunnlaganna frá 1944 með áorðnum breytingum og gerir mönnum kleift að meðhöndla innstæður í bönkum sem ráðstöfunarfé helstu hluthafa bankanna.
Annars er þetta það sem þið eigið að fást við, samkvæmt 3. gr. laga nr. 90/2010:
3. gr. Viðfangsefni.
Stjórnlagaþing skal sérstaklega taka til umfjöllunar eftirfarandi þætti:
1. Undirstöður íslenskrar stjórnskipunar og helstu grunnhugtök hennar.
2. Skipan löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og valdmörk þeirra.
3. Hlutverk og stöðu forseta lýðveldisins.
4. Sjálfstæði dómstóla og eftirlit þeirra með öðrum handhöfum ríkisvalds.
5. Ákvæði um kosningar og kjördæmaskipan.
6. Lýðræðislega þátttöku almennings, m.a. um tímasetningu og fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu, þar á meðal um frumvarp til stjórnarskipunarlaga.
7. Framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana og meðferð utanríkismála.
8. Umhverfismál, þar á meðal um eignarhald og nýtingu náttúruauðlinda.
Athyglisverður þessi sjöundi töluliður greinarinnar.
Flosi Kristjánsson, 2.12.2010 kl. 10:37
Sæll, FLOSI.
Hef tekið eftir þessum 7. tölulið og minn áhugi á þátttöku í stjórnlagaþingi m.a. annars af þessu sprottinn. Mín afstaða er þessi: Mun standa vörð um áframhaldandi fullveldi Íslands á öllum sviðum þjóðlífsins og verði annað uppi á teningnum verði það í samræmi við þjóðarvilja.
Kveðja og þakka ábendinguna,
Lýður Árnason.
lydurarnason (IP-tala skráð) 2.12.2010 kl. 12:53
Ég er viss, að þú kemur vel undirbúinn til Stjórnarskráþings. --- Mundu bara að mæta tímanlega hjá Gunnsteini !!!
Þorður Sævar Jonsson (IP-tala skráð) 2.12.2010 kl. 15:35
---- Afsakið ----- Stjórnlagaþings.
Þorður Sævar Jónsson (IP-tala skráð) 2.12.2010 kl. 15:44
Sæll Lýður og til hamingju með kosninguna. Ég kaus þig auðvitað
og treysti því að þú standir uppi í hárinu á krötunum sem vilja útþynna fullveldið. Mér verður bara hálf óglatt að sjá þessa 7. gr.
Vona að þú kynnist Freyju 2303 og takir undir hennar baráttumál sem eru m.a. jafnrétti fyrir alla og löggilding Sáttmála sameinuðu þjóðanna hvað varðar réttindi fatlaðra. Hún er afar heillandi kona.
Auðlindirnar okkar þarf að halda í. Kveðja Kolla
Kolbrún Stefánsdóttir, 2.12.2010 kl. 18:56
Þakka þér Kolbrún, mun ábyggilega kynnast Freyju og þegar farinn að hlakka til.
Kveðja, Lýður.
lydurarnason (IP-tala skráð) 2.12.2010 kl. 19:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.