20.12.2010 | 00:58
BÆKUR OG KONFEKT.
Hætti mér í jólaösina síðdegis og skarkalann. Erindið að kaupa konfekt og skáldsögu strandamanns. Á bókahlaðborðinu blöstu við hin furðulegustu bókmenntaverk, lífsleikni og ævisögur stráklinga, matreiðslubækur smástelpna, þvottabækur fyrrum ráðamanna og himinháir staflar glæpasagna. Átti í basli með að finna strandamannasöguna en fann loks eina sem lá eins og aldingarður innan um glæpaturnana. Með lagni buslaðist ég að bókinni og tók grettistaki. Eins og skæni lá hún í lófa mér og fjallaði um ástina. Ég skáskaut augunum að bókahlaðborðinu og öllum þeim þúsundum blaðsíðna sem fjalla um morð. Fór út með það í hausnum að lestur morða sé snöggtum skárri en þau sjálf. Heimkominn uppgötvaði ég að konfektið hafði gleymst.
LÁ
Athugasemdir
Gerir ekkert til til. Hver þarf konfekt? Takk fyrir færsluna.
Björn Birgisson, 20.12.2010 kl. 01:10
Sem betur fer er engin svona afstrakt kona manns var ort forðum þegar Picasso var upp á sitt besta. Hér eru framin svo mörg bókmenntamorð um hver jól að það er með ólíkindum. Sem betur fer varða þau ekki tugthúsvist.
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 20.12.2010 kl. 09:37
Athyglisver!! --- hHvar er bókmenntaþjóðin á vegi stödd ??
Þorður Sævar Jonsson (IP-tala skráð) 20.12.2010 kl. 11:39
Slæmar bækur eru til þess að gera þær góðu ennþá betri.
Björn Hjálmarsson (IP-tala skráð) 20.12.2010 kl. 15:32
Ekkert endilega viss um að bókaborðið sé slæmt, hef meiri áhyggjur af sjálfum mér og minni eftirspurn sem snýr æ þrengri stakk með árunum.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 20.12.2010 kl. 21:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.