25.1.2011 | 02:02
STEYPUVÉL VINNUVEITENDASAMBANDSINS.
Enn og aftur birtist almenningi hin raunverulega ríkisstjórn Íslands. Í kvöldfréttum sátu forkólfar atvinnulífsins við samningaborðið og sögðu ekkert slíkt koma til greina nema lögboðnir valdhafar beygðu sig undir þeirra vilja í fiskveiðistjórnunarmálum. Vilhjálmur Egilsson sagði ólíðandi að bregða fæti fyrir helstu útflutningsgrein íslendinga, sjávarútveginn, með kerfisbreytingum. Talaði um gamlan flota sem þyrfti að endurnýja en óvissan sem fylgdi þeim Jóhönnu og Steingrími hamlaði öllum slíkum fjárfestingum. Þegar vel undirbúinn fréttamaður stöðvar tvö spurði hvort togarasmíði væri ekki hvort sem er öll í höndum erlendra aðila fór steypuvélin í gang. Staðreyndin er sú að lítill línubátur veiðir fjórðung þess sem risavaxinn frystitogari halar upp árlega en er 30 sinnum ódýrari, að ekki sé talað um veiðitíma, mannskap og eldsneyti . Margumtalaðri hagræðingu og fjárfestingu í sjávarútvegi er ekki haldið niðri af ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur heldur einmitt af þessum sömu þrönghagsmunaseggjum sem kvaka hæst. Úrkula er að þessir sjálfkjörnu ráðamenn vinnuveitendasambandsins munu nokkurn tíma koma auga á yfirgang sinn en með illu skal illt út reka og næsta skref réttkjörinna ráðamanna ætti hikstalaust að vera lagasetning sem tryggði frið á vinnumarkaði meðan unnið væri að nauðsynlegum og löngu tímabærum úrbótum á gjaldþrota fiskveiðistjórnun.
LÁ
Athugasemdir
Ef sjávarútvegurinn skuldar 500 til 700 þúsund milljónir þá ætti nú flotinn að vera vel útbúinn. En getur það verið að megnið að þessari skuldasúpu komi sjávarútveginum ekkert við? LÍÚ hvað??
Sigurður I B Guðmundsson, 25.1.2011 kl. 10:52
Hvað hefur orðið um alla hagræðinguna í sjávarútvegi sem svo mjög er um talað ?
Árum saman hefur forysta útgerðarmanna hamrað á að það kerfi sem við búum nú við sé það besta og hagkvæmasta sem í boði er. Undir það taka svo sveitastjórnir sem á einn eða annan hátt eru upp á þessi fyrirtæki komin. Hafi einhverjir geta pantað sér lagasetningar sér til hagræðis og hagnaðarauka þá eru það téðir útgerðarmenn.
Þeir hafa hinsvegar veikan málstað að verja því nú er komið í ljós að eftir að þeir knúðu fram leyfi til að veðsetja óveiddan afla þá eru þeir sekir um að hafa komið stórum hluta kvótans í eigu erlendra aðila gegnum þessi veð. Ef ég man rétt þá er útlendingum óheimilt að eiga þessa auðlind okkar. Ef þessi menn hefðu snefil af sómatilfinningu og bæru hag þessa lands fyrir brjósti þá myndu þeir í versta falli þegja þunnu hljóði og ekki gera stuðning við þessi lögbrot að ásteitingarsteini í kjaraviðræðum. Þú hefur rétt fyrir þér Lýður. Þarna fer hin raunverulega stjórn landsins. Ég veit það eitt að ég hef ekki kosið þessa menn.
Hjalti Tómasson, 25.1.2011 kl. 11:38
Ég var einmitt að hamra eftir því hve mikið sjávarútvegurinn skuldaði en þetta er heill hellingur og vextir ásamt fjármagnskostað yrðu þá um 70 milljarðar. Það þíðir að það kemur engin arður í ríkissjóð þá er skattur nema sem tekjuskattur vegna greiddra launa.
Valdimar Samúelsson, 25.1.2011 kl. 12:06
Ein spurnig ef fiskveiðar verða eftir kerfisbreytingu reknar með tapi. Tökum við þá upp gamla gengisfellingarkerfið. Þetta er eðlileg spurning því þið ættlið fjölga skipum og mannskap við að veiða sama magn af fiski.
Guðmundur Ingi Kristinsson, 25.1.2011 kl. 20:34
Guðmundur Ingi.... Fyrsta viðurkenningin er sú að núgildandi fiskveiðsistjórnunarkerfi er örmagna. Eftir breytingar gætu menn fengið veiðirétt án þeirra gífurlega útláta sem nú þarf til og falla ekki einu sinni í ríkissjóð. Hvað fjölgun manna og skipa varðar mun það lúta markaðslögmálum og í annan stað hugsanlega verða veitt meira enda efast margir um fiskihagfræði þá sem rekin hefur verið.
LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 26.1.2011 kl. 01:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.