16.1.2011 | 02:12
FRJÁLSAR STRANDVEIÐAR.
Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra telur strandveiðar hafa sannað gildi sitt. Held marga honum sammála og ég sjálfur í þeim hópi. En hvers vegna ætti ekki að ganga skrefið til fulls og gefa strandveiðar frjálsar? Slíkt myndi hafa í för með sér aukna verðmætasköpun fyrir þjóðina, auka atvinnu og blása lífi í sjávarbyggðirnar. Leiguoki smábátasjómanna yrði aflétt og hægt að búa til nýjan tekjustofn með sanngjörnu auðlindagjaldi sem tekið yrði jafnóðum af hverju lönduðu fiskkílói. Engin hætta er á ofveiði með krókadrætti og landlegur augljóslega tíðari en á stærri bátum sem þola meiri veður. Hvers vegna er þetta ekki gert? Er það vegna þess að kvótahafar þola ekki aðgengi að fiskimiðunum nema á þeirra forsendum? Sjá þeir á bak leigutekjum? Eru þeir kannski hræddir um að hagkvæmni smábátaútgerðar komi í ljós? Arfabúntið sem stórútgerðarmenn flagga að þjóðinni samanstendur af skuldsetningu, afskriftum og arðráni. Bankinn fær vextina, þeir arðinn og þjóðin ekki neitt. Hefðum við átt að hafna fæðingarorlofi á sínum tíma af tillitsemi við ömmurnar? Eða vera öll ennþá takandi á filmu vegna þeirra sem ættu slík tæki? Þó kvótakerfinu og sérlega þó kvótaframsalinu verði umbylt mun sjávarauðlindin ekki synda á brott heldur vera áfram til hagsældar og stuðla að framförum í greininni. Vandamál sjávarútvegs á íslandi er úrelt lénskerfi sem hamlar allri nýliðun og þar með nýsköpun. Telji núverandi handhafar veiðiheimilda þetta fjarstæðu ætti þeim að vera í lófa lagið að taka slaginn við strandveiðina og sýna þjóðinni allri snilld sína og framtak.
LÁ
Athugasemdir
Þetta er mikill kjarni málsins. Ofstjórnin hefur gengið allt of langt.
Í raun þurfti svo víðtæk takmörkun á atvinnufrelsi sem komið hefur verið á í krókaveiðum - að fara gegn um "stjórnarskrársíu"....
álitaefnið er - má takmarka krókaveiðar með þeim hætti sem gert hefur verið.
Ég tel svo ekki vera.
Grundvallaratriði - forsenda til takmörkunar á mannréttindum stjórnarskrár - er að almannaheill - liggi til grundvallar takmörkun á mannréttindum þar með töldum atvinnufrelsi til krókaveiða - (með almennum takmörkunum)
Nýtt sjónarmið á að koma úr gagnstæðri átt.... má takmarka krókaveiðar - eins og gert hefur verið - hver er "áhættan" af því að leyfa frjálsar krókaveiðar - innan almennra skynsamlegra takmarkana sem gilda þá fyrir alla.
Líklegasta svarið við spurningunni "hver er áhættan af frjálsum krókaveiðum er.
ENGIN áhætta.
Á stjórnlagaþingi - vona ég að þú takir þetta mál upp - á þessum forsendum. Ég get rökstutt ´þetta álitaefni - þegar í vilt - sendu mér bara línu krp@simnet.is
Takk fyrir þessa færslu KP
Kristinn Pétursson, 16.1.2011 kl. 04:09
Ég hef alltaf verið hlynntur frjálsum krókaveiðum með ákveðnum fjölda króka svo sem 40/60 bjóð miðað við að það sé heimalandandi bátar og miðað við að hann fari í vinnslu á landinu.
Ég tel að það ætti að afturkalla allan kvóta og leigja hann til kvótakónganna á sama verði og þeir leigðu öðrum. Það er sanngirni.
Valdimar Samúelsson, 16.1.2011 kl. 10:42
Þetta er heila málið. Ekki flókið en virðist erfitt í framkvæmd. LÍÚ hvað!!!!
Sigurður I B Guðmundsson, 16.1.2011 kl. 11:45
Þetta er allt rétt og satt.
En því miður þá læðist að mér sá grunur að Steingrímur J. Sigfússon búrtík Samherja hf, hafi engan áhuga á neinni viðbót inn í strandveiðarnar.
Þeir ætla sér að halda áfram að niðurlægja okkur og leyfa okkur að róa 2-3 daga í mánuði eins og verið hefur síðustu 2 sumur.
Þannig klára þeir að eyðileggja okkur endanlega, það var líka markmiðið og aldrei neitt annað stóð til.
Fjórflokkurinn er staðreynd.
Níels A. Ársælsson., 16.1.2011 kl. 11:55
Það verður engu breytt fyrr en við róum tugum saman um land allt og gefum skít í kerfið.
Það kallast víst uppreins og er mjög gott orð yfir það sem þarf að gera.
Kerfið mun ekki falla fyrr en stjórnmálaflokkarnir falla í núverandi mynd.
Níels A. Ársælsson., 16.1.2011 kl. 11:58
Heyr heyr !
Flott grein, sönn og þörf.
Haraldur Baldursson, 16.1.2011 kl. 18:59
Þakka traustið, Kristinn Pétursson, eflaust munum við rugla saman reitum fyrr en síðar. Auðlindaákvæði er eitt minna baráttumála í gerð nýrrar stjórnarskrár, hvort ákvæði um frjálsar strandveiðar rúmist þar inn í kemur í ljós. Annars er þögn fylgismanna kvótakerfisins orðin áberandi og má leiða að því líkum að málstaður þeirra sé ekki bara gjaldþrota heldur líka rökþrota.
Kveðja, LA
lydurarnason (IP-tala skráð) 16.1.2011 kl. 19:45
Satt og rétt Lýður Árnason, svo má benda á rök Kristins Péturssonar varðandi kröfur stjórnarskránnar fyrir takmörkun á atvinnufrelsi. Gaman er að sjá að umræðan skuli loksins vera farin að snúast um aðalatriði, kjarna málsins, en ekki aukaatriði líkt og LÍÚ reyna að stýra umræðunni í átt að.
Þórður Már Jónsson, 17.1.2011 kl. 23:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.