12.1.2011 | 09:41
MEINDÝRAEYÐIR Á STJÓRNSÝSLUNA.
Bensínlítrinn nálgast nú 220 krónurnar. Verðsamráð olíufélaganna sem átti að vera upprætt logar enn glatt og álögur ríkisins orðnar að óviðráðanlegum sinubruna. Vegtollar eru svo í ofanálag íhugaðir. Með þessu áframhaldi fara hestvagnar brátt að sjást á götum. Annar sinubruni er svo sameiningar allskonar í sparnaðarskyni. Elliheimilum er lokað, læknasetur aflögð og nú eru leikskólar borgarinnar undir. Flest þessi fyrirbæri létta okkur þó lífið, fyrstu skrefin eða þau síðustu, ímyndum okkur t.d. leikskólalaust þjóðfélag? Stjórnsýslan kallar allar þessar umbyltingar hagræðingu án skerðingar á þjónustu. Minnist aldrei á atgervisflótta né atvinnumissi. Þessi stöðuga innanáta minnir á atgang trjálúsa og misgáfaðar hugmyndir vaða uppi. Minni á bollaleggingar borgarsviða og áherzlu umhverfisráðherra á framandi tré. En fái burðarvirki samfélagsins ekki frið fyrir þessu borðhaldi mun illa fara. Segja má þetta brýnt verkefni fyrir meindýraeyði með stjórnsýslu sem sérgrein.
LÁ
Athugasemdir
Það er spurning hvernig stjórnsýslan bregst við svona pistlum eins og þessum og mjög góðum reiðilestri Benedikts Erlingssonar í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun? Ætli hún hugsi sinn gang, eða snúi upp á sig? Vonandi hugsar hún sinn gang.
Billi bilaði, 12.1.2011 kl. 11:04
Billi bilaði,,, hvaða gang heldur þú hún hugsi: Frekjugang, aulagang, yfirgang eða lélegan frágang, bara spyr. :)
Kalla Lóa Karlsdóttir (IP-tala skráð) 12.1.2011 kl. 22:07
Má maður þakka fyrir prýðilegan stíl til að byrja með en koma síðan með örlitla athugasemd?
ímyndum okkur t.d. leikskólalaust þjóðfélag? segirðu og ég get vel ímyndað mér það. Ég ólst upp í sjávarþorpi fyrir daga leikskóla og samt lékum við okkur allan liðlangan daginn. Ég flutti ungur suður og þar var hvorki skortur á leikfélögum né leikvöllum og á vetrum var komið upp svokölluðum sleðagötum þar sem bílaumferð var bönnuð. Núna binda menn hins vegar bílinn sinn við sig á hverjum morgni og æða síðan svefndrukknir út á nætursaltaðar göturnar með blik í auga og bros á vör.Ég held að við værum betur sett með leikskólalaust þjóðfélag en það sem við búum við um þessar mundir.
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 12.1.2011 kl. 23:31
Takk fyrir ágætar athugasemdir. Og, Benedikt, hjartanlega sammála skrifi þínu en minni á muninn á því sem er og við æskjum.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 12.1.2011 kl. 23:41
Kannski stondum vid a timamotum i soguni. spurning hvort gomlu flokkarnir seu ekki hreynlega ad vera komnir ad thvi ad aeviskeid theirra se ad renna ut. Vid erum ordin svo von thvi ad alskonar sukk/spilling vina og flokksbond ganga fyrir hagsmunum almennings. Vid verdum tho ad muna ord Winstons Chur. Almenningur faer yfirleitt that rikisvald sem thad a skilid. Sidustu arin hef eg adhillst meira og meira eftir thvi sem eg les meira og fylgjist betur med tha stefnu eda politisku stefna sem kallad er Libertarianism thad er ad auka frelsi einstaklingsins og takmarka frelsi rikisvaldsins. Ad mestu vegna thess edli rikisvaldsins ad thar muni alltaf thrifast spilling i hlutfalli vid umsvif rikisvaldsins.
Gudmundur Runar Asmundsson (IP-tala skráð) 13.1.2011 kl. 00:25
Vald þrífst á eigin viðhaldi og finnst jafnt undir ríkisvængjum sem öðrum. Tel bestu leiðina til að lágmarka spillingu þá að hamla langri setu sömu valdhafa.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 13.1.2011 kl. 03:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.