23.1.2011 | 04:06
STAÐGÖNGUMÆÐRUN.
Þorstinn í barn býður oft upp á langa og stranga eyðimerkurgöngu þeirra sem einhverra hluta vegna er fyrirmunað að kveikja lífsneista. Frjósemislyf, glasafrjóvgun, sæðisgjöf og ættleiðing eru þekkt hjálparmeðul en staðgöngumæðrun meira á kantinum. En bara það að fyrirbærið skuli vera til er lýsandi fyrir hversu langt fólk er tilbúið að ganga. Nicole Kidman, leikkona, sló tvær flugur í einu höggi, eignaðist barn án röskunar á eigin líkama, og notaði til þess staðgöngumóður. Kröfur núsins eru orðnar óseðjandi, við kunnum ekki að stoppa og teljum allt sjálfsagt nema að eldast. Í raun er tilverunni snúið á hvolf, það sjálfsagða orðið ósjálfsagt og öfugt. Engu að síður er staðgöngumæðrun kostur í stöðunni og illt fyrir fólk að þurfa að leita út fyrir landsteinanna. Sjálfur tel ég staðgöngumæðrun afarkost og betra að fara ættleiðingarleiðina. Ég get þó ekki ætlast til sömu viðhorfa af öðrum. Blindgatan er kunnugleg í umræðu fóstureyðinga, þar stangast á eigið valfrelsi og annarra. Fokk.
LÁ
Athugasemdir
Margt álít ég gott og harla skynsamlegt í hugleiðingum þínum, Lýður.
Já, lesendur, takið eftir Nicole Kidman. Þetta fyrirbæri, staðgöngumæðrun, verður einmitt ekki sízt notað af forríkum forréttindakonum, ef lokið verður tekið af Pandóruboxinu.
Um staðgöngumæðrun bendi ég sérstaklega á grein eftir Guðmund Pálsson heilsugæzlulækni: Staðgöngumæðrun: ný tegund frjálsræðis hjá áttavilltri þjóð eða mannréttindi?
Jón Valur Jensson, 23.1.2011 kl. 05:26
Lýður, blindgata er orðið! Er staðgöngumæðrun, hvort sem hún er keypt eða gefin, skárri eða verri en nauðung kvenna sem verða barnshafandi "óvart" og skikkaðar til að ganga með barnið og ættleiða í stað þess að eyða fóstrinu? Vill yfirhöfuð nokkur svara þeirri spurningu?
Jón Valur, forríkar forréttindakonur munu alltaf njóta sinna forréttinda, hvað svo sem við hin tautum.
Kolbrún Hilmars, 23.1.2011 kl. 14:26
Léleg rök hjá þér, Kolbrún.
Jón Valur Jensson, 23.1.2011 kl. 14:30
Það má vel vera, Jón Valur, að rökin séu léleg, en er vandamálið ekki einmitt þetta; að ein siðferðisspurningin rekst á við hina?
Kolbrún Hilmars, 23.1.2011 kl. 14:48
Þakka þér svarið, Kolbrún. Þótt ég hafi næstu tvo tímana engan tíma í rökræðuna við þið, vil ég þó skella þessi hér inn, sem mikilvægri ábendingu til þín og annarra:
Hvert værum við fljótlega komin, ef það yrði ofan á, sem stefnt hefur í á Bretlandi, að fátækar, gjarnan ungar konur láta misnota sig til þessa fyrirbæris, að gerast staðgöngumæður, í viðleitni sinni til að fá þó tímabundið einhvern tekjuauka? Fólk ætti að kynna þér það, sem Sólveig Dagmar Þórisdóttir í ReykjavíkurAkademíunni var nú í vikunni að benda á í sínu Moggabloggi, þ.e. hrikalega birtingarmynd staðgöngumæðrunar í Bretlandi. Hér er upphaf bloggs Sólveigar um málið:
Vek ennfremur athygli á því, að í grein minni í dag: Vilja banna fjárveitingar til fósturvíga, kem ég í lokin inn á líkleg tengsl fóstur(d)eyðinga og sumra tilfella staðgöngumæðrunar.
Jón Valur Jensson, 23.1.2011 kl. 14:57
Staðgöngumæðrun er eins og flest annað: Gæti tekist vel til en einnig illa. Erfitt að banna fólki eitthvað sem það vill sjálft og á ég þá við alla málsaðila. Hinni siðferðilegu spurningu svarar hver fyrir sig en skilgreining hinnar hefðbundnu kjarnafjölskyldu verður æ losaralegri og verði staðgöngumæðrun leyfð heldur sú þróun áfram. Kostnaðarhliðin er svo annað mál. Varðandi rétt fólks, hvar á að setja mörkin? Getur fólk ákveðið að skipta um kyn og það viðurkennt sem réttur hvers og eins sem ríkinu ber að borga? Geta fatlaðir krafist aðgengis hvar sem er eða sólarhrings tilsjónar? Flokkast staðgöngumæðrun þá sömuleiðis til mannréttinda? Ef við gætum veitt blindum sýn yrði það þá ekki réttur þeirra allra? Satt að segja eru réttindamál samfélagsins æ flóknari eftir því sem meira er hægt að gera og tími kominn á skynsemisúrvinnslu.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 23.1.2011 kl. 17:04
Lýður, staðgöngumæðrun er ómöguleg nema konur gefi kost á sér. Að mínu viti eru þær afar fáar (íslenskar) sem eru tilkippilegar, jafnvel þótt væri fyrir sína nánustu.
Hvað sem framförum læknavísindanna líður, má vel vera að það reyndist því auðveldara að gefa blindum sýn en að finna fúsa staðgöngumóður. :)
Kolbrún Hilmars, 23.1.2011 kl. 18:52
Ég ætla nú að hætta á að úr rjúki með því að staðhæfa að þetta eigi að vera alveg frjálst. Það á bara að banna að láta konu nauðuga ganga með barn. Mér finnst að það gætu mörg störf verið verri en ganga með barn fyrir foreldra sem munu elska það og vernda alla æfi og það hlýtur að vera góð tilfinning að gera eitthvað sem gleður aðra svona mikið. Mér finnst miklu alvarlegra að ekki megi greiða konum fyrir þetta. Þetta getur verið mikið álag, kostað mikinn fórnarkostnað og ber að greiða vel fyrir þetta að mínu mati. Jæja komið svo með tennurnar....
Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 23.1.2011 kl. 19:51
Kolbrún, vilji, þó ekki væri nema ein kona, gerast staðgöngumóðir, afhverju ætti að hamla því? Sjálfur hef ég meiri áhyggjur af of mörgum sem til væru í tuskið. Og varðandi pælingu Öddu með greiðslur, þá er það flókavöndull, eiga foreldrarnir að greiða kostnaðinn (sem alltaf verður einhver) eða þjóðfélagið?
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 24.1.2011 kl. 00:06
Lýður, þegar ég segi "afar fáar" þá á ég við það en ekki "engar". Að því leyti óttast ég ekki að staðgöngumæðrun verði ofnotuð hér. Reynir yfirlæknir kvennadeildar LSH hefur sagt að þörfin sé sáralítil; að meðaltali 1 tilfelli á 2ja ára fresti.
Hvað kostnaðinn varðar þá telja ættleiðingarforeldrar ekki eftir sér þann kostnað og fyrirhöfn sem af hlýst erlendis. Ég sé enga þörf á því að íslenskir skattgreiðendur yfirtaki þann kostnað.
Ég er sannfærð um að við getum komist að sanngjarnri niðurstöðu með fyrirkomulagið hérlendis. En feministinn í mér mótmælir hástöfum ef konur verða ekki hafðar með í ráðum. :)
Kolbrún Hilmars, 24.1.2011 kl. 16:05
Sæl aftur, Kolbrún. Er reyndar ósammála mati yfirlæknisins að því leyti að verði á þetta opnað geti umsækjendunum "rignt inn". Vil svo ekki tengja þetta kvenréttindabaráttu heldur mannréttindum og þá líka rétti barnanna ófæddu. Sé ekki tengingu kvenréttinda við þetta sérstaklega.
Kveðja, LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 24.1.2011 kl. 17:07
Kvenréttindi - eða hagsmunir kvenna; spurning hvað við köllum þetta? En á meðan allt sem snýr að meðgöngu og barneignum er háð kvenlíkamanum þykir okkur konum ekki verra að hafa eitthvað um þau mál að segja. :)
Kolbrún Hilmars, 24.1.2011 kl. 17:56
Íslensk kona gekk með barn fyrir systur sína á Íslandi fyrir nokkrum árum.
Ef góðmennska væri málið, þyrfti líklega ekki lög. En málið er að það er skapast atvinnugrein um þetta í Indlandi og víðar og margir líta á það sem mansal. Treysta ekki á að Indverskar konur séu að þessu af góðmennsku. Það eru peningar í spilinu. Einhver karl og eða kona sem þiggur fé og leigir út líkama dóttur, systur eða maka.
Verður afkvæmið að vera nýfætt ? Má það ekki vera munaðarlaust barn frá Rússlandi til dæmis eða Indlandi ?
Hef ekki séð lagatillögurnar sem nú liggja á borði Alþingis en vonandi eru þær bundnar við íslenskar leigumæður á Íslandi.
Guðrún (IP-tala skráð) 24.1.2011 kl. 19:43
Held, Koilbrún, að konur muni sízt vera vigtarminni í þessari umræðu og ákvarðanatöku þegar þar að kemur. Og, Guðrún, staðgöngumæðrun á Indlandi sem atvinnugrein veikist vonandi verði slíkt leyft á Íslandi. Hef litla trú á að staðgöngumæðrun festi sig í sessi hér á Íslandi sem atvinnugrein. En vandi staðgöngumæðrunar er þessi: Tilfinningaleg tengsl staðgöngumóður er óskrifað blað í upphafi meðgöngu. Hvað mun þar standa í lok hennar? Hver er sýn barnsins þegar fram í sækir? Er réttur staðgöngumóður til umgengni við barnið sjálfsagður? Hver á að sjá um brjóstagjöf? Beri staðgöngumóðir skaða af meðgöngunni, hvað þá? Eða að barnið fæðist ekki heilt heilsu eða með óvæntan galla? Hvað ætla menn þá að gera? Þessu er vandsvarað en þarfnast hugleiðingar áðuren lengra er haldið.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 25.1.2011 kl. 01:13
Tvær siðanefndir tóku afstöðu GEGN staðgöngumæðrun á síðasta ári. Á það er ekki minnzt í frumvarpinu!
Sextán manns flytja þetta frumvarp. Þeir hafa naumast neitt vit á málinu nema helzt Ragnheiður Elín, að takmörkuðu leyti, og þó fer hún líka rangt með.
Lesendur hér hefðu virkilega gott af því að lesa eftirfarandi hugleiðingar Guðmundar Pálssonar heilsugæzlulæknis á bloggi hans (allur textinn hér á eftir er hans):
"Við þurfum að átta okkur á hvað full staðgöngumæðrun leiðir af sér í hinni löngu framtíð. Lítil þjóð má við litlu. Enginn veit það ennþá með fullu öryggi hvað þetta felur í sér en það má gera sér það í hugarlund af greinum og bókum (td. hinni upplýsandi bók: The Baby Business eftir Deboru L. Spar sem ég hef áður minnst á).
Athyglin beinist að eftirfarandi framvindu sem mörgum kann að þykja harla þægileg úrþví hún er á annað borð möguleg:
1. Þó að löggjafinn reyni í byrjun að takmarka þann hóp sem notfærir sér staðgöngumæðrun ( td vegna sjúkdóms) mun það á endanum leiða til ótakmarkaðs frjálsræðis. Hver sem er mun geta notað þessa leið til að eignast barn. Konur í vanda vegna sjúkdóma, eldri konur sem komnar eru úr barneign eða einhleypir menn svo dæmi sé nefnt. Til að auka lífshamingju sína auðvitað, ekki geri ég lítið úr því.
Og vert er að athuga að það verða ekki bara þeir sem leita eftir þjónustunni hérlendis heldur einnig erlendis og flytja munu inn barnið eins og varning. Tökum dæmi: sextugur einhleypur maður kaupir meðgöngu með þessum hætti og hvað sem hverjum finnst hefur hann eins mikinn rétt og hver annar að fá sér barn vegna jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.
2. Efirlit mun aukast með fóstrum og fósturgreiningar margfaldast til að útiloka galla og afbrigði. Holgóma börn, Downs syndrome, blöðrur í nýrum, vöntun á líffærum og önnur afbrigði. Allt verður sett í eyðingu rólega og af miklu öryggi og við venjulegt fólk munum ekki mótmæla. Ekki frekar en nú. Þó að við vitum að þetta er rangt. Fóstureyðingar munu þá auðvitað vera ákveðnar af erfðaforeldurm þeim sem ráða staðgöngumóðurina skv. samningi í krafti aðstöðu og fjármuna.
3. Staðgöngumæðrun mun gera mönnum kleift að "hanna" börn í ríkara mæli en áður þekkist og af þessu hafa menn miklar áhyggjur erlendis:
Að velja egg frá mæðrum sem hafa sérstaka eiginleika eða sæði frá útvöldum mönnum er óhjákvæmilegt (horft er á greind, hæð, háralit, augnlit, skapgerð, menntun, félagslegra hæfni, líkamsbyggingu osfrv.) og jafnvel er hætta á þegar tímar líða að menn velji þessa aðferð umfram hina náttúrulegu aðferð.
Ég meina að hin að náttúrulega aðferð muni þykja áhættumeiri og jafnvel óráðleg ( auðvitað að ráði lækna). Hvar stöndum við þá? Er öllum sama og telja menn þetta bara vera eins konar svefnherbergismál? Nei, auðvitað snertir [það] okkar sameiginlega siðferði. Það breytir því og eyðileggur það innan frá leyfi ég mér að fullyrða með allri virðingu.
4. Menn munu venjast því að greitt sé fyrir barnsmeðgöngu og telja það eðlilegt. Þetta mun hægt og örugglega hnika til siðferðisviðmiðum okkar.
5. Samviska manna gagnvart konum sem vegna peninganauðar eða atvinnu ganga með barn mun dofna. Litið verður á meðgöngustarfsemi sem atvinnuveg og við munum hætta að hafa áhyggjur af örlögum þeirra kvenna sem ganga með barn fyrir aðra ekki frekar en við höfum áhyggur af stúlkum sem sauma NIKE skó sem við kaupum í næstu verslun. Við verðum blind og okkur verður alveg sama.
Guðmundur Pálsson, 24.1.2011 kl. 00:08."
Jón Valur Jensson, 25.1.2011 kl. 03:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.