30.12.2010 | 05:46
SÉRFRÆÐINGUR SÍLDARVINNSLUNNAR.
Ragnar Árnason, hagfræðiprófessor fór þó nokkuð mikinn í kvöldfréttum sjónvarps og sagði eignarétt aflaheimilda forsendu fjárfestingar og framtíðarmarkmiða í sjávarútvegi. Þegar hámenntaðir menn bera á borð þvílíka þvælu rekur mann í rogastans. Sér maðurinn ekki að handhafar kvóta hafa kerfisbundið dregið arðinn út úr greininni og viðað að sér fjármagni með veðsetningu aflaheimilda og fært umráðaréttinn í hendur banka og lánastofnanna og það jafnvel í útlöndum? Umsýsla með aflaheimildir hefur umliðin ár verið eins og um eign sé að ræða og afleiðingin ljós, bæði fyrir atvinnugreinina og þjóðarbúið. Nýtingarréttur til afmarkaðs tíma höfðar miklu meira til almannaheilla en eignarhaldið sem nú ríkir. Og sú fullyrðing prófessorsins að önnur aðkoma að veiðum en í gegnum kvótakerfið sé ávísun á pólitískt príl og sérhagsmuni er í staðreyndaljósi dauð og ómerk. En séu menn svona sannfærðir um ágæti eignaréttarins á íslenzkum fiskimiðum ættu þeir að flytja mál sitt frammi fyrir alþjóð og leyfa henni síðan að kjósa um þetta langvinna deilumál.
LÁ
Athugasemdir
Mikill er máttur LÍÚ.
Sigurður I B Guðmundsson, 30.12.2010 kl. 07:46
Sammála þér, frændi. Fyrir langa löngu sat ég í nefnd um skamma hríð með þessum ágæta prófessor. Þá sagði hann um sjónarmið mín:„Þú ert miklu meiri kommúnisti en ég". Þá var hann fulltrúi Alþýðubandalags, en ég Alþýðuflokks.
Eiður Guðnason (IP-tala skráð) 30.12.2010 kl. 08:58
Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, segir kvótakerfið að sínu mati vera forsendu mikillar hagkvæmni í íslenskum sjávarútvegi. "
Í viðtali í Fréttablaðinu 13.12.2008 lét hann hafa eftirfarandi eftir sér í tilefni af áliti Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.
"Ef við afnemum kvótakerfið munum við tapa tugum milljarða á hverju ári en einnig yrðu margföldunaráhrif í gegnum allt hagkerfið."
Tilvitnun.
"Ragnar segir að sérfræðingar fjármálafyrirtækja telji að ein forsendan fyrir vexti fjármálakerfisins og útrás íslenskra fyrirtækja sé auðurinn sem felst í kvótanum".
"Ef sá auður verður skertur verður samsvarandi samdráttur í fjármálageiranum og hagkerfinu öllu.
"Þeir sem vilja afnema kerfið eða kollsteypa því hljóta að vera í efnahagslegum sjálfsmorðshugleiðingum."
Tilvitnun lýkur.
Ég fæ ekki betur séð á málflutningi Ragnars Árnasonar eins og hann birtist okkur í gær að teknu tilliti til þeirra staðreynda hvernig bankakerfið hrundi algjörlega, að prófessorinn hljóti að vera geðveikur.
Níels A. Ársælsson., 30.12.2010 kl. 09:05
AFSAKIÐ !
LEIÐRÉTTING.
Dagsetningi á viðtalinu í Fréttablaðinu við Ragnar Árnason er röng hér að ofan.
Viðtalið birtist 13. janúar 2008.
Dagsetningin skiptir öllu máli.
Níels A. Ársælsson., 30.12.2010 kl. 09:08
Þetta er komið lengra frá raunveruleikanum en svo að hægt sé að flokka það undir isma af nokkru tagi.
Raunalegast er svo það að við erum svo fá sem vitum, munum og skiljum raunveruleikann á bak við svona akademiskan kjaftagang.
Árni Gunnarsson, 30.12.2010 kl. 09:09
Ragnar Árnason, prófessor er höfundur kvótakerfisins og þar af leiðandi að mínum dómi aðal gerandi í þeim skelfilegu mannréttindarbrotum sem íslenzka ríkið og LÍÚ hafa ástundað á saklausu fólki í aldarfjórðung.
Níels A. Ársælsson., 30.12.2010 kl. 09:12
Eftir því sem á lífsgönguna líður minnkar traust akademíunnar en náttúrunnar eykst. LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 30.12.2010 kl. 12:38
Ætli þessi ágæti maður Ragnar Árnason geti frætt okkur hvað mörg % af veiddum fisk fer óunninn úr landi?
Sigurður I B Guðmundsson, 30.12.2010 kl. 12:56
Árið 1938 veiddu 420 bátar 38.000 tonnum af síld og lönduðu á Siglufirði nú fer einn bátur létt með þessi tonn.Þetta kallast hagræðing ef fólk er á móti slíku á það að segja það en nokkuð ljóst að þjóðin öll tapar á því að láta allan þennan mannskap á 420 bátum vinna við það sem ein áhöfn fer létt með í stað þess að gera eitthvað annað. Áður unnu mjög margir við að leggja vegaslóða með haka og skóflu sem einn kall á jarðýtu gerir á 10 mín. í dag og hinir vinna við eitthvað sem eykur þjóðartekjur það er sama þróun eða hver á að vinna allt annað sem nútímaþjóðfélag krefst þegar allir eru komnir í bátana,eða á skoflu,haka svo ekki sé nú mynnst á orf og ljá ásamt hrífu. Og enn og aftur það fæst meira fyrir nýjan mat (óunninn) en gamlan (fullunnin) með tilheirandi vinnslukosnaði.
Guðmundur Ingi Kristinsson (IP-tala skráð) 30.12.2010 kl. 15:55
Vandi útgerðar er ekki framþróun samfélagsins heldur umgengi kvótahafa, veðsetning, brask og einokunartilburðir. Greininni er haldið í heljargreipum hagsmunaaðila sem engu vilja hnika og telja alla slíka viðleitni ögrun. Er þó sammála Guðmundi Inga að markaðurinn eigi að stjorna hráefnisvinnslunni þó vitanlega sé best að stefna að sem mestri fullvinnslu innanlands. Ríkisstjórnij gæti stuðlað að slíku með bættu skattaumhverfi.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 30.12.2010 kl. 17:17
Í hverju er þessi þvæla fólgin Lýður?
Að það skuli ekki enn vera saltað á plani? Að í dag sé verið að vinna á sólarhring í Neskaupstað sama magn af síld og unnið var á öllu Austurlandi á sólarhring fyrir 10 - 15 árum síðan?
Myndir þú vilja handskrifa allt sem þú hefur skrifað á vefinn í 30 þúsund eintökum, sleikja hvert einasta frímerki og senda á hvert heimili með póstinnum í stað þess að pikka á lyklaborðið?
Hvernig haldið þið að samfélagið væri ef enginn hefði frámþróunin verið í sjávarútvegi?
Sindri Karl Sigurðsson, 30.12.2010 kl. 19:48
Þvæla hagfræðiprófessorsins er fólgin í því að tengja framfarir í sjávarútvegi kvótakerfinu. Sömuleiðis því að spá stöðnun sé horfið frá þessu fyrirkomulagi. Á flestum sviðum þjóðlífsins hafa orðið framfarir og það án kvótakerfis. Mörg áhugaverð störf hafa skapast og vel launuð. Nefni hugbúnaðargeirann og orkumál. Atgervisflótti er hinsvegar áberandi í sjávarútvegi og þeim fækkandi sem sækjast í menntun sem þangað beinist. Ástæðan er ófjölskylduvænt starfsumhverfi og lág laun. Ennfremur hamlar kvótaframsalið mjög fjárfestingum í landi enda illt að byggja eitthvað upp í kringum starfsemi sem hvenær sem er getur horfið. Tel að kvótakerfið hafi hamlað mjög atvinnuuppbyggingu og framförum landvinnslunnar og eigi töluverðan þátt í hversu lítið er framleitt af fullunninni vöru, allt miðast við útgerðina. Það er rétt sem þú segir, Sindri Karl, að samfélagið eigi mikið undir framþróun sjávarútvegs og því er brýnt að breyta núverandi fyrirkomulagi fiskveiða sem fyrst.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 30.12.2010 kl. 23:43
Hafa útgerðarmenn tekið meiri arð út úr sinni grein en gengur og gerist? Hvað tóku þeir sem áttu að erfa jörðina að mati forsetans, bankamennirnir mikið út úr þessu? Hvað stendur mikið eftir af því í dag? Ekki neitt.
Hvað hefur gerst í samgöngumálum? Flugleiðir eru gjaldþrota, Samskip gjaldþrota en fengu niðurfellt og gátu farið af stað aftur, sama með samskip og sama með norrænu. Allt samgöngu kerfið hefur farið á hausinn eins og það hefur lagt sig, með örfáum undantekingum.
hvað með smásöluna? Bónus, Hagkaup, Húsasmiðjan..... Stærsti hluti smásölunnar á hausnum eða farinn á hausinn.
Hvað þá með framleiðslufyrirtækin? Ölgerðin í ríkiseigu, Vífilfell/Coke skuldar 14 milljarða, Sláturfélagið í gríðarlegum vandræðum, og svona mætti endalaust telja í þeim geiranum.
Bílaumboðin fóru eiginlega öll með tölu á hausinn.
Hvernig er svo staðan í sjávarútveginum? Hún er líklega erfið, en hvað hafa mörg af þeim stærstu farið á hausinn? Líklega ekki eitt einasta. Grandi stendur ágætlega, Samherji stendur líka ágætlega, Þorbjörn í Grindavík er í skafli, en að moka sig úr honum, Síldarvinnslan stendur þokkalega, Ísfélagið í Vestmannaeyjum stendur vel.
Af öllum þeim greinum sem menn færu í gegnum, þá stendur sjávarútvegurinn líklega einna best. Þar hafa engu að síður verið gerð slæm mistök á þessum tímum þegar allir ætluðu að græða á hlutabréfum og braski, en eiginfjárstaða margra þessara fyrirtækja var líka gríðarlega sterk, og mikið af veiðiheimildum, fiskiskipum og öðrum eignum til að veðsetja, sem gerir það að verkum að bankar bjóða upp á mun betri vaxtakjör en hjá þeim sem voru að taka lán út ekki neitt. Þar að auki eru útgerðarfyrirtækin að mala inn peninga, ólíkt mörgum þessum skúffufyrirtækjum sem fengu milljarða og tugi milljarða að láni, en engar tekjur að koma inn.
Takmarkaður nýtingarréttur myndi eingöngu leiða til offjárfestingar og lélegrar nýtingar á þeim tækjum og tólum sem þarf til að veiða fiskinn í sjónum, vinna hann og markaðssetja til að fá sem hæst verð. Það væri kannski ágætt fyrir þennan náunga sem allt veit og situr á stjórnlagaþingi að kynna sér málin aðeins betur áður en hann ræðst fram á ritvöllinn. Nýtt öflugt fiskiskip kostar í dag allt upp í 6000 milljónir. menn fara varla að fjárfesta í slíku nema hafa tryggingu fyrir því að geta nýtt fjárfestinguna næstu áratugina? Þessi skip borga sig upp á mislöngum tíma. Mörg skipin sem eru í þjónustu útgerðanna í landinu eru komin til ára sinna og hafa þjónað þeim vel, allt upp í rúm 50 ár. Það þyrfti að yngja skipakostinn upp. Leiðin til þess er ekki einhver hringlandavitleysa.
Ríkisstjórninni er í sjálfs vald sett hvort hún skattleggi þessa atvinnugrein frekar, hún gerir það líklega og ekkert við því að segja, það er pólitísk ákvörðun, hins vegar eru svona breytingar eins og stjórnlagaþingmaðurinn leggur til hérna ekki á nokkurn hátt fallnar til þess að auka tekjur þjóðarbúsins (les: Þjóðarinnar, ekki ríkisins). Ríkið og þjóðin er nefninlega ekki það sama. Það sem hentar ríkinu, það hentar þjóðinni ekki endilega.
Auðvitað klæjar samfylkingar fólki í að komast með puttana í kvótaúthlutanir, og geta þá mulið undir sig og sína. Það er hins vegar engin trygging fyrir því að það sé hagkvæmt fyrir þjóðina þó samfylking fari að deila bitlingum til þeirra sem eru þeim þóknanlegir.
joi (IP-tala skráð) 30.12.2010 kl. 23:48
Nú eru frjálsar veiðar á úhafsrækju. Ert þú eða einhver annar til í að kaupa með mér rækjutogara og veiðarfæri sem kosta ca. 2.500.000.000. Redda vönum mönnum og kaupendum. Í dag eru menn með þekkingu að veiða og selja fisk og hafa ekki fengið eina einustu gengisfellingu eftir kvótakerfið. Eitt er að öfunda annað að getið komið í staninn og gert betur. Það voru bankar sem leifðu veðsettningu kvóta ekki útgerðarmenn. Guði sé lof að einhverjir græða annars væri ekki til peningur til að borga afætum t.d. prestum.
Guðmundur Ingi Kristinsson (IP-tala skráð) 31.12.2010 kl. 00:11
Sammála þér, Jói, um einkavæðinguna sem reyndist aðeins á plúsinn en ekki mínusinn. En bankastarfsemi, bílasölur og smásala er ekki takmörkuð auðlind og enginn þarf að borga sérstakan inngangseyri inn á þann markað. Varðandi offjárfestingu get ég nú ekki séð annað en að hún sé einmitt vandamál útgerðarinnar í dag (nema þeirra sem fengu veiðréttinn gefins). Útgerð, þessi gullgæs Íslands, skuldar 500 milljarða, 5000 milljónir og allir hljóta að viðurkenna endurskoðun kvótakerfisins í því ljósi. Þú talar um náunga á stjórnlagaþingi sem allt veit, átt þar væntanlega við undirritaðan, en á ritvöllinn geysist ég hvað sem hver segir og það undir fullu nafni. 6000 milljóna fjárfesting hlýtur að kalla á tryggingu segir þú og nefnir sjálfur nýtingarétt til ákveðins tíma og þar erum við sammála, eðlilegt að tengja saman nýtingu og fjárfestingu. Hvað skattlagningu varðar fær þjóðin tæplega miklar skatttekjur út úr jafn skuldugri atvinnugrein og sjávarútvegurinn er orðinn og megn auðlindagjaldsins útheimta stórútgerðirnar sjálfar í formi kvótaleigu. Þú nefnir og aðskilnað ríkis og þjóðar, hann verður aldrei í líkingu við þann ójöfnuð sem kvótaframsalið hefur valdið. Tal um samfylkingu læt ég óátalið, fyrirbærið mér enda óskylt. Furða mig hinsvegar á útlistun hinna þóknanlegu, ástand þeirra mála getur vart farið nema uppávið.
Guðmundur Ingi hvetur mig til að hefja rækjuútgerð. Reyndar aldrei að vita hvað maður gerir í þeim efnum. Get þó ekki séð hvers vegna það ætti að vera verra að byrja með fjárfestingu eingöngu í skipi, veiðarfærum og mannskap? Varla auðveldar það róðurinn að þurfa að fjárfesta í kvóta í ofanálag. Og einmitt, eins og Guðmundur Ingi nefnir, veðsetningar voru samkrull banka og útgerðarmanna þó standi í veðréttarlögum að slíkt sé bannað. Frábið mér svo að geta ekki haft skoðun á málum án þess að spyrt sé við öfund og gróðaandúð. Síðustu fullyrðingunni um afát presta læt ég ósvarað en vona einhver þeirra sé þegar farinn að íhuga líkræðu kvótakerfisins.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 31.12.2010 kl. 02:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.