KLÚÐUR Í LÝÐRÆÐISÁTT.

Hæstaréttardómur um ógildingu stjórnlagaþings er staðreynd.   Umræða í netheimum er í öllum regnbogans litum og gjá andstæðra fylkinga dýpri í dag en í gær.  Trúandi á nauðsyn þessa verks, þ.e. endurskoðun stjórnarskrárinnar, er þessi úrskurður hæstaréttar vonbrigði.  Auðvitað hef ég á honum skoðun en beini þó ábyrgðinni til þeirra sem skipulögðu kosninguna, landskjörstjórnar.  Í þeirra verkahring var að leiða málið til lykta og gefa engin færi á falli þess vegna formgalla.  Hreint og klárt kosningasvindl hefði verið ásættanlegra.   Þessu klúðri til lýðræðisáttar er vitanlega klínt á ríkisstjórnina, hvert annað?  Löngu er ljóst að sterk öfl í þjóðfélaginu eru andvíg stjórnlagaþingi.  Þessi sömu öfl fögnuðu í dag.  Löglega kjörin ríkisstjórn heldur þó enn umboði sínu þó stjórnlagaþingið nýkjörna geri það ekki.    Og eini raunhæfi kostur þessarar ríkisstjórnar, ætli hún sér að sitja áfram, er halda fast við sinn keip og undirbúa þegar í stað kosningar til nýs stjórnlagaþings.   Þannig stendur hún og fellur með sínum loforðum og gjörðum og þannig kemur hún til móts við dómsorð hæstaréttar í dag.   Hvort lýðræðið sé peninganna virði kemur svo í hlut kjósenda að skera úr um við næstu alþingiskosningar.   En hopi ríkisstjórnin frá stjórnlagaþingi er alveg eins gott að hleypa að Hrunflokkunum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Aðalvandamálið sem stjórnlagaþing hefði þurft að afgreiða, og mun fyrr eða síðar vera afgreitt með einhverju hætti , er að það þarf tæra og algjöra þrískiptingu ríkisvaldsins eins og heimsins mestu lýðræðisríki hafa. 

Í Bandaríkjunum eða Frakklandi væri Jóhanna Sigurðardóttir í fangelsi ásamt öllum ábyrgum ráðherrum og þingmönnum fyrir Lýsingarmálið, en þar greip þingið fyrir hendurnar á Hæstarétt. 

Í Lýsingarmálinu stóð ríkisstjórnin með auðvaldinu á kostnað hundruða heimila sem annars hefðu ekki orðið gjaldþrota og sýndi þar sitt rétta andlit. 

Þessi ríkisstjórn hafði aldrei áhuga á Þrískiptingu ríkisvald eða nokkrum öðrum góðum uppástungum stjórnlagaþing, hvað sem hún þykist nú, þá hefði hún ekki hrækt svona í andlitið á Hæstarétti og fólkinu í landinu um leið. Þetta er aðeins eitt af mörgum dæmum um hvernig ríkisstjórnin hefur brotið á rétti fólksins í trossi við dóma Hæstaréttar.

Hér lyktar allt af samsæri og ólöglegu ráðabruggi. Stjórnlagaþing átti aðeins að vera "ráðgefandi", og góðum hugmyndum eins og þrískiptingu valdsins átti að henda út, en í til dæmis Bandaríkjunum færi Obama sjálfur í steininn ef hann sýndi Hæstaréttardómara viðlíka fyrirlitningu og Jóhanna gerði með sínum einræðistilburðum í Lýsingarmálinu sem gerði hundruði heimila gjaldþrota út af verndarhendi þeirri sem ríkisstjórnin hélt yfir auðvaldinu.....

Það er því augljóst að góðar ábendingar þessa þings hefði svona fólk hunsað með öllu, og aðeins misnotað það til að gera ólöglega innlimun inn í ESB auðveldari, í trássi við vilja og hagsmuni fólksins.

Þetta þing verður því geymt fyrir betri tíma og fyrir hæfara fólk með stærri og hærri og réttari hugsjónir, framtíðar leiðtoga Norðurbandalagsins.

Norðurbandalagið sigrar! = Friðurinn sigrar! (IP-tala skráð) 26.1.2011 kl. 03:43

2 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Það er auðséð á öllu að flugumenn LÍÚ hafa komið fyrir mannskap í undirbúning við framkvæmd kosninganna.

Varla hefði þetta klúður að öðrum kosti átt sér stað ?

Nú þarf að ransaka þá sem stóðu að málum og skipulögðu framkvæmdina.

Níels A. Ársælsson., 26.1.2011 kl. 08:20

3 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Málið er ekki flókið. Fyrsta tilraun mistókst. Næst verður bætt um betur. Allt þetta pólitíska karp er reyndar jafn pirrandi og suðandi fluga í eldhúsaglugga. Sumir eru alveg að fara á límingunum að sperringi. - En þetta mun líða hjá og vonandi verður efnt til nýrra kosninga sem fyrst.

Svanur Gísli Þorkelsson, 26.1.2011 kl. 10:18

4 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Níels

Það þarf ekki flugumenn LÍÚ eða nokkurn utanaðkomandi til að klúðra málum fyrir ríkisstjórninni, mér sýnist hún vera full fær um það án utanaðkomandi aðstoðar.

Það hefur engri ríkisstjórn, hvorki fyrr né síðar, tekist eins vel til við að klúðra nokkrum málum eins og þessari tæru vinstri- "velferðarstjórn".

Tómas Ibsen Halldórsson, 26.1.2011 kl. 11:44

5 identicon

Sneypa ríkisstjórnarinnar í þessu máli er augljós og reyndar nokkrum öðrum líka.  En nýja stjórnarskrá tel ég nauðsyn fyrir framhaldið og horfi lengra fram á veginn en líftíma þessarar stjórnar.  En Tómasi Ibsen er ég ekki sammála um klúðurmet ríkisstjórna nema nokkrar þær síðustu hafa verið stórstígar í þeim efnum. 

lydurarnason (IP-tala skráð) 26.1.2011 kl. 12:57

6 Smámynd: Hjalti Tómasson

Þessi ríkisstjórn er farin að höggva nærri heimsmeti í störfum sínum og vanhæfni.

Spurning hvort stjórn Mugabes í Zimbabwe er þeim ekki framar en þó minnkar bilið óðfluga.

Ég hef áður sagt og segi enn að raunveruleg völd stjórnmálamanna eru lítil sem engin hér á landi. Áratugum saman hafa hagsmunaaðilar verið að koma sínu fólki í lykilstöður í þjóðfélaginu og nú er svo komið að það er fyrst og fremst embættismannakefið, í umboði hagsmunaaðila, sem fer með völdin. Þar koma útgerðarmenn sterkir inn enda fáir, ef nokkrir, sem hafa haft annan eins aðgang að stjórnvaldinu og þeir. Það er þeim klárlega ekki í hag að taka áhættuna á að upp komi kröfur um breytta stjórnarhætti eða þá, hjálpi okkur allir heilagir, að stjórnlagaþing leggist á sveif með almenning og krefjist þess að hagnaður af auðlindum falli í skaut þjóðarinnar en ekki þeirra.

Þessvegna, eftir á að hyggja, er spurning hversu lengi við eigum að berja á ríkisstjórninni fyrir vitleysisganginn sem hér ríkir. Það skásta sem hún getur gert í stöðunni er að reyna að halda andlitinu án þess að styggja um of raunverulega valdhafa.

Hjalti Tómasson, 26.1.2011 kl. 14:42

7 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Nýfallinn dómur minnir mig á það þegar sýslumaður úti á landi dæmdi bónda fyrir landabrugg þótt ekkert brugg fyndist en hann átti tæki og tól til bruggunar. Bóndi kærði þá sýslumann fyrir hórdóm með sömu rökum.

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 26.1.2011 kl. 16:48

8 Smámynd: Ólafur Als

Lýður, hér bregst rýni þín ... og jafnvel skopskyn, sem sumum þætti nú heldur verra. Þetta klúður landstjórnar gefur þér vonandi ekki tilefni til fleiri aðdróttana í garð þeirra sem eru þér ekki sammála. Landstjórnin og kjörstjórnin sáu alfarið um þetta sjálf og bera því ábyrgðina ein.

Sumir vilja fara aðra leið en þá að boða til stjórnlagaþings. Ég skal ekki segja hvort aðrar leiðir séu meira eða minna lýðræðislegar, betri eða verri, en ég kaupi ekki þau rök að senda þig og 24 aðra sé sú leið sem tryggi þjóðinni lýðræðislegan og beinan aðgang.  Tók ég þó þátt í kosningunni en þeir einstaklingar sem samsinntu mér í veigamiklum málum fengu ekki brautargengi. Annars var mest um að ræða sömu helgislepjuna hjá lang flestum frambjóðendum.

Vitanlega var sjálf kosningin ekki einasta klúðrið. Kosningabarátta hugmyndanna var engin og einungis um að ræða yfirborðslega kynningu á einstaklingum og vinsældaviðhorfum. Hvergi var tekist á, enginn reiðubúinn til þess að leggja eitthvað nýtt til - allir svo blessunarlega sammála um að hafa áhuga á þjóðmálum og tilteknum skoðunum, sem þjóðfundurinn matreiddi ofan í landslýð.

Ekki sér enn fyrir endann á vitleysunni, fjölmargir einstaklingar, þ.á.m. þú, Lýður, hafið eflaust skaðabótarétt í málinu, sem og allir þeir stafsmenn, sem búið er að ráða til verkefnisins, svo fátt eitt sé talið. Hinar pólitísku afleiðingar verða væntanlega þær að dindlar stjórnvalda sjá til þess að hún lifi þessa kollsteypu af; þær hafa jú verið all nokkrar til þessa og sumar hafa þær varðað efnahagsleg fjöregg þjóðarinnar en hvern varðar nú um slíkt?

Ólafur Als, 26.1.2011 kl. 19:15

9 identicon

Ólafur Als...  Það sem þú kallar aðdróttanir kalla ég klára afstöðu.   Margir voru og eru mótfallnir stjórnlagaþingi enda einn kæranda gagngert lýst þeim tilgangi sínum að eyðileggja þingið.  Ekki má heldur gleyma því að formið var ákveðið af alþingi sem samþykkti frumvarp þessa efnis.  Eflaust var hægt að hafa þetta öðruvísi en leikreglurnar voru 25 manns, kosnir opnu persónukjöri í einu kjördæmi.  Helgislepja eða ekki ákveður hver fyrir sig en hópnum sem að lokum var kosinn átti að útbýta verkefninu.  Kosningabaráttan einkenndist auðvitað af lítilli kynningu en þar stóðu allir jafnir.  Þekkt andlit höfðu sjálfgefið forskot en við því er ekkert að gera.  Skaðabótaskyldu veit ég ekkert um en tel peningasjónarmið ekki hafa truflað hugi frambjóðendanna 522.  Lykilatriði nú er að ríkisstjórnin hopi ekki frá markmiðum sínum varðandi stjórnlagaþing.

Lydurarnason (IP-tala skráð) 26.1.2011 kl. 22:51

10 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Þeir sem sjá ekki sannleikan í þessu máli ættu að taka af sér gleraugun eða hætta að horfa út og horfa þess í stað aftur í hnakkann.

Þetta stjórnlaga þings þvaður er ekkert léttvægt spaug.  Það er þreyngt að fólki en samt er nóg til af peningum til að atast í vitleysu einhverjum til hamingju en þjóðinni til bölvunar.

Hallt þú áfram svo sem þér hentar Lýður Árnason en þig styð ég aldrei aftur til nokkurs verks.  Mistök geri ég helst ekki oftar en einu sinni.  

Hrólfur Þ Hraundal, 26.1.2011 kl. 23:42

11 identicon

Hraundal yfirgaf þig - en ég yfirgef þig aldrei. Forsíða moggans á kosningadaginn og forsíða moggans í dag segir allt sem segja þarf um skollaleikinn.

Grímur Atlason (IP-tala skráð) 27.1.2011 kl. 00:13

12 Smámynd: Ólafur Als

Lýður, hvað hafa andstæðingar stjórnmálaþings með þetta klúður valdhafanna að gera? Finnst þér þetta, e.t.v., ekki vera klúður valdhafanna? Finnst þér það óeðlilegt að málinu sé "klínt" á ríkisstjórnina? Eins og gefur að skilja munu ýmsir gleðjast yfir þessari niðurstöðu og ekkert athugavert við það. Ekki frekar en vonbrigði þín og margra annarra hljóta að vera mikil. Þó verð ég að sega að ekki fæ ég nú séð að endurskoðun stjórnarskrárinnar sé feig, á endurskoðun mun hægjast og vonandi mun þetta kenna fólki að vanda betur til verka en ekki keyra á öldum populismans með plagg sem vonandi á að standa um jafnvel árhundruð.

Ég ætla ekki valdstjórninni að hún þurfi að fara frá vegna þessa klúðurs. Það hafa önnur mál séð til þess að ég hef gefið henni reisupassann - fyrir margt löngu. En það er önnur saga. Að þú skautir svona auðveldlega framhjá gagnrýni minni á innihaldsleysi umræðunnar í aðdraganda kosninganna, hve léttvæg hún var og áferðarfalleg þykir mér athyglivert ... og svo átti að treysta þér og öllum hinum til þess að tala máli þjóðarinnar. Nei, kæri Lýður, hér vantar all mikið upp á svo fjölmargt, ekki síst sjálfsgagnrýni og sitthvað fleira ónefnt.

Að öðru leyti óska ég þér hins besta og að skynsamleg niðurstaða fáist í þetta stóra mál.

Ólafur Als, 27.1.2011 kl. 00:28

13 identicon

Alveg ósammála þér H. Hraundal varðandi mikilvægi þessa stjórnlagaþings, hefði annars ekki boðið mig fram.  Kalla þingið bölvun undirstrikar afstöðumun okkar og óska ég þér alls hins bezta í annarri vegferð.  Ólafur Als, ekki dreg ég dul á þátt ríkisstjórnarinnar í þessu kosningaklúðri, hún réð ekki nógu hæft fólk.  Einnig sammála þér um önnur axarsköft þessarar stjórnar, ESB, Icesave og skuldavanda heimilanna.   Ég skauta ekkert framhjá kosningaumræðunni, hún var léttvæg, óupplýsandi og yfirborðsleg, á það dreg ég enga dul.  Áferðarfalleg?  Þín túlkun, ekki mín.  Hvað sjálfrýnina varðar hef ég staðið á mínum skoðunum síðan ég fór að tjá mig opinberlega um pólitík og hyggst gera það áfram.  Miður þetta vantraust og vona þú finnir þá aðrar syllur. 

Lydurarnason (IP-tala skráð) 27.1.2011 kl. 01:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband