SANNLEIKURINN UM SENDIRÁÐIN.

Mörg, mörg umliðin ár hefur almenningur efast um gagnsemi sendiráða.  Bikarsvartur almúginn sér lítinn tilgang í ofáti og kófdrykkju diplómata sem hvort sem er engu ráða.   Rjómalag samfélagsins hefur haft aðra sýn á þetta kostnaðarsama fyrirbæri og talið það sjálfsagðan hlut í framgangi þjóða meðal þjóða.  Umdeildur wikileaksvefur hefur nú sáldrað nýjum gagnaskammti á heimsbyggðina sem ýtir undir  sjónarmið almúgans að afrakstur sendiráða sé ofmetinn.   Enn ein vísbendingin háskólasamfélaginu til háðungar, samfélagi sem gjarnt er að hefja sig til skýjanna án innistæðu.  Fræðimennska ætti vitanlega að vera af hinu góða en birgi hún sýn eðlislægrar náttúrugreindar er útkoman einatt sú að búnar eru til glæsihallir utan um ekki neitt og kallað fræðigrein.  M.ö.o:  Afhverju eru stjórnspekingar fyrst nú að grípa löngu ljósan sannleik um sendiráð og kurteisisheimsóknir diplómatískra skrautfugla?  Sturla flutningabílstjóri Jónsson hefði getað sagt ykkur þetta fyrir lifandis löngu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Góður.

Jóhannes Ragnarsson, 14.1.2011 kl. 12:23

2 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Ég er alveg handviss um það að sendiráð eru til dæmis miklu þarflegri en innflutningur á dönskum rúllutertum sem renna aldrei út. Við verðum einnig að gera okkur grein fyrir því að skolprör eru þeirrar náttúru að allir lofsyngja þau þangað til þau fara að leka. Með bílstjórum með meirapróf hef ég fulla samúð svo framarlega sem þeir halda sig á veginum.

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 14.1.2011 kl. 21:50

3 Smámynd: Hjalti Tómasson

Utanríkisþjónustan er fyrirbæri sem þarf að taka til sérstakrar endurskoðunar. Fara þarf fram kostnaðar og hagkvæmnigreining að sið nútíma stjórnsýslu. Sé hægt að koma svona könnunum við til dæmis í mennta og heilbrigðiskerfinu hlýtur að mega framkvæma samskonar könnun á utanríkisþjónustunni.

Hjalti Tómasson, 14.1.2011 kl. 22:45

4 identicon

Tel reyndar danskar rúllutertur meinminni en sendiráðin og samhliða ósammála að sendibílstjórinn sé endilega bestur á veginum þó þar sé hann góður.  Vel má finna eitthvað verra en sendiráðin, bendi sem dæmi á ráðningarkerfi sendiherranna en það breytir þó engu um þarfleysu þeirra, þ.e. sendiráðanna.

lydurarnason (IP-tala skráð) 15.1.2011 kl. 04:07

5 identicon

Ég hef búið erlendis undanfarin rúm þrjú ár og kynnst starfi míns sendiráðs (London) nokkuð vel. Mig langar mig að spyrja hver þessi sannleikur er, því mér er hann ekki ljós útfrá skrifum þínum. Ég vil taka fram að ég er allur með sem bestri nýtingu fjármagns, sérstaklega almennings. Sömuleiðis finnst mér að reglulega þurfi að hreinsa til í stórum kerfum, hvort sem þau eru ríkisbákn eða hvað annað - þó ekki sé nema fyrir sakir skilvirkni. Ég tek undir með Hjalta með greiningu á starfsemi ríkisins og finnst ennfremur að svona greining mætti eiga sér stað á öllum geirum þess með reglubundnu millibili.

Undanfarið hef ég orðið mjög var við mótbárur í garð utanríkisþjónustunnar frá Íslendingum búsettum á Íslandi, sem e.t.v. hefur ekki mikið þurft að nýta sér þjónustu þeirra. Eðlilega vill almenningur að skorið sé niður þar sem þess má við, frekar en í almannaþjónustu. Ég er því sammála, en það má þó ekki líta fram hjá nytsemi og nauðsyn hvers þáttar fyrir sig. Ég hef lengi setið á mér með að svara mörgum athugasemdum og greinum um þetta málefni, en þar sem þú vekur máls á þessu og þar sem ég studdi þig til stjórnlagaþings langar mig að spyrja: Hvaða þjónusta sendiráðana þykir þér óþörf og hvaða þjónusta, ef einhver, er þörf? Hvernig þykir þér þau standa sig og hvar mega þau bæta sig?

Friðþjófur Þorsteinsson (IP-tala skráð) 15.1.2011 kl. 13:30

6 identicon

Sæll, Friðþjófur og þakka kjarngóða athugasemd.  Í raun er það ekki þjónusta sendiráðanna sem er vandinn heldur yfirbyggingin.  Ég skil ekki hvers vegna þarf að kaupa rándýra sendiráðsbústaði eða leigja með ærnum tilkostnaði, ennfremur skil ég ekki mannmergðina sem til þarf í þessa þjónustu, ei heldur þann flottræfilshátt sem er stundaður, ég skil ekki nauðsyn allra þessara gestamóttaka og alls ekki ráðningarkerfi sendiherranna en þessar stöður virðast ennþá einskonar eftirlaunahreiður uppgjafapólitíkusa, jafnvel stundargaman til lífeyrisréttinda.  Hinsvegar tel ég grunnþjónustuna eigi að meta út frá áliti þeirra sem hennar njóta, ekki sendiráðsstarfsfólks.  Myndi vilja sjá sendiráðum tjaldað niður í sendiráðsskrifstofur, afnema sendiherrana og hafa í þeirra stað venjulegt starfsfólk í dagvinnu ásamt neyðarþjónustu.   Til frekari glöggvunar má geta þess að áætlaður kosnaður utanríkisþjónustunnar á næsta ári er 11 milljarðar og þar af 2,7 vegna sendiráða erlendis og fastanefnda.   Miðað við þann mikla niðurskurð velferðar hér heima fyrir finnst mér þessi ráðstöfun peninga glórulaus.

Kveðja, LÁ

lydurarnason (IP-tala skráð) 15.1.2011 kl. 17:42

7 identicon

Takk fyrir svarið Lýður, en mig langar aðeins að grafa áfram. Ég vona að þú nennir því með mér - en mig langar að koma mótsjónarmiðum á framfæri. Oft þykir mér eins og almenningu mikli í hugum sér peningasóun sendiráðanna eins og þau geri ekki annað.

Það er klárt mál að yfirbyggingin er stór og mikil þegar rétt um fjórðungur þeirra fjármuna sem utanríkisþjónustan fær úthlutað fer til sendiráðanna. Eins og ég sagði getur vel verið að frekar beri að skera niður heimavið heldur en úti, þó auðvitað þurfi alltaf að endurmeta aðstæður. Allt er breytingum háð o.s.frv. Ég ætla að reyna að svara þínum punktum í þeirri röð sem þú setur þá fram. Svörin eru út frá eigin reynslu og ég býst við að hún eigi ekki við allsstaðar.

Nýverið var skipt um sendiráðsbústað hér í London af hagræðingarástæðum. Nýji bústaðurinn kann að virka dýr, en kostar einungis um helming þess fjár sem fæst með sölu þess gamla. Hann hefur verið lengi í eigu íslenska ríkisins og e.t.v. þótti hagkvæmt að kaupa hann á sínum tíma. Mér þykir nær að spyrja hvort það hefði verið nær að bíða með að selja gamla bústaðinn á meðan fasteignamarkaðir rétta úr kútnum og fá þannig hagstæðari sölu. Það er spurning um hvort losa eigi fjármagn strax eða horfa til framtíðar. Þar kemur inn talnaspeki og excel útreikningur sem ég kann ekki skil á.

Fasteignaverð er auðvitað mismunandi eftir heimshlutum og hér í stærstu borg Evrópu er fasteiganverð hreint út sagt fáránlegt. London er í raun mjög dýr borg, eins og gefur að skilja. Bústaðurinn verður auðvitað að geta hýst gestamóttökur því það væri sennilega peningasóun að leigja sali í hvert sinn sem slíkt þarf að halda - og kæmi sjálfsagt ankannalega út gagnvart gestunum. Ég ætla nánar að útskýra mikilvægi gestamótakanna seinna í þessu svari.

Ég þekki ekki mannmergðina á bak við öll sendiráðin eða flottræfilsháttinn. Viltu útskýra hverju þér finnst hann felast í? Ég veit að í Japan var byggt spánýtt hús (ef ekki höll) á besta stað í Tokyo fyrir háar fjárhæðir, ef ég man rétt. Það var þó á þeim tima sem Íslendingar kunnu ekki fótum sínum forráð í peningamálum - og kunna jafnvel ekki enn? Hér í London fær sendiráðið inni í ónýttum hluta danska sendiráðsins sem er leigt fyrir upphæðir sem eflaust má finna í opinberum gögnum. Húsakosturinn, þá aðallega fundarsalurinn, er gjarnan lánaður kostnaðarlaust fyrir íslenska menningarviðburði eða fundarhöld á vegum opinberra samtaka eða einkafyrirtækja. Þannig greiðir sendiráðið fyrir (bannorðinu) útrás framtakssams viðskipta- og listafólks sem e.t.v. væri annars óburðugt til að koma fram. Það er óneitanlega flottur pappír að bjóða á fund eða viðburð í sendiráði og ég veit að sendiráðið er boðið og búið til að aðstoða þá sem við það hafa samband, hvort sem er með tengiliðum, við skipulagningu, til að veita góð ráð eða hvernig sem hentar.

Hvað ráðningar pólitískra sendirherra varðar er ég þér alveg sammála. Hvað söng ekki Ríó Tríó fyrir mörgum mörgum árum: „Er þingmennirnir okkar tak'að þreytast / fer þá að dreym'um rólegt sendiráð“. Eins er mér fyrirmunað að skilja sendiherra sem eru staðsettir á Íslandi og skipaðir án sendiráða. Það er eins og að skipa ráðherra án ráðuneytis, upp á laun og eins og þú segir lífeyrisréttindi. Hinsvegar þurfa þeir jú reglulega að skipta um starfsstöð og geta einstaka sinnum þurft að koma heima. Þar á baki skilst mér að liggi stjónarmið um að fólki gerist ekki kleyft að mynda óeðlileg sambönd á hverjum stað sjálfum sér til hagsbóta.

Starf sendiráðanna, að mér virðist, skiptist aðallega í tvennt. Það er borgaraleg þjónusta þeirra, er snýr að íslenskum ríkisborgurum erlendis, annað hvort búsettir eða að ferðast. Hin hliðin er diplómatíkin. 

Svo ég tæpi aðeins á þjónustunni snýr hún t.d. að útgáfu vegabréfa fyrir íslenska ríkisborgara t.d. þegar kemur að endurnýjun, nú eða þegar ferðamenn eru rændir eða tapa sínum. Ég var sjálfur svo óheppinn að tapa veskinu mínu daginn sem ég flutti til London árið 2007 en pabbi minn brá á það ráð að millifæra á mig pening í gegnum sendiráðið svo ég gæti nú keypt mér matarbita. Takk fyrir mig. Eins aðstoða þau Íslendinga í neyð, sbr. íslensku stúlkurnar tvær sem sátu hér í fangelsi í fyrra og eins alla þá sjúklinga sem þurfa að sækja sér læknishjálp erlendis því hún er ekki til staðar á Íslandi. Ef ástandið er það slæmt að leita þarf aðstoðar erlendis má ætla að fólki veitti ekki af aðstoð, svo það er vel. Eins tek ég til dæmið um mannin sem lést erlendis, var það ekki í desember? Í Austurríki eða Eystrasaltslöndunum, ég man það ekki. Já og unga fólkið sem lést í bílslysi en börnin lifðu af. Tragískt - en þarna leika sendiráðin algjört lykilhlutverk. Þau aðstoðuð við að koma líki mannsins heim ef ég man rétt - og sáu um börnin á meðan ömmur og afar komu til að sækja þau.

Þessa þjónustu væri svosem hægt að veita frá sendiskrifstofu, svona eins og þú leggur til að sendiráðin verði sköluð niður í. Þú leggur einnig til að sendiherrarnir verði aflagðir - en þá kemur n.b. að allt allt öðrum heimi. Við skulum horfast í augu við smæð Íslands og viðurkenna að það er ekki á okkar færi að setja neinar leikreglur í heimi stjórnarerindreka. Stór ríki hafa komið á þeim kerfum sem sendiráðin eru sem boðleið milli yfirvalda. Tökum IceSave deiluna sem dæmi. Á meðan stjórnmála- og embættisfólk á Íslandi þurfti að sitja saman og ráða sínum ráðum hefði á sama tíma þurft að sýna yfirvöldum í Bretlandi og Hollandi athygli. Ritari á sendiskrifstofu hefði ekki fengið að bókað fund með forsætisráðherra Breta, svo einfalt er það. Þetta er e.t.v. líka spurning um sjálfstæði þjóðar, því það er einkum gagnvart utanaðkomandi aðilum sem þarf að sýna þetta sjálfstæði. Ef Ísland á að vera samkeppnishæft í samfélagi þjóða þá er hrein og bein nauðsyn á nærveru þess erlendis og ég segi aftur: Í þeim leik setjum við engar leikreglur. Sendiherra Íslendinga hér í Bretlandi hafði sömuleiðis frumvkæði að umræðum við Skota um makrílveiðar, að mér skilst og svona mætti lengi telja.

Dæmin sem ég nefni hér að ofan eru nokkuð dramatísk, en sem betur fer voru sendiráð til staðar til að grípa inn í. Svonalagað gerist og það verður að vera net til staðar til að bregðast við þeim aðstæðum sem upp geta komið.

Og þá kem ég að mikilvægi þess að eiga góð samskipti við hina og þessa, sérstaklega fyrir smáríki eins og Íslands. Við þurfum á vinum að halda og við þurfum að halda þeim góðum. Hvernig ræktar maður vinasambönd öðruvísi en með því að hitta þá öðru hvoru og einstaka sinnum bjóða þeim heim? Það kvikna hugmyndir og ný sambönd myndast. Ég hef sjálfur fengið að sækja svona veislu sem formaður Félags Íslendinga í London og það er merkilegt að fylgjast með þeim. Þangað mætir fólk úr viðskipta og stjórnmálaheiminum sem talar okkar máli út á við, t.d. í lávarðadeild breska þingsins. Þess vegna þarf að vera kostur á því að taka á móti fólki í sendiherrabústaðnum. Það er, sem ég segi, örugglega hagkvæmara bæði fjárhagslega og með tilliti til áhrifa, en að leigja sal einhversstaðar í miðborginni við hæfi. Við skulum ekki halda því fram að þetta sé ekki mikilvægt, því annars myndi þetta hvorki viðgangast í opinbera geiranum né þeim einkarekna. Hinsvegar ber auðvitað að gæta hófs og ég get ekki verið sammála þér með ofát og kófdrykkju. Án þess að vera þess fullviss þori ég nánast að fullyrða að svona móttökur eru haldnar sjaldnar en einu sinni í mánuði - og jafnvel sjaldnar en einu sinni á ársfjórðungi.

Opinber umræða um starf sendiráðanna er nánast undantekningalaus neikvæð og ómálefnaleg. Ég hef orðið var við þau sjónarmið fólks að á tækniöld megi sko alveg vera í sambandi við fólk í gegnum skype en ég þarf nú varla að taka fram afhvejru það gengur ekki. Það er sérstaklega vegna smæðar lands og þjóðar sem við verðum að sýna öðrum stórum ríkjum virðingu (þó ekki undirlægjuhátt) og það gerum við ekki með því að lítilsvirða þær leikreglur sem fyrir eru. 

Menn mega sömuleiðis ekki halda að eyðslan sé gjörsamlega gengdarlaus. Þannig má t.d. benda á net ræðismanna sem allir starfa fyrir land og þjóð í sjálfboðastarfi. Eins sinna flest sendiráðin fleiri löndum en bara því sem það er staðsett í. Þannig má t.d. sjá á heimasíðu sendiráðsins í London (www.iceland.org/uk) að það þjónar í raun Írlandi, Jórdaníu, Möltu, Nígeríu, Portúgal, Qatar og sameinuðu arabísku Furstadæmunum.

Ég vil í lokin undirstrika að ég er allur fylgjandi hagræðingu. En það liggur í orðanna hljóðan að hagræðing snýst um að auka hag hlutaðeigandi. Niðurskurður er annað þó hann hafi stundum hagaukandi áhrif. Stundum getur þurf að verja (n.b. ekki eyða) meiri fjármunum (eða tíma) til að auka hag (spend a little, earn a lot). Í hagræðingu má ekki búa svo um hnútana að áhrif eða landsins minnki né álit annara þjóða. Sókn getur verið besta vörnin.

Þú hefur í nú tvisvar (í pistli annars vegar og ummælum hins vegar) gagnrýnt sendiráð/utanríkisþjónustuna fyrir „gagnsemi, ofát, kófdrykkju, glæsihallir, flottræfilshátt“ og fleiri illmælanleg hugtök án þess að tiltaka eitt einasta dæmi. Sem fulltrúi almennings við endurskoðun þess grundvallar sem lýðveldið byggir á og öðrum opinberum þjónum til fordæmis vil ég biðja þig af öllu hjarta mínu að vera hlutdrægur í hugsunum, orðum og gjörðum. Það er gott og vel að fulltrúar okkar hafi skoðun - en að mínum dómi verður hún að vera vel upplýst og í samhengi við þann veruleika sem að þeim snýr. Ég hvert til umræðu (og helst aðgerða) um rekstur ríkisstofnanna og það væri gaman að sjá hvað ríkisendurskoðun hefur að segja um rekstur utanríkisþjónustunnar.

Ég hlakka til frekari orðaskipta!

Bestu kveðjur,
Fiffi

Friðþjófur Þorsteinsson (IP-tala skráð) 16.1.2011 kl. 15:01

8 identicon

Sæll, Friðþjófur.  Skal nú fram haldið okkar uppbyggjandi umræðu. 

Í utanríkisþjónustunni starfa rúmlega 250 manns, þar af ríflega helmingur hér heima.  Miðað við Norðurlöndin er það næstum helmingi fleiri á hvern íbúa.  Hlutfall heimastarfandi er hærra, eða um þrisvar sinnum fleiri á hvern íbúa.  Eflaust má taka þar til hendi. 
2010 fóru ríflega 2% ríkisútgjalda til utanríkismála sem er minna en hinna Norðurlandanna.   Munurinn skýrist það mestu af framlögum til þróunarmála sem eru mun lægri hér en annarsstaðar.    Hlutfallsframlög til reksturs utanríkisþjónustunnar og sendiskrifstofa eru hinsvegar langhæst á Íslandi. 

Sýnist að gegnumsneitt séu um sjö fastráðningar tengdar hverju sendiráði.  Er það auk sendiherra, sendiráðunautar, ritarar og bílstjóri.  Varðandi borgaralega þjónustu sendiráða er ég þér sammála um gansemina, hef sjálfur þurft á slíku að halda og þótti ómetanlegt.  Á hinn bóginn hef ég meiri efasemdir um dioplómasíuna. Reyndi að finna á vef utanríkisráðuneytisins sundurliðun á útgjöldum, m.a. risnu og veizluhöld en fann ekki. Mín persónulega skoðun er samt sú að í lagi sé að sendiráð aðstoði fólk í umleitan sinni, hver sem hún er, en eigi ekki að standa sjálf fyrir veizlum, ráðstefnum og viðburðum nema í undantekningartiilvikum.    

Get tekið undir sjónarmið þín varðandi viðhorf og titlatog, hlutir sem við ráðum illa við.    Heimur stjórnarerindreka er efalaust mjög niðurnjörvaður.  Tel engu að síður hægt að tjalda þessum þætti verulega niður.  Máli mínu til stuðnings bendi ég á kostnað utanríkisþjónustunnar, myndir af sendiráðum (erfitt að finna) sem sum líkjast stofnunum fremur en bústöðum.  Hef svo spurnir að sums staðar eigi sendiherrann sér svo eigin híbýli að auki. 

Erfitt er að sanna flottræfilshátt ofát og kófdrykkju en læt eina sögu af slíku þó fylgja.  Vandinn við svona gagnrýni er að einatt er huglæg og hver getur haft sína skoðun.  Og þeir sem njóta veiganna gera yfirleitt lítið úr.  

Nýleg frásögn tekin af netinu.
Fyrir nokkrum árum var mér, ásamt öðru ungu fólki, boðið í veislu í sendiráðsbústaðnum í Brussel.  Boðið var upp á flottan mat og vín. Einnota handklæði voru á klósettinu og auðvitað voru þjónar út um allt.  Svo var þessi flotta sundlaug í garðinum. Mér leið illa í þessum aðstæðum. Bæði vegna þess að mér blöskraði íburðurinn en líka vegna þess að ég passaði ekki vitund inn í þetta umhverfi. Var með sítt hár, í leðurjakka og átti engin jakkaföt (sem var mjög illa séð af skipuleggjanda ferðarinnar).

Hvað veizlur og samkomur áhrærir tel ég framlegð þeirra ofmetna enn ítreka enn að það byggist á huglægu mati.  Einörð afstaða breta í icesavemálinu ber ekki með sér mikla velvild í okkar garð og raunat tel ég ekkert duga annað í slíkum milliríkjadeilum en mæting sjálfra ráðherranna.  Þeir sem halda fram mikilvægi samkrulls stjórnarerindreka og háttsettra embættismanna eru oftast þeir sjálfir en skilagreinarnar almenningi fremur ósýnilegar. 

Sammála um að Skype-samskipti standa hinum persónulega langt að baki og alls kostar ófullnægjandi.   Einnig dreg ég engan veginn úr nauðsyn þess að vera sýnileg í samfélagi þjóðanna.  Hvika þó ekki frá því áliti mínu að flottræfilsháttur og bruðl sé hluti af okkar utanríkisþjónustu og það vil ég kútta af.   Viðurkenni fúslega að fyrirbærin séu illmælanleg en tel þau einmitt fyrirgangast í skjóli þess.

Ég gaumgæfi kostnaðartölur, horfi á sendiráðin, upplifi veizlur og hlusta á fólk.  Hræri svo lífsreynslunni saman við og út vellur einhver skoðun.   Þessi umræða hefur rekið mig til nánari skoðunar á utanríkisþjónustunni og kannski hef ég þokast ögn áfram veginn.  Fyrirgefðu langlokuna en af miklu er að taka, hef haft gaman af og bíð að sjálfsögðu svars.

 Kveðja, LÁ 

lydurarnason (IP-tala skráð) 16.1.2011 kl. 19:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband