15.1.2011 | 18:09
STJÓRNA HAGSMUNAAÐILAR LANDINU?
Öflugur fundur var haldinn í dag á Hótel Grand þar sem fylgismenn ríkisstjórnarinnar og aðrir áminntu hana um kosningaloforð varðandi fiskveiðistjórnun. Á bráðum tveggja ára valdaferli hefur yfirlýstri firningarleið ekki verið ýtt úr vör og svonefnd sáttanefnd skilað af sér tillögu sem samrýmist lítt breyttu eða óbreyttu fiskveiðistjórnunarkerfi. Hagsmunaaðilar sjávarútvegsins og forsvarsmaður samtaka atvinnulífsins haldast sem fyrr í hendur og leggja stein í götu ríkisstjórnarinnar. Og þá um leið í götu þjóðarvilja því varla er umdeilanlegt að ríkisstjórnin er réttmætlega kjörin. Fólkið í landinu kaus ekki LÍÚ til landstjórnar né Vilhjálm Egilsson, hvað þá þessa sáttanefnd. Fólkið kaus kosningaloforð ríkisstjórnarflokkanna og ekki seinna vænna en núna að fara að koma þeim í verk.
LÁ
Athugasemdir
Ég er væntanlega ekki einn um það að skilja ekki hvers vegna verið var að gefa fólki þorskinn eins og hann leggur sig forðum daga. Það má hins vegar mín vegna veiða alla fiskana í sjónum og selja þá útlendingum. Ég get hæglega lifað á agúrkum og vatni.
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 15.1.2011 kl. 19:34
Ég held það sé löngu orðið ljóst hverjir stjórna þessu landi og hafa gert um áratugaskeið. Þeir aðilar eru hvorki kosnir af okkur tveim né öðrum landsmönnum.
Áratugum saman höfum við orðið vitni að því að hagsmunaaðilar panta lagasetningar og stjórnvaldsaðgerðir þegar hentar. Þeir hagsmunir þurfa ekki að fara saman við hagsmuni heildarinnar eins og dæmin sanna. Þegar þetta fer saman við stólablæti stjórnmálamanna þá er ekki nema von að staðan sé eins og hún er.
Okkur er lífsnauðsyn á nýrri hugsun bæði í stjórnmálum og ekki síður þurfum við almennir kjósendur að fara að taka til í og endurreisa sjálfsvirðingu okkar. Þetta getur tæpast gengið mikið lengur.
Hjalti Tómasson, 15.1.2011 kl. 21:44
Sem ein feitasta þjóð í heimi væri gustuk að sem flestir íslendingar tækju upp þann sið að næraast meira og jafnvel eingöngu á agúrkum og vatni. Bæta síðan við einni vítamínsdós. Vona, eins og HT segir, að sjæálfsvirðing kjósenda aukist í næstu kosningum, hvenær sem þær verða.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 15.1.2011 kl. 22:32
Mitt vaxtarlag er þannig að ég þarf að hlaupa í hringi í sturtunni til að blotna þannig að ég get ekki tekið undir þessa ósk fyrir sjálfan mig.
Hitt er annað mál að ég þekki nokkra í mínu nánasta umhverfi sem ekki hefðu verra af einni og einni gúrkumáltíð og meira vatni í viskíið.
Varðandi sjálfsvirðingu þjóðarinnar væri kannski góð byrjun að knýja fram svör við nokkrum lykilspurningum.
Til dæmis væri ekki verra að fá stjórnmálamenn til að útskýra sína túlkun á siðferði. Einnig væri gaman að fá að vita hvernig heill stjórnmálaflokkur getur gengið af trúnni á einni nóttu.
Það er ekki að furða að fólki gangi illa að að átta sig á stöðunni hverju sinni, okkur er sagt eitt í dag og svo sjáum við eitthvað allt annað framkvæmt ( eða ekki framkvæmt ) á morgun.
Hjalti Tómasson, 15.1.2011 kl. 23:06
Hagsmunaaðildar passa vel upp á "sitt fólk" og flokka. Þess vegna er ástandi eins og það er. Vonandi er landinn að átta sig á þessu. Þessu þarf og verður að breyta.
Sigurður I B Guðmundsson, 16.1.2011 kl. 00:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.