13.1.2011 | 04:13
ORÐUVEITINGAR.
Kringum áramót hópast útvaldir íslendingar á Bessastaði og þiggja af forsetanum öðlun. Hengd eru barmmerki á fólkið og kallast riddarakross eða fálkaorða. Einatt eru þessar orðuveitingar fyrir störf eða dáðir í þágu samfélagsins og ekki man ég neinn sem fúlsað hefur við slíkri upphefð. Lengi hefur bloggara þótt þessi áramótaathöfn barn síns tíma en gleðji þetta einhverja mér að meinalausu. Minni þó á að nokkrir fremstu hrunverjanna skarta barmmerkjum forsetans fyrir snilld sína sem hlýtur að draga þó nokkuð úr slagkrafti þessara verðlauna. En úrkula sálum sem horfa löngunaraugum til Bessastaða er ekki í kot vísað á netinu, þar ku hægt að kaupa orður og axlapúða í tonnavís og næsta víst að íslenzk forfrömunartákn séu þar á meðal. Hæll.
LÁ
Athugasemdir
Sagt um Fálkaorðuveitinguna...
"Hér áður fyrr hengdu þeir þjófa á krossa..
en nú hengja þeir krossa á þjófa".
Níels A. Ársælsson., 13.1.2011 kl. 07:42
Níels er að vísa til þess sem Magnús Kjartansson þáverandi ritstjóri Þjóðviljans sagði þegar Vilhjálmur Þór var sæmdur stórriddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu. Ég er alveg sammála þér Lýður en þú veist e.t.v. ekki að þeir sem fá orðu eru nánast undantekningarlaust búnir að falast eftir því að fá hana. Þ.e. sækja um hana þó ekki sjálfir heldur einhverjir velunnarar. Þeir sem ekki sækja fá í fæstum tilfellum fálkaorðuna nema þeir séu landsliðsmenn í handbolta. Það dugar hins vegar ekki að vera kvennkyns og keppa í fimleikum. Flott kerfi ekki satt.
Jón Magnússon, 13.1.2011 kl. 17:13
Er nokk sammála Níelsi og vissi reyndar af meðmælendunum, Jón. En eins og ef væri ég söngvari syngi ég ljóð þá ef væri ég forseti orðulaus þjóð.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 14.1.2011 kl. 00:44
orðuveitandinn er oftast að spegla sjálfan sig í orðunni þegar hann hengir hana á bókasafnsfræðinginn og dást að fegurð sinni og snilld
Rúnar (IP-tala skráð) 14.1.2011 kl. 14:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.